Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 17:30:49 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:30]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég minnist þess að hafa heyrt það haft eftir hagfræðingnum Benjamín H. J. Eiríkssyni eitt sinn þegar hann var spurður um atvinnuskapandi aðgerðir, að hann hafi svarað eitthvað á þá leið að það hafi aldrei verið vandamál á Íslandi að finna störf fyrir fólk. Reyndar hafi það verið svo að það hafi verið eitt helsta bölið, vinnuáþjánin.

Það er mikið til í þessu vegna þess að það sem þetta snýst allt um er að störf verði til sem skila ágóða fyrir þann sem vinnur starfið, fyrir þann sem fær einhvern til starfans og fyrir samfélagið í heild. Stritið eitt og sér er ekki markmið og störfin ein og sér eru ekki markmið. Það er afrakstur starfanna sem skiptir öllu máli og er Íslandssagan sjálf glöggt vitni um það hvernig þjóðin, sem mátti strita myrkranna á milli út í eitt, komst í álnir vegna þess að vinnan fór að skila afrakstri. Þar var í forgrunni íslenskur sjávarútvegur og það sem skipti mestu, þessi gríðarlega auðlind í hafinu sem breytti landinu úr því að vera eitthvert hið fátækasta í Evrópu í að verða eitt það ríkasta.

Þegar við alþingismenn, frú forseti, erum að véla um umhverfi, lagaumhverfi þessarar mikilvægustu atvinnugreinar þjóðarinnar er hollt fyrir okkur að hafa í huga að við erum að fjalla um fjöreggið. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir Íslendinga, bæði þá sem nú eru uppi og lifandi og þá sem ófæddir eru og munu vonandi búa hér, að sjávarútvegur Íslendinga sé rekinn þannig að við fáum sem mesta arðsemi úr þeirri grein. Vitanlega og að sjálfsögðu er það svo að fleiri sjónarmið koma þar að, en í grunninn er það þetta sem skiptir mestu. Það er auðvitað þess vegna, frú forseti, sem við höfum komið upp og höfum möguleika á ýmsum aðgerðum, t.d. eins og byggðakvóta til að bregðast við þar sem mikið rask verður vegna þess að kvóti hafi verið seldur úr byggðarlögum eða eitthvað kemur upp á í rekstri sem kallar á slíkt. Það er þó þannig og rétt að hafa í huga og það kom m.a. fram hjá forustumönnum í Vestmannaeyjabæ nýverið að það virðist þar lítið samhengi vera á milli þess hversu mikill kvóti er í bæjarfélaginu annars vegar og hvernig fólksfjöldanum hefur miðað hins vegar. Það er fleira sem kemur til, aðgengi að þjónustu, afþreyingu, fjölbreytni í starfsvali o.s.frv.

Grundvallaratriðið er þetta og það er það sem ég vil segja við hv. þingmenn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að þegar nefndin fer yfir málið aftur á milli 2. og 3. umr. að hafa það hugfast að þær aðgerðir sem eru boðaðar í frumvarpinu snúa ekki bara að fisktegundinni skötusel einni saman. Hér er um að ræða fordæmisgefandi löggjöf. Mitt mat er að þar sé verið að taka ákvarðanir sem geti haft mjög slæmar afleiðingar þegar upp verður staðið fyrir íslenskan sjávarútveg. Eins vona ég að það verði skoðað með opnum huga hvaða áhrif það hefur að draga svo mjög úr möguleikum manna að leigja kvóta að erfiðara verði en áður að komast inn í þessa meginatvinnugrein þjóðarinnar, því að eftir því sem við höfum meiri veiðiskyldu því minna framboð verður á leigukvóta og þar af leiðandi erfiðara fyrir nýliða að komast inn.

Við eigum eftir að ræða þetta mál við 3. umr. og ég vona að þegar við sjáum málið koma aftur í þingsal hafi verstu agnúar verið sniðnir af málinu. Það er mikið undir, frú forseti.