Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 15:53:20 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Tónninn í umræðunni breyttist töluvert við þessa ræðu hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur en hvað um það. Mér finnst alltaf verra þegar umræðan er persónugerð og talað er niður til fólks og því lögð orð í munn. Mér finnst það alltaf verra og finnst þar af leiðandi allt þetta tal um sátt og sáttavilja ekki traustvekjandi. Það er ekki trúverðugt þegar talað er þannig að sáttin eigi bara að verða á forsendum þess sem talar og það var nákvæmlega það sem mér heyrðist á ræðu hv. þingmanns: Ef þið gerið það sem við viljum, hendið þessu frumvarpi og vinnið þetta eins og við viljum þá skal verða sátt um málið. En þannig nær maður ekki sáttum.

Enginn efast um það að íslenskt þjóðarbú nýtur góðs af atvinnugreininni sjávarútvegi og það er náttúrlega grundvallarforsenda að skapa eðlilegar leikreglur og góð starfsskilyrði fyrir atvinnugreinina. Spurningin snýst um það að þjóðin njóti arðs af fiskveiðiauðlindinni. Leikreglurnar varðandi úthlutun veiðiheimilda og hvernig með þær er sýslað eru það sem þetta mál snýst um. Þetta er með öðrum orðum sanngirnismál, mál sem lýtur að því að draga úr mismunun og auka jafnræði og hafa heiðarlegar og eðlilegar samskiptareglur á milli stjórnvalda og atvinnugreinarinnar.

Hv. þingmaður vísaði til þess að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefði í ræðu sinni fyrr í dag nefnt ýmislegt sem betur mætti fara varðandi skötuselsfrumvarpið. Rétt er það, margt gott lagði þingmaðurinn til. Margt af því hefur meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar lýst sig reiðubúinn til að skoða og vera til viðræðu um eins og margoft hefur komið fram í umræðunni í dag og óskandi væri að við gætum frekar haldið þessari umræðu áfram á þeim nótum en í þeim ágreiningstón sem nú er kominn upp.