Tekjuskattur

Fimmtudaginn 25. mars 2010, kl. 17:29:14 (0)

138. löggjafarþing — 101. fundur,  25. mars 2010.

tekjuskattur.

386. mál
[17:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. alþingismönnum fyrir góða samvinnu við að gera þetta mál að lögum hratt og vel hér í dag í gegnum 2. og 3. umr. Í því felast nauðsynlegar heimildir til handa skattrannsóknarstjóra til þess að kyrrsetja eigur ef grunur er um að menn hafi skotið fé undan skatti. Það eru þegar til rannsóknar ýmis mál hjá embættinu þar sem það þarf á slíku úrræði að halda. Það er því mikilvægt að fá skattrannsóknarstjóra þessar heimildir fljótt og vel þannig að á allra næstu dögum sé hægt að gera ráðstafanir til þess að tryggja að það sem skotið hefur verið undan sé hægt að kyrrsetja og tryggja með því að sem allra mest af því fé sem skotið hefur verið undan skatti fáist aftur í ríkissjóð. Það er úrræði sem skattrannsóknarstjóri hefði alltaf átt að hafa en það er sérstaklega mikilvægt nú í kjölfar hrunsins og ekki síst eftir þá greiningu sem skattrannsóknarstjóri hefur gert á hinum föllnu bönkum (Forseti hringir.) sem afhjúpar umtalsverð og víðtæk skattsvik þar inni.