Frumvarp um lengingu fyrningarfrests

Föstudaginn 16. apríl 2010, kl. 12:03:02 (0)


138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

frumvarp um lengingu fyrningarfrests.

[12:03]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég get að mörgu leyti tekið efnislega undir það sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði varðandi það frumvarp sem hv. þm. Helgi Hjörvar er 1. flutningsmaður að og hefur núna verið tekið út úr allsherjarnefnd. Í gær, þegar verið var að undirbúa dagskrá þingsins fyrir daginn í dag, ræddi ég um að það væri mjög æskilegt að þetta nefndarálit kæmist á dagskrá í dag og hægt væri að mæla fyrir því og gera það að lögum. Eins og dagskráin ber með sér var ekki orðið við því en ég treysti því, og hef reyndar orð fyrir því, að málið verði sett á dagskrá strax eftir helgi. Ég heiti þá á alla þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, að sameinast um að taka þetta mál út og gera það að lögum eins hratt og okkur er unnt. Það er rétt sem komið hefur fram að þetta er afar brýnt mál vegna þess að þetta snýst um fyrningarfrestina og í þeim efnum skiptir hver einasti dagur máli. (PHB: Líka dagurinn í dag.) Líka dagurinn í dag, það er rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal segir. Eigum við ekki að vonast eftir því og sammælast (Forseti hringir.) um að þetta fari á dagskrá eftir helgi og menn geti þá gert þetta að lögum með hraði?