Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 17:24:50 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:24]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Fiskveiðistjórnarkerfið sem við búum við í dag hefur verið við lýði í 30 ár. Á þeim tíma hefur kerfið leitt til þess að breytingar hafa orðið á sjávarútvegi og mikil hagræðing hefur átt sér stað í greininni og verðmæti aflaheimilda hefur aukist gríðarlega, en jafnframt hefur skipum og fólki sem vinnur í greininni fækkað mjög hratt. Reyndar spilar tækniþróun líka stórt hlutverk þar.

Staðreyndin er sú að útgerðarmenn þurfa að hafa mikið fyrir því að skapa verðmæti úr auðlindinni og m.a. vegna velgengni þeirra, hugvitssemi og atorku hefur Íslendingum tekist að gera sjávarútveg að sjálfbærum og ábatasömum atvinnuvegi sem skilar miklum tekjum til þjóðarinnar. Verðmætin verða til með vinnu og því betri og markvissari sem sú vinna er því meiri verða verðmætin sem hægt er að nýta úr auðlindinni. Þá er það allra hagur að gengið sé fram af virðingu við auðlindir þjóðarinnar og þær nýttar með sem hagkvæmustum hætti og að afraksturinn sé hámarkaður og sjálfbærni auðlindarinnar þannig tryggð. Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar vinnur því miður gegn kostum kerfisins sem einmitt eru sveigjanleiki og hagkvæmni.

Virðulegi forseti. Að störfum er svokölluð sáttanefnd á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem fékk það hlutverk að fara ofan í helstu álitamál er varða sjávarútvegsstefnuna. Nefndin er skipuð bæði þingmönnum og hagsmunaaðilum í sjávarútvegi og hæstv. ráðherra á hrós skilið fyrir að setja þessa nefnd á fót og sýnir það góðan vilja ráðherra til að leysa þetta mikilvæga mál í sátt og samlyndi. En einmitt þess vegna kemur á óvart að á sama tíma sé hér til umfjöllunar í þinginu frumvarp til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að þessi vinnubrögð setja starf nefndarinnar í uppnám.

Virðulegi forseti. Komin er fram beiðni frá nánast öllum fagfélögum í sjávarútvegi — sem er einstakt — um að frumvarpið verði dregið til baka í þeirri von að hægt verði að skapa frið um störf nefndarinnar. Umfjöllunarefni nefndarinnar er einmitt að fara yfir allar þær breytingartillögur sem koma fram í frumvarpinu er varða stjórnkerfi fiskveiða. Farmanna- og fiskimannasamband Íslands ásamt Félagi skipstjórnarmanna sendi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd umsögn þar sem lýst er miklum vonbrigðum með frumvarpið og óskað eftir því að það verði dregið til baka og bent á að þær breytingar sem hér liggja til grundvallar séu ekki dæmi um brýna nauðsyn. Félag vélstjóra og málmtæknimanna óskar jafnframt eftir því að frumvarpið verði saltað á meðan störf nefndarinnar standa yfir og sömu sögu er að segja um Landssamband íslenskra útvegsmanna og Sjómannasamband Íslands. Við getum ekki skellt skollaeyrum við ákalli þeirra sem starfa í sjávarútvegi en í þeirra röðum eru einmitt flestir okkar færustu sérfræðinga um sjávarútvegsmál. Þeir hafa þekkingu sína af beinu starfi í greininni.

Virðulegi forseti. Það eru ekki bara starfsmenn í greininni sem hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna þessa frumvarps heldur hafa sveitarfélög vítt og breitt um landið lýst yfir áhyggjum af þróun mála enda er staðan einfaldlega sú að sjávarútvegurinn og velgengni atvinnugreinarinnar eru það sem menn treysta á í þeirri erfiðu stöðu sem við erum í varðandi atvinnumál á Íslandi í dag. Þetta er slæmur tími til að skapa óvissu um framtíð greinarinnar.

Virðulegi forseti. Misvísandi skilaboð eru í frumvarpinu í heild. Annars vegar er lagt til að dregið sé úr framsalsrétti og hins vegar er lagt til að stuðlað sé að auknum leigukvóta og frumvarpið er þar af leiðandi afar mótsagnakennt að því leyti. Framsalsrétturinn er einn af grundvallarþáttum kerfisins en mér finnst sjálfsagt að skoðaður verði sá möguleiki, eins og hér er lagt til, að veiðiskyldan verði að einhverju leyti aukin á kostnað framsalsréttarins, en hafa ber í huga að ekki má fara of geyst í þeim efnum og að sjávarútvegurinn verður að fá hæfilegan aðlögunartíma því að framsalsrétturinn er einmitt ein forsenda nýliðunar í greininni og takmörkun á honum getur dregið úr aðgengi minni útgerða að greininni.

Virðulegi forseti. Mig langar til að koma stuttlega inn á þá breytingu sem lögð er til í frumvarpinu að dregið verði úr heimild til að flytja aflamark á milli fiskveiðiára úr 33% í 15%. Ég tel að þetta ákvæði sé ekki til vandræða fyrir kerfið eins og það er í dag heldur sé það afar þýðingarmikið fyrir útgerðirnar að geta flutt aflamark á milli fiskveiðiára, t.d. ef ekkert fiskast eða ef menn ná ekki að fiska upp í kvóta eða vegna ástands fiskstofna eða veðurfars eða bilunar í skipum og svo mætti lengi telja. Í frumvarpinu er lögð til breyting upp á 18 prósentustig sem að mínu mati er fulllangt gengið.

Að lokum langar mig til að koma inn á þau einkennilegu völd sem færð eru hæstv. sjávarútvegsráðherra í lið d í 2. gr. frumvarpsins, þ.e. að hann geti stýrt vinnslu á uppsjávarfiski. Á það ekki að vera hlutverk okkar stjórnmálamanna að setja almennan vinnuramma eða almennar reglur um atvinnugrein sem sjávarútveginn? Er ekki of langt seilst með þessu ákvæði? Ég leyfi mér að spyrja: Vill hæstv. sjávarútvegsráðherra virkilega vera með puttana í þessu? Eigum við ekki heldur að treysta útgerðunum og fiskvinnslunum í landinu til að meta þetta?

Að endingu, virðulegi forseti, vil ég ítreka mikilvægi sjávarútvegsins sem atvinnugreinar í landinu. Greinin skapar miklar tekjur og atvinnu fyrir Íslendinga og mín skoðun er sú að það beri að fara varlega í allar breytingar á kerfinu, sem hefur að mestu leyti reynst okkur Íslendingum vel.