Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 16:58:02 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er enginn að tala um að taka fótinn af en það eru greinilega uppi mjög skiptar skoðanir um mörg atriði í þessu í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Það hefur komið fram við umræðuna að einn þingmanna flokksins talar fyrir því að aflaheimildir verði fyrndar um 4% á ári, sem er nokkuð nærri því sem ríkisstjórnin hefur lagt til, þ.e. um 5%. Hér tala sumir þingmenn flokksins með veiðiskyldu, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, en aðrir gegn henni, eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson, og kannski dálítið erfitt að átta sig á heildarmyndinni í þessu. En þegar hv. þingmaður segir: Kemur niður á sjómönnum, kemur niður á greininni, þá skulum við spyrja okkur: Hvað er það sem hefur komið niður á greininni? Það er auðvitað braskvæðingin í henni. Það er sú gríðarlega skuldsetning sem ekki var vegna hagræðingar fyrst og fremst, eins og hv. þingmaður gefur í skyn, heldur vegna þess að menn voru að taka gríðarlega fjármuni út úr greininni og skuldsetja greinina alveg upp í rjáfur til að kaupa hlutabréf í Landsbankanum sem urðu verðlaus, eða einhverjar aðrar fjárfestingar. Greinin situr uppi með þá gríðarlegu skuldsetningu og það dregur auðvitað úr þeim arði sem hún getur skilað, bæði sjómönnum og eigendum.

Leiðangur ríkisstjórnarinnar er fyrst og fremst sá að skapa til lengri tíma sátt um eignarhaldið í greininni vegna þess að það hefur aldrei verið nein sátt um það að menn misstu eignarhaldið úr höndum þjóðarinnar og einkavæddu auðlindina sem við öll eigum. Það þarf að leiðrétta en það þarf að gera það með þeim hætti að um það takist sem víðtækust sátt og til þess hefur sáttanefndin svokallaða verið sett upp en hún varnar ekki því að það megi setja lög á Alþingi um ráðstöfun á 1–2 þúsundum tonna af skötusel. Ég held að það nái engu lagi.