Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 15:59:20 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst aðeins út af auðlindaskýrslunni frá árinu 2000 sem þingmaðurinn nefndi, það má margt af henni læra. Hvað var gert þar? Þeir sem komu að þeirri skýrslu voru alls staðar að úr samfélaginu. Það var þverpólitísk sátt um þá skýrslu. Hún var unnin af mikilli vandvirkni. Það var ekki verið að þröngva einhverju fram eins og verið er að gera núna og það er það sem ég er að gagnrýna. Ég vil benda hv. þingmanni á að tónninn breyttist ekkert í umræðunni þegar ég kom í stólinn. Tónninn breyttist í umræðunni þegar hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kom í andsvar við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson vegna þess að það sem ég byrjaði á að tala um í minni ræðu var svar við því sem fram kom í andsvari hv. þingmanns. En það á að hafa auðlindaskýrsluna frá árinu 2000 og vinnubrögðin að henni að leiðarljósi. Þegar um svo stórt og mikilvægt og umdeilt mál er að ræða þá eigum við að reyna að leggja okkur öll fram um að ná sátt.