Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 17:22:36 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er eiginlega ekki tilbúinn til að skrifa upp á það að við ættum að hafa svona flókið kerfi ívilnana eða refsipunkta í fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég held að miklu skynsamlegra sé að gera þetta með svipuðum hætti og við höfum gert. Við höfum okkar landhelgi og við höfum síðan gengið miklu lengra en allar aðrar þjóðir sem mér er kunnugt um í því að loka einstökum svæðum, við höfum lokað svæðum fyrir dragnót, við höfum lokað svæðum fyrir togveiðum bæði tímabundið og ótímabundið. Þegar við berum þetta saman við aðrar þjóðir þá er ekki líku saman að jafna. Aðrar þjóðir sem sjá þetta fyllast mjög aðdáun vegna þess að þetta er líka ákveðin veiðarfærastýring til viðbótar við aflamarkskerfið okkar.

Ég ítreka það varðandi línuívilnunina sjálfa að ég hef verið og er talsmaður hennar, ég tel að hún hafi gert gagn. Hún er hluti af fiskveiðistjórnarkerfi okkar. Við erum annars vegar með þetta almenna fiskveiðistjórnarkerfi, aflamarkskerfið. Síðan erum við með krókaaflamarkskerfi sem er kerfi smábátanna og þar höfum við með pólitískum ákvörðunum flutt aflaheimildir yfir til þeirra til að styðja við byggðirnar og síðan erum við með aðra þætti sem við lítum þannig á að komi minni byggðunum sérstaklega til góða. Línuívilnunin hefur verið hluti af því þannig að við höfum reynt að verja það að vera með markaðskerfi, heilbrigt viðskiptakerfi í sjávarútveginum í heild en um leið búið til sérstök úrræði fyrir byggðirnar og línuívilnunin hefur verið hluti af því.

Það sem menn þurfa að hugsa um þegar gerðar eru breytingar á línuívilnuninni er að þær eru ekki bara til skamms tíma. Það er auðvitað gott fyrir þá sem eru að gera út á þetta að fá 20% í staðinn fyrir 16% en ef 20% verða síðan til þess að línuívilnunin lifir ekki nema einhvern stuttan tíma þá er auðvitað til lítils barist og því hef ég alltaf haft áhyggjur af. Ég stóð alltaf gegn því að opna það kerfi meira þrátt fyrir mikinn þrýsting vegna þess að ég óttaðist að sorgarsagan frá línutvöfölduninni endurtæki sig, að hún spryngi að lokum.