Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 16:27:46 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:27]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hártogast við hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur um það hvort 50% eða 75% urðu eftir á svæðinu. Stór hluti aflaheimildanna varð eftir á svæðinu og það er meginatriðið. Ég vil nefna í þessu sambandi að landanir á Flateyri hafa aldrei verið fleiri en eftir þetta, á árunum 2007–2008. Það segir sína sögu.

Meginatriðið er það að uppnám er hjá öllum þeim sem léku eftir leikreglum þessara flokka, eftir þeim leikreglum sem þessir flokkar settu þegar þeir komu framsalinu á. Það er uppnám hjá öllu því unga fólki sem tók ákvörðun um að hefja sig inn í sjávarútveg, leggja allt sitt undir og fara að vinna í sjávarútvegi, kaupa sér kvóta, leigja sér með, byggja upp sínar útgerðir, skuldbinda sig mjög og nú á að rífa af þeim þennan kvóta. Það er að byrja núna í skötuselnum, samkvæmt þessu frumvarpi verða 500 tonn tekin af þeim sem hafa keypt kvóta og það er forsmekkurinn að því sem koma skal og ég vitna ekki í ómerkari manneskju en hæstv. forsætisráðherra í þeim efnum því hún segir algerlega klárt að fyrningarleiðin komist í gildi á næsta fiskveiðiári sem er í haust. Það er það sem er að setja þetta allt í uppnám og þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur að huga frekar að því núna að auka aflaheimildir í einhverjum mæli, eins og við getum gert, í okkar helstu nytjastofnum þannig að þessar útgerðir geti aflað meiri verðmæta fyrir samfélagið og þeim verði gert kleift að standa við skuldbindingar sínar og ekki sé verið að raska ró þeirra við þessar erfiðu aðstæður.