Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 15:55:40 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:55]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil algerlega frábiðja mér það að ég hafi talað niður til nokkurs manns. Ég tók það sérstaklega fram í ræðu minni. Það að ég sé ekki sammála hv. þingmanni og færi fyrir því rök þýðir ekki að ég sé að tala niður til hans. Ég frábið mér algerlega að því sé haldið fram.

Ég er ósammála þessum sanngirnis- og eðlilegheitarökum hv. þingmanns varðandi arðsemina af auðlindinni. Ég er hluti af þessari þjóð. Þótt hvorki ég né nokkur í minni fjölskyldu eigi krónuhagsmuni, þá finnst mér ekki á mér brotið eða komið fram við mig með ósanngjörnum hætti. Hér er fólk í þessari atvinnugrein sem hefur keypt sig inn. Kvótanum var úthlutað á sínum tíma, já, en með hvað að leiðarljósi? Honum var úthlutað á grundvelli veiðireynslu á þeim tíma. Ef eitthvert kerfi er sett á fót, þá er einhver upphafsdagur. Við erum komin langt út fyrir þann upphafsdag. Síðan hafa menn keypt sig inn í þessa grein, fjárfest og hætt fjármunum sínum. Ég leyfi mér að segja að engin sanngirni er í því að ætla að taka það af fólki. Það finnst mér vera ósanngirni.

Varðandi það að sáttin sé undir þeim formerkjum að ef þið gerið eins og við viljum þá skulum við koma að sáttinni, þá sný ég því og vísa því beint aftur til baka til þingmannsins, af því að mér finnst það vera nákvæmlega það sem ríkisstjórnin er að gera með þessu frumvarpi: Við getum alveg rætt þessi mál í einhverjum sáttafarvegi en við ætlum samt að gera það sem við ætlum að gera. Ég lagði engum orð í munn vegna þess að ég las upp það sem fram kom í minnihlutaáliti okkar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, ég las orðrétt upp það sem hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sagði þannig að ég lagði hvorki einum né neinum orð í munn. Þetta voru hans eigin orð.