Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 16:06:21 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er eins og sumir þingmenn skilji ekki að þegar þessari atvinnugrein gengur vel greiðir hún að sjálfsögðu hærri skatta til samfélagsins. Þegar ég tala um veiðileyfagjaldið, þá segja upplýsingar mínar að það hafi skilað 1,4 milljörðum í tekjur á seinasta ári. Þingmaðurinn talar um nokkur hundruð millj., það verður að finna út úr því hvaða tala er rétt, en ef tekjuaukningin er eins og þingmaðurinn heldur fram er hún þá ekki bara af hinu góða? Er þá ekki samfélagið að fá sinn arð í formi skatta? Sem þingmaðurinn er iðinn við að hækka, ef ég mætti bæta því við.

Varðandi kosningarnar þá er það þannig og ég hef sagt það nokkrum sinnum í þessari umræðu að mín skoðun er sú að þessir ríkisstjórnarflokkar hafi verið kosnir þrátt fyrir þessa stefnu en ekki út á hana. Það er ótrúlegt en satt en Samfylkingunni var ekki refsað í kosningunum fyrir hrunið en okkur var refsað fyrir það, mér þykir leitt að hryggja hv. þingmann með því en þessi vinstri sveifla er ekki komin til að vera.