sameining Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands.
Hæstv. forseti. Mig langar að beina örstuttri fyrirspurn til hæstv. ráðherra. Hún varðar 3. gr. og er um starfssvið stjórnar þar sem fjallað er um að hlutverk stjórnar haldist óbreytt en starfssvið stjórnar nái ekki til starfsemi Þjóðskrár Íslands sem fellur að sjálfsögðu undir önnur lög en Fasteignaskrá ríkisins hefur unnið eftir. Hefur verið umræða um það að stjórnin fái víðara starfssvið og taki þá yfir starfsemi Þjóðskrár líka vegna þess að það er fulltrúi frá sveitarfélögunum í stjórninni og sveitarfélögin hafa mikilvægu hlutverki að gegna í starfsemi Þjóðskrár? Því væri áhugavert að heyra það frá hæstv. ráðherra hvort það hafi verið rætt og skoðað í sambandi við þessar breytingar að útvíkka starfssvið stjórnar. Það kemur ekki nægilega skýrt fram í greinargerðinni.
Af því að ég hef smátíma langar mig líka til að beina annarri fyrirspurn til hæstv. ráðherra. Hún varðar það sem kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þar kemur fram, með leyfi forseta:
„Ekki hefur verið unnin sérstök úttekt á fjárhagslegum samlegðaráhrifum stofnananna tveggja eða rekstraráætlun gerð fyrir sameiginlega stofnun á vegum dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins.“
Nú dreg ég ekki í efa að þetta sé góð ráðstöfun, að sameina þessar tvær stofnanir, en af því að hér var rætt um opinbera stjórnsýslu, væri þá ekki rétt þegar farið er í slíkar framkvæmdir að sameina tvær stofnanir að gera úttekt eins og þarna er fjallað um? Væri það ekki eitthvað sem við ættum að innleiða í stjórnsýsluna, af því að við hljótum öll að ætla að vanda okkur í þeim miklu breytingum sem fram undan eru í kjölfar þeirrar hagræðingar sem þarf að fara fram í ríkisrekstrinum?