Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 17:02:49 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Umræða um þetta mál hefur staðið alllengi. Hún hófst á þriðjudaginn og hefur staðið nokkurn veginn í allan dag og er það mjög að vonum. Þegar við tökum fyrir málefni sjávarútvegsins, ekki síst við þessar aðstæður, er eðlilegt að umræður séu allítarlegar. Það hefur komið glögglega í ljós t.d. að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa mikinn og einlægan áhuga á því að ræða málefni sjávarútvegsins einfaldlega vegna þess að við gerum okkur grein fyrir hve mikið er í húfi. Það er gríðarlega mikið í húfi fyrir íslensku þjóðina að okkur takist að búa til þannig lagaumhverfi í kringum sjávarútveginn að það leiði til hagkvæmni fyrir þjóðarbúið í heild. Sem betur fer hefur það verið svo undanfarin ár og nú ríður mjög á að okkur takist að búa þannig um hnútana að sjávarútvegsumhverfið verði þannig að sjávarútvegurinn geti lagt sem mest til þjóðarbúsins í heild. Af hverju segi ég það? Það gefur augaleið, miklar atvinnugreinar hafa hrunið og það hefur orðið gífurlegur verðmætabruni í samfélaginu. Því skiptir miklu máli að þær atvinnugreinar sem eru til staðar séu þannig úr garði gerðar að þær leggi sem mest til þjóðarbúsins í formi verðmætasköpunar af öllu tagi.

Hér hefur farið fram dálítið umræða um það hvort arðurinn, hagnaðurinn eða verðmætasköpunin sem átt hefur sér stað í sjávarútveginum hafi verið að renna til þjóðarinnar eða ekki. Auðvitað mætti hafa um það gríðarlega mörg orð. Ég ætla bara að vekja athygli á einu: Dettur einhverjum í hug að lífskjör á Íslandi hefðu þróast í gegnum tíðina með svo jákvæðum hætti ef sjávarútvegurinn hefði ekki verið að leggja mjög mikið til þess verks? Sjávarútvegurinn hefur verið stór hluti af þjóðarframleiðslu okkar, menn hafa talað um að hann skapi núna væntanlega um 40% af vöruútflutningnum og ef sjávarútvegurinn væri óhagkvæmur, ef hagkvæmni sjávarútvegsins væri ekki að seytlast út í þjóðfélag okkar dettur þá einhverjum í hug að lífskjörin hefðu þróast með þeim hætti sem þau hafa gert í gegnum tíðina? Þetta blasir alveg við, sjávarútvegur okkar er þvílík stærð að ef vel gengur í þeirri atvinnugrein gengur vel í samfélagi okkar. Ef illa gengur í sjávarútveginum gengur illa í samfélagi okkar.

Síðan hefur það verið svo í gegnum tíðina að gengi krónunnar hefur verið skráð með þeim hætti, m.a. á þenslutímanum, að það hefur í raun og veru verið mesti auðlindaskatturinn sem sjávarútvegurinn hefur verið að borga. Hið háa gengi hefur gert það að verkum að hér hefur orðið til óeðlilegt ástand sem menn hafa kannski notið með stundargróða í betri lífskjörum vegna lækkandi innflutningsverðlags en það hefur auðvitað verið borgað með því að sjávarútvegurinn hefur goldið fyrir þetta. Það er mjög mikilvægt að átta sig á þessu. Það er einmitt þannig að skipulagið sem við höfum búið til í kringum sjávarútveginn hefur leitt til þess að menn hafa stöðugt verið að leita að hagkvæmni vegna þess að fiskveiðirétturinn, ekki eignin, fiskveiðirétturinn hefur verið í eigu útgerðanna sem hafa þess vegna haft af því gífurlega hagsmuni að búa sem mest verðmæti til úr þeim fiskveiðiréttindum sem menn hafa. Flóknara er þetta mál ekki. Ef menn klippa á þennan þráð, ef menn taka burtu aflahlutdeildarhugsunina, ef menn hverfa frá því að menn njóti ávaxtanna ef vel gengur en þurfi hins vegar að bera byrðarnar, hverfur þessi hvati út úr greininni, þá hætta menn auðvitað að hafa þessa hvatningu til að reyna að gera vel, til að hámarka verðmætið úr því sem þeir hafa að spila.

