Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 17:19:49 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að auðvitað eru gallar og kostir við línuívilnunina en að mínu mati eru kostirnir yfirgnæfandi. Ég var baráttumaður fyrir því að hún yrði sett á og hef verið stoltur af því. Ég hef oft tekið á mig gagnrýni fyrir þetta en tel hins vegar að línuívilnunin hafi gert sitt gagn.

Ástæðan fyrir því að ég hef dálítinn beyg í hjarta mér vegna þeirra hugmynda að hækka ívilnunina upp í 20% er það sem ég sagði áðan. Ég óttast að það gæti til lengri tíma haft skaðvænleg áhrif á framtíð línuívilnunar og það vil ég ekki að gerist. Mér finnast sporin frá því í gamla daga hræða þegar við vorum með línutvöföldunina og af þeim ástæðum hef ég verið með varúðarorð gagnvart þessum breytingum hér.

Ég get samþykkt það með hv. þingmanni að þegar heildaraflinn er svona lítill og við erum með lögbundinn pott í línuívilnun upp á rúmlega 3.000 tonn og ekki er hægt að ná þessum 3.000 tonnum með 16% ívilnun, það er alveg hárrétt, þá finnst mér það vel koma til greina til skamms tíma. Ég er ekki að leggjast gegn því en vil hins vegar segja að ég held að menn þurfi að horfa á málið til lengri tíma jafnframt því að ótti minn er sá að eftir því sem þrýstingurinn inn í þennan pott eykst, eftir því sem fleiri fara inn í hann þeim mun meiri líkur eru á því að að lokum standist línuívilnunin ekki álagið og hverfi eins og gerðist hér áður fyrr.

Það er auðvitað líka óheppilegt eins og er að gerast núna að 16 prósentin virtust hafa verið einhver svona jafnaðartala sem gerði það að verkum að við sáum hvort tveggja gerast, handbeitta línuútgerðin jókst, en menn gátu líka haldið áfram í beitingavélabátunum þannig að þetta er mjög vandmeðfarið mál.