Jarðgasvinnsla við Norðausturland

Mánudaginn 15. mars 2010, kl. 15:29:44 (0)


138. löggjafarþing — 91. fundur,  15. mars 2010.

jarðgasvinnsla við Norðausturland.

[15:29]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Tilgangurinn með þessari fyrirspurn var einmitt að vekja athygli á að þarna getur verið um gríðarlega mikla hagsmuni að ræða. Ég held að í ljósi atvinnuástandsins úti um allt land eigum við einmitt að leggja okkur fram við að skoða svona tækifæri. Jarðgas hefur fundist með vissu í Öxarfirði og eins og iðnaðarráðherra sagði réttilega eru mjög sterkar vísbendingar um að það sé að finna annars staðar, á Skjálfandaflóa og fyrir utan Eyjafjörð.

Ég fagna því að iðnaðarráðherra hafi tekið vel í þessa fyrirspurn og að það hafi komið fram að þessu verkefni hafi ekki verið ýtt til hliðar. Ég tel að það megi ráðast í þessar rannsóknir algjörlega óháð því sem er að gerast á Drekasvæðinu og það er mjög jákvætt sem er þar í gangi. Ég verð þó að viðurkenna að auðvitað óskar maður eftir því að hlutirnir gangi hraðar en þeir hafa gert. (Forseti hringir.) En ef iðnaðarráðherra er reiðubúin að ræða þetta við sveitarstjórnarmenn í Norðurþingi og beita sér sérstaklega fyrir því að rannsóknum þarna verði flýtt og (Forseti hringir.) hugsanlega fyrir aðkomu ríkisins að þeim rannsóknum, fagna ég því.