Jarðgasvinnsla við Norðausturland

Mánudaginn 15. mars 2010, kl. 15:27:43 (0)


138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

jarðgasvinnsla við Norðausturland.

[15:27]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa fyrirspurn. Nú er það svo að það eru einhver ár síðan tekin var sú ákvörðun hjá Orkustofnun að einbeita sér að Drekasvæðinu hvað olíuleitina varðar. Ástæðan var sú að þar eru aðstæður þekktari en aðstæður rétt hjá Húsavík, auk þess sem það svæði er líka mun stærra. Þess vegna er líklegra að alþjóðleg olíuleitarfyrirtæki sjái sér meiri hag í því að koma þangað í leit. Það vill þannig til að þetta eru dýrar rannsóknir, það er dýrt að leita að olíu og ekki verður séð að íslenska ríkið hafi gert það sjálft á þeim tíma.

Þetta er hins vegar svæði sem er alltaf uppi á borðum hjá okkur. Því hefur ekki verið ýtt til hliðar. Nú er hins vegar verið að fókusera á Drekasvæðið. Ástæðan er líka sú að þar eiga Norðmenn töluvert mikilla hagsmuna að gæta sem við getum jafnframt notið góðs af. Svæðið fyrir utan Húsavík hefur, að mig minnir, allt frá árinu 1984, 1985 verið rannsakað af og til, hvort þar sé jarðgas að finna. Það eru mjög sterkar vísbendingar þar um. Það er því alveg klárt að við munum skoða það svæði betur þegar fé og færi gefast til.

Ég er alltaf tilbúin til þess að ræða við Norðurþingsmenn, við eigum í mjög góðum samskiptum um ýmis atvinnutækifæri og atvinnuuppbyggingartækifæri á þessu svæði. Þetta mál hefur ekki komið upp í þeim samtölum að öðru leyti en í gegnum ályktun frá sveitarstjórninni. Ég geri þá ráð fyrir því að á okkar næsta fundi muni þetta mál bera á góma og við getum þá farið að ræða næstu skref.