Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 16:02:49 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég fór yfir í ræðu minni þá ítreka ég að ósætti er um hluta af þessu kerfi. Það vita það allir og hv. þingmaður segir að fólkið í landinu sé ósátt og einmitt þess vegna tók auðlindanefndin þá ákvörðun í þessari nefndu skýrslu frá árinu 2000 og stjórnvöld færðu það í lög að á sjávarútveginn yrði sett auðlindagjald og var það eina atvinnugreinin sem bjó við það þar til orkuskattarnir voru settir á fyrir jólin. Auðlindagjald í sjávarútvegi var sett einmitt með það að markmiði að leita sátta en það hefur greinilega ekki dugað til og ég vil halda því fram að það sé vegna þess að ákveðnir aðilar í samfélaginu geta ekki séð þessa atvinnugrein í friði og ala á ósætti. Það finnst mér mjög miður vegna þess að ég tel þetta afar ósanngjarnt og þegar menn fara að kafa ofan í þessa hluti þá á þetta ekki við nein rök að styðjast. Það er markmið okkar allra að vera með sjávarútveg sem er arðbær og hagkvæmur og vel rekinn og ég tel alla vega og það er mín skoðun og þar deilum við ekki skoðun að þetta kerfi sé það besta sem völ er á. En það er ekki fullkomið, ekki frekar en önnur mannanna verk.

Hvað varðar ýmis efnisatriði, ég talaði líka um það að efnisatriði eru hér inni sem mætti taka út og koma í gegn. Ég er reyndar ekki sammála þessu með vinnsluskylduna að það sé eitthvert framfaramál, ég get ekki séð að það sé eitthvert til bóta að ráðuneytið setji einhverjar reglur og lög um það hvernig eigi að stýra vinnslu á uppsjávarfiski. Ég treysti fólkinu sem vinnur í þessu, sjómönnunum og útgerðarmönnunum, miklu betur til að ákveða það á staðnum heldur en ráðherra úr sínum stól, þannig að mér finnst það fráleitt.