Sameining Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands

Föstudaginn 16. apríl 2010, kl. 14:45:38 (0)


138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

sameining Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands.

508. mál
[14:45]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Í þeim orðum í svari hennar, að það væri ekki hennar að tjá sig um skráningu sem heyrir undir önnur ráðuneyti, felst kannski vandi ríkisrekstrarins í hnotskurn að það er skortur á samvinnu milli ráðuneyta og stofnana þvert á ráðuneyti. Ég held að þetta sé eitthvað sem við verðum að skoða núna í tengslum við vinnuna við fjárlagafrumvarpið. Við verðum að fara að skoða ríkisreksturinn, stjórnsýsluna og Stjórnarráð Íslands sem einn pakka, sem eitt apparat, ekki bara sem dómsmála- og mannréttindaráðuneytið, utanríkisráðuneytið, menntamálaráðuneytið og síðan vantar alla samvinnu þarna á milli. Ég kalla eftir því að við leggjum okkur öll fram um að vinna með þeim hætti. Ég er algerlega sannfærð um það, sem ég stend hér, að hægt er að ná fram töluvert mikilli hagræðingu í ríkisrekstrinum með sameiningu og samvinnu þvert á stofnanir og þvert á ráðuneyti. Ég ætla meira að segja að leyfa mér að hafa þá skoðun að við eigum að hugsa svo djarft fyrir næsta fjárlagafrumvarp að velta því fyrir okkur hvort megi ekki einfaldlega leggja niður ákveðnar stofnanir sem ríkið rekur og þar eru engar stofnanir undanskildar, hvorki í utanríkisráðuneytinu, menntamálaráðuneytinu, dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu né annars staðar.

Mig langar að segja, af því að ég var að tala um sameiningu stofnana áðan og ég á sæti í samgöngunefnd þar sem verið er að reyna að sameina t.d. rannsóknarnefndir umferðarslysa, flugslysa og sjóslysa, að það er mjög mikil tregða hjá aðilum í kerfinu að fara í slík sameiningarferli eða samvinnuferli. Þegar maður er að vinna í svona kerfi er það bara þannig að það er eðli slíkra kerfa að verja sjálft sig. Fólk vill ekki breytingar vegna þess að það veit hvað það hefur en veit ekki hvað það fær. Mér finnst þetta því upplagt tækifæri og vil hrósa hæstv. ráðherra fyrir framlagningu þessa frumvarps, því að eins og ég sagði í upphafi lætur það ekki mikið yfir sér en þetta er vísir að því sem ég tel að koma eigi í ríkisrekstrinum almennt.