Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 16:07:52 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:07]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst ég eiginlega kominn í sögutíma áðan hjá hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur og það var Íslandssaga síðustu tveggja áratuganna, frá 1. maí 1991, þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með völdin á Íslandi. Þá var allt óskaplega gott og fallegt á Íslandi vegna þess að það var haft svo mikið samráð við fólk. Síðan, ég man ekki orðalagið alveg, lenti Sjálfstæðisflokkurinn í hruni og þá varð hann að fara frá völdum og nú eru allir óskaplega reiðir út í Sjálfstæðisflokkinn að sjálfsögðu að ósekju og þess er skammt að bíða að hann komist aftur á valdastól. Ég verð að segja eftir að hafa hlustað á þessar umræður að ég vona að það verði langt í það. Ég man ekki eftir þessum tíma á sama hátt og hv. þingmaður og ég er ekki viss um að Öryrkjabandalagið, verkalýðshreyfingin, Landvernd eða önnur almannasamtök skrifi almennt upp á þessa söguskýringu.

Eitt (Gripið fram í.) mesta átakamál á undanförnum tveimur áratugum hefur verið einkavæðingin á sjávarauðlindinni og um hana hefur ríkt mikið ósætti á Íslandi. Einkavæðing sjávarauðlindarinnar með kvótakerfi þar sem heimilt er að framselja kvótann fyrir fé hefur skapað geysilegt óöryggi í sjávarbyggðum og þegar talað er um öryggi þeirra sem eru handhafar kvótans þá skulum við ekki gleyma þessu. Við skulum ekki gleyma því fólki sem hefur tapað eigum sínum og misst atvinnu sína vegna þessa kerfis.

Nú er um það að ræða að skoða breytt skipulag í sjávarútvegi. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt áherslu á að hér eigi ekki að taka nein heljarstökk, menn eigi að gefa sér góðan tíma vegna þess að menn vilja ekki skapa óöryggi. En hvað gerist þegar menn telja að örlítið sé hróflað eða haggað við þessu kerfi? Þá sjáum við forgangsröðun Sjálfstæðisflokksins birtast okkur í þingsal í þessu frumvarpi. Hann setur í öndvegi varnir fyrir eignarhald einkaaðila á sjávarauðlindinni.