Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 16:00:36 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefndi fólkið í landinu og auðvitað er mikilvægt að hlusta á það. Það er deginum ljósara að fólkið í landinu er og hefur verið mjög ósátt við eignarhald á aflaheimildum í sjávarútveginum. Það hefur legið fyrir í aldarfjórðung eða svo, margmælt og staðfest að yfirgnæfandi meiri hluti fólksins í landinu er mjög ósáttur við það og það ósætti hefur skapað þá óvissu sem er í þessari grein og sú óvissa hefur verið viðvarandi og er ekki góð fyrir greinina. Óvissan sem hv. þingmanni var tíðrætt um er ekki góð fyrir greinina, en hún er og hefur verið viðvarandi vegna þess mikla ósættis sem verið hefur um þetta fyrirkomulag og þess vegna er það ekki til að skapa óvissu heldur þvert á móti til að eyða óvissu sem ríkisstjórnin hefur lagt upp í þann leiðangur að koma á skipan í greininni sem hér getur tekist um friður til framtíðar. Það er líka til að eyða óvissu í greininni sem þetta mál sem hér liggur fyrir er flutt vegna þess að hér er einfaldlega verið að taka á ýmsum atriðum sem nauðsynlegt er að taka á við rekstur greinarinnar, skýra og skerpa og ég spyr hv. þingmann hvort hún sé andvíg sjálfsögðum framfaramálum eins og hér er að finna í frumvarpinu og lúta t.d. að aukningu á veiðiskyldunni eða þeim heimildum sem hæstv. ráðherra eru fengnar til að setja á vinnsluskyldu til að koma í veg fyrir sóun á auðlindum sem eru sameign þjóðarinnar eða aðgreiningunni á karfa og djúpkarfa sem ég hygg að flestir þingmenn fagni og telji mikilvæga. Og hvort hún telji ekki að þetta frumvarp sé til þess fallið, a.m.k. í langflestum atriðum, að skýra, bæta, draga úr óvissu og eyða álitamálum sem greinilega hrannast upp.