Jarðgasvinnsla við Norðausturland

Mánudaginn 15. mars 2010, kl. 15:25:25 (0)


138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

jarðgasvinnsla við Norðausturland.

[15:25]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og alþjóð veit eru bundnar vonir við að það finnist olía á Drekasvæðinu og eru sterkar vísbendingar um að svo sé, það mál er allt í útboðsferli. Ég ætla hins vegar að beina fyrirspurn að hæstv. iðnaðarráðherra varðandi það að jarðgas hefur fundist með vissu í Öxarfirði og virðist hafa náð þó nokkuð mikilli útbreiðslu. Þá hefur verið sýnt fram á að í surtarbrandinum á Tjörnesi er ágætt móðurberg fyrir gas og síðan eru vísbendingar um gas í botnseti samkvæmt hljóðendurvarpsmælingum á nokkrum stöðum á Skjálfanda en mest rétt utan við Húsavík.

Sveitarstjórn Norðurþings beindi því til iðnaðarráðherra um daginn í ályktun að hann mundi hlutast til um að nú þegar yrði hafist handa um framhald rannsókna í Öxarfirði, Skjálfanda og hluta Eyjafjarðar, eins og lagt er til í lok erindis Bjarna Richters um setlög úti fyrir Norðurlandi sem hann flutti á ársfundi ÍSOR 2004. Einnig eru til nokkrar skýrslur Orkustofnunar og Íslenskra orkurannsókna um þessar rannsóknir og tillögur um framhald. Fjöldi annarra erinda og veggspjalda hefur verið kynntur og hefur Orkustofnun ágætt yfirlit yfir þá vinnu.

Það sorglega í þessu er hins vegar að það hefur lítið gerst í þessum rannsóknum frá árinu 2004. En heimamenn, sem leita allra leiða til þess að finna ný tækifæri til atvinnusköpunar og til að koma í veg fyrir hið mikla atvinnuleysi sem er á svæðinu, eru svolítið langeygir eftir einhvers konar viðbrögðum frá iðnaðarráðuneytinu. Ég velti þessu upp hér á Alþingi, (Forseti hringir.) ég held að þetta sé umræða sem við þurfum að setja af stað. Ég tel að þarna geti verið um gríðarlega mikla hagsmuni að ræða.