Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 15:32:51 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil taka þá umræðu sem átti sér stað á milli hv. tveggja síðustu ræðumanna aðeins áfram. Ég verð að taka undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni og ég lýsi furðu minni yfir málflutningi hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur þegar hún segir að tími sé kominn til þess að þjóðin njóti arðsemi af sjávarútvegi. Við hv. þingmann vil ég segja að þjóðin nýtur að sjálfsögðu arðsemi af þessari atvinnugrein í því formi að þegar við erum með vel rekinn sjávarútveg, eins og við erum með núna, veitir hann atvinnu og greiðir skatta og hann er jafnframt eina atvinnugreinin sem greiðir auðlindagjald, fyrir utan þessa nýju ömurlegu orkuskatta sem þessi ágæta ríkisstjórn var að setja á.

Auðlindagjaldið var, eftir því sem ég best man, 1,4 milljarðar á seinasta ári og ríkisstjórnin hefur kosið að verja 1,4 milljörðum í að sækja um aðild að Evrópusambandinu. En það er önnur saga. En þetta er mikilvæg arðsemi af þessari atvinnugrein og það er köld, blaut tuska framan í allt það góða fólk sem vinnur í þessari mikilvægu atvinnugrein að þurfa sífellt að hlusta á málflutning eins og þann sem sérstaklega þingmenn Samfylkingarinnar hafa í frammi, en þó örlar á því líka hjá sumum þingmönnum Vinstri grænna. Það þarf alltaf að vera að tala niður til þessa fólks, það þarf að vera að tala niður til fólks sem er að hætta fjármunum sínum í rekstur og er að kaupa til þess atvinnutæki og tól og veiðiheimildir vegna þess að — (ÓÞ: Hver er að tala niður til fólks núna?) ég er ekki að tala niður til þess fólks sem stundar þessa atvinnugrein, ég leyfi mér að andmæla því sjónarmiði sem ég tel koma fram hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur. Ég er ekki heldur að tala niður til þingmannsins, ég er að lýsa mig andsnúna skoðunum hennar. Það hlýtur að vera það hlutverk sem okkur hér á hinu háa Alþingi er ætlað. Það hefur nefnilega verið einkenni þessarar umræðu, bæði í dag og líka í fyrradag, að það eru allir að kalla eftir sátt og það er nákvæmlega það sem ég held að við öll getum sameinast um. Við viljum öll hafa sátt um þessa atvinnugrein en við erum ekki sammála um það hvernig við getum nálgast þá sátt.

Þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði þennan sáttahóp og þessa sáttanefnd, sem í áttu sæti allir hagsmunaaðilar, allir stjórnmálaflokkar og væntanlega allar skoðanir sem er að finna um þennan málaflokk, hélt ég að eitthvað væri á bak við það, að það ætti að leita sátta. Þá kemur hæstv. ríkisstjórn og segist vera að framfylgja stefnu sinni sem allir hefðu átt að þekkja og að þjóðin hafi kosið þessa tvo flokka út af stefnu þeirra. Ég fór yfir það í andsvari við hv. þm. Róbert Marshall í fyrradag að ég er ekki sammála því. Ég held að þessi ríkisstjórn hafi verið kosin af mörgum vitlausum ástæðum og ég held hún hafi verið kosin þrátt fyrir stefnu hennar í sjávarútvegsmálum. Hún var m.a. kosin vegna þess að verið var að refsa mínum flokki, sem hafði verið lengi við völd. Við urðum fyrir efnahagslegu áfalli á okkar vakt. Það var þess vegna sem var verið að skipta um ríkisstjórn, það var ekki út af sjávarútvegsstefnunni og það er algjör fjarstæða að halda slíku fram.

Gott og vel. Hæstv. ríkisstjórn segist vera að framfylgja stefnu sinni sem allir hafi átt að þekkja og hún sé að ná fram breytingum. Þetta segir hún í öðru orðinu, sáttin mikilvæga er sett í nefnd en um leið og nefndin er skipuð er allt tekið úr því sáttaferli og þá kennir ríkisstjórnin þeim aðilum sem eru ekki sáttir við það verklag um að vera að rjúfa þá margumræddu sátt. Ég bara næ ekki þessu samhengi.

