Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 16. mars 2010, kl. 15:17:05 (0)


138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

virðisaukaskattur.

460. mál
[15:17]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra þar sem hann ýjar að því að horfa þurfi til þess hvar hömlur séu á vexti ferðaþjónustunnar annars staðar og hvernig við bregðumst við því. Hann ræðir um gistingu og ég veit fyrir víst að víða um land er gisting orðin verulegur tappi í frekari uppbyggingu. Það leiðir kannski hugann að tvennu. Annars vegar — og hér erum við kannski komin út fyrir það málefni sem er á dagskrá en engu að síður er gott að nýta tækifærið til að ræða stöðu ferðaþjónustunnar í heild — er sú landnýtingarpólitík sem við viljum reka, með hvaða hætti við viljum dreifa ferðamönnum um landið og á hvaða tíma og mikilvægi þess að á einhverju stigi muni þurfa að búa til rammaáætlun um nýtingu og dreifingu ferðamanna um landið. Ég held að það hljóti að koma að því að við þurfum að fara að íhuga alvarlega á hversu fáa staði ferðamenn koma yfir stuttan tíma, og við verðum að horfa til þess að gæta að þessum perlum, því að í þeim felst mikil orka ef vel er gætt að.

Það leiðir líka hugann að öðru, hvort við getum horft til annarra verkefna. Og ég vil spyrja ráðherrann að því hvort hægt sé að styðja við fjárfestingu eða sókn í ferðaþjónustunni með aðgerðum ríkisins, því að við erum sammála um það og ráðherra þekkir það betur en margur annar hvaða kosti landið hefur að bjóða: Getur ríkið með öðrum hætti komið að fjárfestingu í atvinnuuppbyggingu á sviði ferðaþjónustunnar en við höfum gert með nýsköpunarfrumvarpi eða því frumvarpi sem hér liggur fyrir?