Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 16:10:33 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:10]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var ekki ætlun mín að vera með hv. þm. Ögmund Jónasson í sögutíma, enda er hann eins og allir sjá miklu eldri en ég og gæti kennt mér söguna, alla vega munað lengra aftur í tímann. Þess vegna fannst mér leiðinlegt að hv. þingmaður fór ekki aðeins aftar í tímann þegar hann rifjaði upp stöðuna í sjávarútveginum vegna þess að sögutími hans byrjaði á því sem hann kallaði einkavæðingu auðlindarinnar en ég mundi vilja fara enn lengra til baka. Hvernig var umhorfs í sjávarútveginum þegar kvótakerfinu var komið á? Vorum við þá ekki að veiða of mikið, allt í bullandi tapi og ríki og sveitarfélög að reka þetta? Ég veit að ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson deilum ekki þeirri skoðun hvaða rekstrarform á að vera á ýmsum hlutum og við getum talað okkur blá í framan um það. En ég leyfi mér að fullyrða það að núverandi kvótakerfi með öllum sínum kostum og öllum sínum göllum er margfalt betra en það kerfi sem vikið var frá þá og það hefur bæði með það að gera hvernig auðlindin er nýtt, hvernig farið er með hana og líka hvernig arðsemin er í greininni. Ég verð að segja alveg eins og er að það hryggir mig að sjá hv. þm. Ögmund Jónasson koma hér og tala um að Sjálfstæðisflokknum sé rétt lýst og allt að því væna mig um að ganga erinda einhverra. Ég geng ekki erinda sægreifanna, ég geng ekki erinda LÍÚ eða hverra sem menn vilja klína á mig að vera einhver talsmaður fyrir. Ég tala frá hjarta mínu, hef mína skoðun og ég er algerlega sannfærð um að þessi ríkisstjórn er á rangri leið, líka vegna þess sem hv. þingmaður talaði um að ekki hefði verið neitt samráð á þeim árum þegar Sjálfstæðisflokkurinn var við völd. Vel getur verið að það sé rétt að það hefði mátt vera meira og hv. þingmaður hefur gagnrýnt það. Þess vegna hryggir það mig að ekkert skuli breytast í þeim efnum. Hv. þingmaður er dottinn í sama pyttinn.