Það er fullt af atriðum sem menn eru ekki sammála um í þessu kerfi og það er fullt af atriðum sem hægt er að breyta. Og það má nefna fullt af öðrum atriðum, eins og hér hefur komið fram, sem ég ætla ekki að endurtaka. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sem þekkir þessi mál eflaust betur en nokkur annar í þessum sal — ég leyfi mér að fullyrða það, með allri virðingu fyrir öllum öðrum — talar af þvílíkri kunnáttu og reynslu að það ber af. Hann nefnir fullt af atriðum sem hægt væri að fara yfir og heldur þeirri skoðun sinni fram að í sumum tilfellum þurfi ekki að vera svo langt á milli manna. En það er langt á milli manna um ákveðin grundvallaratriði og ég hélt, miðað við það sem segir í skipunarbréfi umræddrar nefndar, og það sem hæstv. ráðherra sagði á ræðu sinni hjá LÍÚ í haust, að það ætti einmitt að taka þessi grundvallaratriði út fyrir það karp sem við erum í hér, taka grundvallaratriðin, þau atriði sem mestu deilurnar eru um, og setja það í þann farveg að við getum náð einhverri lendingu. Ég hélt, kannski í einfeldni minni, að það væri stefna ríkisstjórnarinnar sem talar svo mikið um mikilvægi þverpólitískrar sáttar á tyllidögum.

Nei, þrátt fyrir að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi sagt í ræðu hjá LÍÚ fyrir örfáum vikum, með leyfi forseta:

„Eins og þið þekkið ákvað ég á grundvelli samstarfsyfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar að setja á fót vinnuhóp til þess að fara yfir stóru drættina og álitaefnin í fiskveiðistjórnarkerfinu og koma með tillögur til úrbóta. Meginmarkmiðið með skipan þessa vinnuhóps er að freista þess að ná fram tillögum sem skapa meiri sátt um það meðal þjóðarinnar. Ég vil tiltaka hér sérstaklega að ég hef fyrir löngu ákveðið að gefa vinnuhópnum það svigrúm sem hann þarf. Með þessu á ég við að hann mun fá frið til verka sinna án sérstakrar íhlutunar af minni hálfu. Ég tel mikilvægt að aðrir sem hér eiga hlut að máli haldi þessa sömu stefnu í heiðri.“

Hér talar hæstv. ráðherra um álitaefni og stóru drættina. Það kann vel að vera, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar hélt fram við umræðuna í fyrradag, að þetta frumvarp sé ekki stærsta álitamálið, en það sem verið er að gera, t.d. með skötuselsákvæðinu, er að það er verið að fara bakdyramegin að fyrningarleiðinni. Og fyrningarleiðin er eitt af þeim stóru atriðum sem grundvallarágreiningur er um og ég hefði haldið að væri þá það sem ætti að vera til umræðu í þessari ágætu nefnd.

Ef menn eru virkilega á þeim buxunum að ná sátt, ef menn eru virkilega að leita eftir því að kalla alla aðila að borðinu til þess að ná sátt, hefði ég talið að það væri einfaldara með það að markmiði að ná sameiginlegri niðurstöðu, sem ég trúi að menn vilji, hefði ég haldið, vegna þess að menn vissu og gátu sagt sér það fyrir fram að þetta atriði mundi valda deilum, að það væri einfaldara að setja það inn í nefndina, gera eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði hér í fyrradag, láta fyrningarleiðina vera eina af þeim tillögum sem nefndin fengi til skoðunar til útfærslu, til umræðu, og sjá, þegar öll rök eru komin fram, þegar allir sem að þessu máli koma og hafa skoðun, eru búnir að ræða þetta sín á milli, ná einhverri lendingu, þá væri hægt að fara fram. En það sem verið er að gera hér, þó að mönnum finnist þetta ekki vera stærsta málið, er að grafa undan því að hægt sé að ná þessari sátt vegna þess að það virðist vera þannig að það ekki sé vilji fyrir hendi.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kemur hinum megin frá og segir: Það er LÍÚ sem er að rjúfa sáttina með því að mæta ekki. Það eru útvegsmenn sem eru vondi kallinn í þessu samhengi og það er þeim að kenna að ekki næst sátt. Það getur vel verið að LÍÚ ætti að fara að finna sér einhverjar aðrar aðferðir en að mæta ekki á fundi, ég skal ekkert um það segja. Ég held að í flestum deilumálum sé betra að koma að borðinu og ræða málin. Ég held hins vegar að ef báðir aðilar ættu hugsa málið: Hvað er það sem kemur í veg fyrir að við getum rætt þessi mál? Það er annars vegar það sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kallar hótanir LÍÚ en hins vegar er það það sem ég held fram að sé hálfgerð ögrun frá ríkisstjórninni að vera að koma með þetta mál vitandi að það muni valda þessum deilum.