Ég ætla að taka lítið dæmi sem snertir í rauninni það sem er að gerast í sjávarútveginum þessa dagana. Fyrir fáeinum dögum tókst svo vel til að það fannst nægileg loðna til þess að hægt væri að gefa út 130.000 tonna loðnukvóta. Einhvern tíma hefðu menn ekki talið sérstaka ástæðu til að fagna þessu því að ef menn skoða tölurnar aftur í tímann hafa menn verið að veiða upp í milljón tonn og rúmlega það af loðnu hér við land. Hins vegar hefur þróunin orðið sú að mönnum hefur tekist með gífurlegri fjárfestingu í góðum skipum, með mikilli hagræðingu í greininni, með því að samræma aflaheimildir til að draga úr sóknartengdum kostnaði, með því að fjárfesta í landvinnslunni til að geta unnið meira til manneldisvinnslu, allt þetta hefur leitt til þess að verðmætið fyrir veidda einingu hefur margfaldast. Þetta hefði ekki gerst nema vegna þess að hér hefur verið markaðsbúskapur, hér hefur verið það fyrirkomulag að fiskveiðirétturinn hefur verið vel skilgreindur, menn hafa getað treyst því til frambúðar að þeir ættu aðgang að þessum fiskveiðirétti þó að þeir gerðu sér grein fyrir því að eignarhald auðlindarinnar væri að sjálfsögðu ríkisins eða þjóðarinnar. Það er þetta sem er ævintýrið í kringum íslenskan sjávarútveg.

Ég ætla að rekja þetta aðeins. Í nýjustu Fiskifréttum er birt ákaflega athyglisverð tafla um útflutningsverðmæti loðnuafurða. Þar kemur fram, svo ég grípi þar aðeins niður í, að árið 2004 veiddum við um 500.000 tonn af loðnu, 2005 veiddum við 600.000 tonn af loðnu og aflaverðmætið hvort ár um sig var um 9,3 milljarðar kr. Árið 2008 veiddum við þriðjunginn af þessu og tæplega það, 149.000 tonn af loðnu. Aflaverðmætið var 10 milljarðar kr., var sem sagt meira en í hittiðfyrra þegar við vorum að veiða þriðjung af því sem við veiddum 2004 og 2005. Nú er hins vegar lagt fram frumvarp til að segja að þessu fólki sem svona hefur staðið að sínum málum, sem svona hefur búið til verðmætasköpun í sjávarútveginum sem auðvitað hefur gagnast þjóðfélaginu í heild, að þessu fólki sé ekki treystandi til að fara með auðlindina öðruvísi en að því sé stýrt nákvæmlega á borði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hefur óskað eftir því að Alþingi gefi sér heimild til að stýra þessum veiðum. Honum finnst sem sagt árangurinn vera þannig, þó að menn þrefaldi aflaverðmætið fyrir veidda einingu, að það þurfi að stýra þessu með einhverjum öðrum hætti ofan úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þetta er auðvitað forræðishyggja af verstu tegund, þetta er afturhvarf til fortíðar, þetta er ekki líklegt til að skila þjóðinni meiri arði. Það er ótrúlega sérkennileg hugsun að til þess að koma arði af atvinnugrein til einnar þjóðar þurfi það að gerast með þeim hætti að stjórnsýslan í landinu hafi puttana ofan í rekstrarlegum ákvörðunum. Það er ekki skynsamlegt, það hefur hvergi gefist vel.

Annað atriði sem ég vil nefna í sambandi við þessi mál — vegna þess að ég er nú að reyna að bregðast við þeirri almennu umræðu sem hefur orðið á undanförnum tveimur dögum — er þessi nálgun á karfaveiðinni sem er mjög óskynsamleg. Ég fagna því að komið hefur fram skilningur af hálfu einstakra nefndarmanna í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd á því að nálgun nefndarinnar og meiri hlutans er röng. Við vöruðum við því á sínum tíma þegar þessu máli var kippt út úr nefndinni á aðventunni að málið væri vanbúið. Það er auðvitað að koma á daginn. Hér eru fjölmörg atriði, eins og þetta karfamál er glöggt dæmi um, sem segja okkur að menn höfðu ekki hugsað þetta til enda. Sú útfærsla sem hér er verið að leggja til er mjög gölluð og hún mun búa til mörg vandamál. Ég ítreka að auðvitað þarf að úthluta þessum tegundum aðskildum, það er enginn ágreiningur um það, a.m.k. ekki við mig. Ég hafði raunar frumkvæði að því að láta slíka vinnu fara fram, en þá verða menn auðvitað að ljúka verkinu og reyna að gera þetta þannig úr garði að brúklegt sé.

Þriðja atriðið sem mig langar að nefna er línuívilnunin. Ég var sjálfur baráttumaður fyrir línuívilnuninni og er einn þeirra sem kannski áttu hvað stærstan þátt í því á Alþingi að koma því fyrirkomulagi á. Þetta var umdeilt atriði þá, þetta er umdeilt atriði núna. Ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi gefist í meginatriðum vel. Þetta styrkti veiðiréttinn í ýmsum byggðum sem á þessu þurftu að halda. Þetta hvatti til línuútgerðar, þetta varð til þess að verja störf í landi og skapa störf í landi og þetta varð til þess að efla margs konar byggðarlög sem höfðu átt undir högg að sækja. En sporin hræða frá fyrri tíð. Á sínum tíma höfðum við fyrirkomulag sem kallað var línutvöföldun. Þá gátu menn veitt fjóra mánuði á ári á línu og helmingurinn af því sem veiddist var utan við kvóta. Þetta var að mörgu leyti áhugaverð nálgun og gekk vel í nokkur ár þangað til að því kom að sóknin jókst auðvitað á þessu sviði og stjórnmálamenn þess tíma, og þar meðtalinn ég, höfðu ekki kjark eða afl til að tryggja það að aðgangurinn inn í kerfið yrði takmarkaður, því að það var auðvitað þannig að með því að sóknin jókst stöðugt sprakk þessi línutvöföldunarpottur og að lokum eyðilagðist kerfið. Ég óttast að það sem nú er verið að gera hérna, þó að í litlu sé, kunni að vera upphafið að einhverju slíku.

