Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 16:53:53 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna en það gætir býsna mikils misskilnings í orðum hv. þingmanns þegar hann heldur því fram að hér eigi að setja frá aflamarkskerfið og hverfa eigi aftur til fyrra horfs sem verið hafi fyrir aflamarkskerfið. Ég vil hvetja hv. þingmann til að lesa það frumvarp sem við höfum verið að fjalla um í hv. landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd áður en hann lætur slík ummæli falla í umræðunni. Það er auðvitað alls ekki á dagskránni. Það er einfaldlega verið að fjalla um kvótaúthlutun í tiltekinni tegund og þar er gert ráð fyrir að þeir sem hafa haft aflaheimildir þar haldi þeim að mestu leyti og stjórnarmeirihlutinn er út af fyrir sig tilbúinn til að láta þá halda þeim að öllu leyti, þ.e. í kílóum og tonnum talið, en það sem veitt verði umfram verði leigt út og leigt á 120 kr. Ég heyri að hv. þingmaður segir að þar sé höggvið nærri sjómönnum og menn muni eiga erfitt með að greiða 120 kr. í leigu fyrir það. Þá hlýtur maður að spyrja hv. þingmann hvernig á því standi að hægt sé í dag að greiða 320 kr. í markaðsleigu fyrir þessar aflaheimildir. Og enn fremur hefur komið fram við umræðuna að 70–80% af öllum aflaheimildum í umræddri tegund eru leigðar en ekki veiddar af þeim sem hafa þær. Allur þorri þess afla sem á land kemur er því leigður á verði af þessu tagi.

Hvernig rökstyður hv. þingmaður það að þeir sem í dag greiða 320 kr. fyrir hvert kíló sem þeir draga muni ekki geta greitt í ríkissjóð 120 kr. fyrir væntanlega jafnverðmæt kíló þegar þessi lög hafa tekið gildi?