Ég spurði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að því í umræðunni í andsvari fyrr í vikunni, hvort það væri ekki augljósasta málið til þess að leyfa þessum málum einhvern veginn að komast áfram að taka það úr þessu frumvarpi sem ekki er ágreiningur um, leggja hitt til hliðar, halda áfram með nefndarstarfið og reyna að freista þess í einlægni að ná um þetta sátt. Ég held að það sé eina vitið í þessu máli og legg það hér formlega til. Þetta snýst nefnilega um vinnubrögð. Þetta snýst um að koma málum áfram og fólk þarf að gefa eftir og við erum með nóga óvissu í samfélaginu þó að það þurfi ekki að bæta á þetta. Við erum með svo mörg verkefni í gangi sem eru brýn og þarf að leggjast yfir og einhenda sér í. Það er grátlegt að sjá það að embættismenn, t.d. í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, eru annars vegar að undirbúa aðildarumsókn til Evrópusambandsins og hins vegar að vinna í máli sem gæti svo — segjum að það næðist nú sátt þrátt fyrir allt í nefndinni og það yrði ekki um þessa leið. Þá er búið að eyða þarna dýrmætum tíma í það sem ég vil leyfa mér að kalla vitleysu.

Virðulegi forseti. Það er mikið talað í þessum stól af hálfu ákveðinna þingmanna um 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins og henni er kennt um allt sem miður hefur farið hér, ég sé að hv. þm. Ögmundur Jónasson allt að því nikkar og kinkar kolli yfir þessu, það er einmitt það sem við erum ekki alltaf sammála um. Ég vil leyfa mér að halda því fram að það sé 18 ára, í tilfelli VG, og 16 ára stjórnarandstaða og valdaþrá þeirra tveggja flokka sem nú eru í ríkisstjórn sem verður til þess að það er farið dálítið vitlaust að verkum. Það er verið að fara hér af stað til að breyta bara til þess að koma einhverju í burtu sem þessi bévítans, svo að ég kveði nú ekki sterkara að orði, Sjálfstæðisflokkur hefur komið til leiðar. Við verðum að breyta bara breytinganna vegna til þess að láta í það skína að við séum komin til valda núna.

Þetta er eins með skattkerfið. Það var ákveðið að ná þyrfti meiri tekjum í ríkissjóð. Það þurfti ekkert endilega að fara að breyta öllu skattkerfinu kortéri fyrir áramót til þess að ná þeim markmiðum. Nei, en það þurfti að breyta breytinganna vegna og ég vil kenna 18 ára valdaþrá um. Hún verður þess valdandi að menn blindast af verkefninu og átta sig ekki á því að það er endapunkturinn og útkoman sem skiptir máli. Mér finnst gagnrýnisvert að þannig sé farið af stað með þessa mikilvægu atvinnugrein okkar, og þetta er ekki einhver áróður Sjálfstæðisflokksins eða áróður LÍÚ sem ég er að segja hér. Það er óvissa í þessari grein fyrst og fremst vegna þess að menn vita ekki hvers konar fiskveiðistjórnarkerfi, hvers konar sjávarútveg, við erum að fara að reka á næstu mánuðum og missirum.

Það er ekki eitthvað sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur fram í einhverju tómarúmi. Ég er þingmaður stórs kjördæmis, landsbyggðarkjördæmis, þar sem eru mikilvægir útgerðarstaðir, og ég fer og tala við fólkið í þessu kjördæmi, úr öllum flokkum, niðri á höfn, inni í frystihúsunum, þá sem eru að reka útgerðarfyrirtækin, úti um allt. Það er það fólk sem er að segja þetta við mig, fiskvinnslufólkið. Það segir bara: Látið okkur í friði. Það er nóg af verkefnum fyrir ykkur til að dandalast yfir og sinna. Látið þið okkur í friði til að við getum haldið áfram að byggja hér upp samfélag og byggja upp að nýju eftir það áfall sem við urðum fyrir. Það er ábyrgðarhluti að taka atvinnugrein, sem er að sönnu skuldsett eins og aðrar atvinnugreinar hér í landinu, en hefur alla burði til að vinna sig út úr þeim skuldum, þessum tökum. Ef hún fengi að vera í friði og fengi tækifæri til þess að gera áætlanir og plana reksturinn fram í tímann, hvort sem það heitir veiðar eða markaðsstarf, þá er það það mikilvægasta sem við getum gert hér á Alþingi að veita fólki svigrúm til þess að vinna vinnuna sína. Þetta er ekki áróður Sjálfstæðisflokksins, þetta er það sem fólkið í landinu er að segja, a.m.k. við mig.

Virðulegur forseti. Það má líka ræða forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í þessu samhengi. Ég mundi frekar vilja vera hér að ræða það sem var rætt hér fyrr í dag, þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir til að aðstoða heimilin og fyrirtækin í landinu í staðinn fyrir að vera alltaf að fikta í hlutum sem eru í lagi. Tökum þau atriði sem ósætti er um, hv. þm. Ögmundur Jónasson, og leyfum þessari nefnd að vinna að þeim atriðum eins og hæstv. ráðherra boðaði að hann mundi gera. Það er það sem mér er fyrirmunað að skilja. Ég er ekki að taka neitt löggjafarvald, hvorki af stjórnarþingmönnum né af ríkisstjórninni, að hún geti ekki komið þeirri stefnu sinni í framkvæmd sem hún hefur boðað. En þá, eins og ég held að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hafi sagt hér áðan: Þá er bara að segja það, við ætlum ekkert að gera þetta í sátt við greinina. Við teljum að þetta sé rétta stefnan og þá ætlum við bara að gera það. Hætta þá bara öllum leikaraskap og vera ekki að eyða tíma 18 manna í eitthvert nefndarstarf. (BVG: 23.) — Hvað segirðu, 23? Afsakið, ég fæ hér leiðréttingu frá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni, nefndarmenn eru 23 en ekki 18, og rétt skal vera rétt.