Auðvitað ætti ég að fagna því, ég tala ekki um komandi frá svæði sem nýtur linuívilnunar svona ríkulega eins og raun ber vitni um, ekki síst mín heimabyggð, auðvitað ætti ég kannski að fagna því út frá þeim sjónarhóli að verið sé að hækka línuívilnunarprósentuna. En ég óttast að til lengri tíma kunni að leynast í þessu miklar hættur fyrir utan það að í raun og veru er ekki verið að auka heimildirnar til línuívilnunar í þessu frumvarpi. Lögin sem taka til línuívilnunar kveða á um það að tiltekið magn í tonnum megi nýta til línuívilnunar og þá er ég að tala um þorskinn í þessu sambandi. Með því að opna fleirum leið og með því að hækka prósentuna er í raun og veru bara verið að ganga hraðar á þennan pott. Það er alveg rétt að línuívilnunarpotturinn í þorskinum hefur ekki nýst að fullu núna þegar við erum að veiða 140–160.000 tonn af þorski. Það er alveg hárrétt. Línuívilnunarpotturinn upp á 3.000 og eitthvað tonn í þorski var miðaður við meiri aflaheimildir í þorski. Þegar þær eru skornar niður nýtast þessi 3.000 tonn auðvitað ekki að fullu. En eigum við ekki að ganga út frá því að þorskaflinn eigi eftir að vaxa? Eigum við virkilega að ganga út frá því í löggjöfinni að við gerum ráð fyrir að hanga í 140–150.000 tonna ársafla í þorski von úr viti? Vitaskuld ekki. Ég trúi því ekki að nokkur maður hafi þá framtíðarsýn. Við hljótum að trúa því að okkur takist þannig til við fiskveiðistjórn okkar að hér verði vaxandi þorskveiðar og þá gerist það auðvitað að með þessari breytingu mun línuívilnunarpotturinn tæmast fyrr en varir. Þá kemur þessi þrýstingur sem við þekktum frá árum áður og grandaði á sínum tíma línutvöfölduninni, svo ágæt sem hún samt sem áður var að mörgu leyti. Það er þetta sem ég er að vara við og það er þetta sem ég óttast. Í áliti meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar er vakin athygli á því að línuívilnun á sínum tíma hafi verið hugsuð til að skapa fleiri störf í landi, og það er að sönnu rétt, og þess vegna var línuívilnunin takmörkuð á sínum tíma fyrir handbeitta línu. Hér er verið að opna fyrir mjög litla og takmarkaða útgerð sem eru trektarbátar og ég hef svo sem ekki miklar áhyggjur af því máli í sjálfu sér eða vil ekki leggjast gegn því, en ég er einfaldlega að segja að með þessari hækkun — sem þó kemur örugglega til skamms tíma byggðum sem ég ann mjög til góða — óttast ég að til lengri tíma kunnum við að vera óafvitandi að grafa okkur gröf.

Skötuselurinn er skyndilega orðinn ein þekktasta fisktegund við Ísland eins og menn vita. Að mínu mati er verið að fara ranga leið í þessu frumvarpi. Það er verið að seilast um hurð til lokunar, það er verið að fara flækjuleið að því að ná því markmiði að skapa veiðirétt á svæðum þar sem menn hafa ekki haft veiðirétt í skötusel af því að útbreiðslan hefur aukist. Hægt er að nálgast þetta mál með öðrum hætti. Við í minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar leggjum fram breytingartillögu sem felur það í sér að opna heimild fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til þess að gefa möguleika á meðafla hjá bátum sem ekki stunda beinar skötuselsveiðar. Sú leið mundi duga til að leysa vandann hjá langflestum a.m.k. í þessu tilviki. Þess vegna segi ég: Vegna þess að hér hefur verið talað mjög mikið um nauðsyn þess að skapa frið, hér hefur verið sagt að menn vilji ekki trufla starf þeirrar endurskoðunarnefndar sem nú er að störfum, þá hlýtur að koma til álita hjá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að fara aðrar leiðir að þessu markmiði en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Fara frekar í það að búa til almenna meðaflareglu til að auðvelda þeim sem ekki hafa veiðirétt í skötusel til að stunda veiðar þar sem skötuselurinn kemur í veiðarfærin. Þetta, virðulegi forseti, er að mínu mati málefnalegt innlegg sem ég skora á meiri hluta hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að bregðast við.