Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 15:28:37 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að heyra að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson talar um nýtingarrétt því að það er náttúrlega lykilhugtak í þessari umræðu allri saman.

Það kann að vera að sjávarútvegurinn sé vel rekinn, ég vil ekki draga það í efa, en þetta snýst kannski ekki aðallega um það nema þá öðrum þræði. Þetta snýst fyrst og fremst um það að þjóðin njóti arðsins af vel rekinni atvinnugrein þar sem þjóðin er eigandi auðlindarinnar. Það kerfi sem við búum við er leiguliðakerfi, það býður upp á mismunun. Leikreglurnar eru ekki eins sanngjarnar og þær gætu verið. Umræðan snýst um það að reyna að breyta því. Umræðan er hins vegar allt of mörkuð tortryggni og átakasókn í allri framgöngu, jafnvel beggja málsaðila ef út í það er farið.

Af því að þingmaðurinn talar um að það sé æskilegra að umrædd nefnd fái frið til starfa vil ég benda á að það verður þá líka að vera trúverðugt að nefndin sé að störfum og að menn gangi þar af fullum heilindum til starfa. Eins og sakir standa hefur maður ekki ástæðu til að ætla að þar séu menn nægilega samstilltir og samstiga í því að ganga að verkefninu af fullum heilindum því, eins og við vitum, hefur einn stærsti hagsmunaaðilinn þegar eiginlega stokkið frá verkinu. Þar með er komin óvissa og undir þá óvissu ýtir sá hagsmunaaðili með framgöngu sinni.

Auðvitað væri æskilegast ef menn gengju af fullri alvöru að því verki að takast á við þetta verkefni og að menn tækju það verkefni alvarlega að stjórnvöld hafa þann einlæga ásetning að koma hér á sanngjarnari skipan í fiskveiðistjórnarmálum.