Það er líka dálítið kúnstugt ef maður fer, og nú er tími minn bráðum á þrotum, aðeins í efnisatriði þessa frumvarps — mikið hefur verið rætt um þetta skötuselsákvæði og raunar með ólíkindum að þingflokkur Vinstri grænna skuli vera að leggja það fram eftir allt talið um sjálfbæra þróun að hér sé verið að fara þvert gegn ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom hér og sagði: Ég mun fara varlega og ég mun hafa samband við Hafrannsóknastofnun um þetta allt saman.

Ég er hér með bréfið frá Hafrannsóknastofnun frá því 24. nóvember, það er varla þornað á því blekið, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Það gengur gegn þessum sjónarmiðum“ — sem eru um skynsamlega nýtingu fiskstofna, vil ég bæta hér við af því að ég les ekki alla málsgreinina — „að veitt sé umfram ráðgjöf stofnunarinnar eins og verið hefur undanfarin ár og samrýmist ekki stefnu um sjálfbæra nýtingu. Það geta varla talist ábyrgar fiskveiðar eða varúðarnálgun við stjórn fiskveiða ef verulega er farið fram úr ráðgjöf sem miðast við að nýta uppvaxandi árganga jafnvel þótt stofn sé í vexti.“

Nú er ég ekki fiskifræðingur og ætla ekki að halda því fram að ég viti mest um þessi mál en hér tjáir forstjóri Hafrannsóknastofnunar sig beint um þetta í bréfi frá því í október, í tveggja mánaða gömlu bréfi, og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir hér á þriðjudaginn að hann ætli að fara varlega og tala við Hafrannsóknastofnun. Hann þarf ekkert að fara varlega, hann þarf ekkert að tala við Hafrannsóknastofnun, hann getur bara lesið þetta bréf ef hann ætlar að hlusta á þá.

Allt tal um sjálfbæra nýtingu og það sem segir í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Það er mat meiri hlutans að mikilvægt sé að ganga með ábyrgum hætti um nytjastofna sjávar og hlúa að þeirri ímynd sem við höfum á alþjóðavettvangi sem ábyrg fiskveiðiþjóð.“

Þá segi ég, frú forseti: Byrjum þá á því að draga þetta ákvæði til baka vegna þess að þetta gengur augljóslega gegn þessum sjónarmiðum og mun augljóslega, ef menn hafa miklar áhyggjur af því, sem ég held að fólkið í greininni og þeir sem stunda markaðsstarf og eru að selja íslenska fiskinn á grundvelli þessara sjónarmiða hafi. Þeir aðilar halda því fram að þetta muni skemma okkar alþjóðlegu ímynd sem ábyrg fiskveiðiþjóð.

Þar vitna ég til umsagna fjölmargra umsagnaraðila. Ég er til að mynda með umsögn frá Samtökum fiskvinnslustöðva þar sem þeir segja þetta beinlínis, með leyfi forseta:

„Framlagning frumvarpsins býður heim hættu á að orðspor okkar sem ábyrg fiskveiðiþjóð bíði varanlegan hnekki með tilheyrandi skaða. Líklegt verður að telja að íslenskur skötuselur verði gerður útlægur á okkar helstu mörkuðum fyrir sjávarafurðir komi bráðabirgðaákvæði frumvarpsins til framkvæmda.“ — Og takið eftir því að þeir segja ekki: … þrátt fyrir að hæstv. ráðherra sýni varfærni.

Nei, frú forseti, þetta mál er ekki gott. Ef allt talið um sáttina á við eitthvað að styðjast, ef vilji er til sátta, er ég tilbúin til að hugsa þetta upp á nýtt þrátt fyrir að ég sé ósammála hv. stjórnarþingmönnum um þetta mál og þrátt fyrir að ég sé mjög andvíg fyrningarleiðinni í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ég skal skipta um skoðun þegar þeir 23 einstaklingar sem þekkja þetta best eru búnir að fara yfir málið. (Forseti hringir.) Ef þeir komast að þeirri niðurstöðu að fyrningarleiðin sé best og að þetta mál sé af hinu góða skal ég íhuga að breyta um skoðun. (Forseti hringir.) Fram að því verð ég mjög mikill andstæðingur þessa máls.