sameining Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands.
Frú forseti. Þó að þetta frumvarp til laga um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands láti kannski ekki mikið yfir sér held ég að sú tillaga sem hæstv. ráðherra mælir hér fyrir sé til marks um þann sparnað og þá hagræðingu sem hægt er að ná víða í kerfinu. Hæstv. ráðherra kom inn á það, og ég vil taka undir það, að í framhaldinu, þegar fram líða stundir, þegar búið er að sameina þessar tvær stofnanir — við vitum að bæði fjárhagslegur sparnaður og samlegðaráhrif af sameiningu stofnana koma ekki alltaf fram alveg strax og til skemmri tíma getur jafnvel orðið tímabundinn kostnaðarauki, það þekkjum við sem höfum unnið í opinberri stjórnsýslu — mun sparnaður m.a. verða í starfsmannahaldi, í yfirstjórn o.s.frv. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er einmitt gert ráð fyrir að það geti tekið 3–4 ár áður en þessar kostnaðarlækkanir fara að tikka inn ef svo má að orði komast.
Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að skoða það að ganga jafnvel lengra og skoða hvort ekki eru aðrar skrár, sem eru vistaðar til að mynda á vegum ríkisins, grunnskrár ýmiss konar, sem hugsanlega mætti flytja þarna yfir og þær væru þá í þessari einu sameinuðu stofnun sem hæstv. ráðherra gerði grein fyrir. Ég hygg, frú forseti, að víða í kerfinu séu matarholur innan ráðuneyta þar sem til að mynda má skoða frekari sameiningar stofnana. Ég mun koma að því og þeim hugmyndum frekar í síðara andsvari mínu.