umboðsmaður skuldara.
Hæstv. forseti. Ég gleðst yfir því að hæstv. félagsmálaráðherra er glaður yfir því að ég er komin í andsvar. Þessi viðleitni öll hjá félagsmálaráðherra og þeim sem hafa staðið að því að bæta réttarstöðu skuldara er mjög góð. Það er þörf á því að gera það en það er alltaf spurning hvaða leiðir menn fara. Hér er lagt til að sett verði á fót ný stofnun, reyndar á grunni Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Maður hefur orðið var við athugasemdir við að það sé verið að breyta Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem ætti að fá að standa áfram í sínum sporum og sinna því hlutverki sem hún hefur rækt með miklum ágætum þrátt fyrir að hér sé verið að ráðast í breytingar til að bæta réttarstöðu skuldara. Ég hlusta af athygli á þessar raddir.
Svo er rétt að taka fram að skuldavandi heimilanna verður ekki leystur með því að búa til enn eina ríkisstofnunina. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um það, og það hlýtur að vera þá innihaldið og afurðin sem út úr þessu á að koma sem hlýtur að eiga að vera aðalatriðið. Við skulum reyna að vanda okkur við það í félagsmálanefnd hvernig við tökum á því. Þótt það sé mjög erfitt að koma upp og fagna nýrri ríkisstofnun ætla ég ekki að láta af þeirri meginlínu sem ég hef verið með í þessu máli, að við ætlum að sitja saman við þetta borð og reyna að finna skynsamlegar leiðir en ég tel rétt að við í nefndinni ræðum vel hvort þetta sé raunverulega rétt skref fyrir Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.