Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 16:14:50 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson segist vera stoltur af því að ganga erinda Öryrkjabandalagsins, almennings og launafólks og ég dreg það (ÖJ: Jú, vitanlega.) — að þingmaðurinn vilji gjarnan gera það og (Gripið fram í.) — ég dreg þá fyrirætlan þingmannsins ekki í efa. Hann hefur sýnt það og sannað í verkum sínum. Þess vegna mundi ég í hans sporum segja við þingflokk Vinstri grænna: Nú skulum við ekki eyða tíma í að karpa um þetta mál sem er í sáttanefnd okkar ágæta félaga, hæstv. sjávarútvegsráðherra Jóns Bjarnasonar, sem hann lofaði og hét á að færi í sáttafarveg. Nú skulum við finna þessa týndu skjaldborg fyrir Öryrkjabandalagið, launþegana, heimilin, fyrirtækin og atvinnulífið, hvort sem er í opinberri eigu eða einkaeigu. Við skulum finna þessa týndu skjaldborg og reisa Ísland við. Við gerum það ekki með því að standa hér og rífast um hluti sem eiga að vera í ferli annars staðar.