umboðsmaður skuldara.
Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna þessu frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara. Þetta var sérstakt baráttumál þingflokks Vinstri grænna þegar frumvarpið um sértæka skuldaaðlögun fór í gegn í fyrrahaust. Jafnframt lagði þessi þverpólitíska nefnd, sem oft hefur verið nefnd hérna, til við hæstv. ráðherra að þessu embætti yrði komið á og hefur hæstv. ráðherra orðið við þeirri beiðni sem er fagnaðarefni.
Það eru þrjú atriði sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í, í fyrsta lagi varðandi framfærsluviðmiðið. Nú á að fela sérstöku embætti að koma með lágmarksframfærslu. Þá velti ég fyrir mér hvort ekki sé hægt að nota framfærsluviðmið Ráðgjafarstofunnar, eða embættis skuldara eins og það mun heita, til að ákveða lágmarksbætur í bótakerfinu.
Hvað varðar síðan hlutverk umboðsmanns skuldara, eins og það er tilgreint í frumvarpinu, kom mér á óvart að hlutverk umboðsmannsins sé ekki að meta þau ólíku úrræði sem bankarnir bjóða upp á. Við í þessari þverpólitísku nefnd um skuldavanda heimila og fyrirtækja höfum orðið vör við að fólk er mjög óöruggt varðandi hvaða úrræði það eigi að þiggja.
Að lokum er það fjármögnun þessa embættis, hún á að vera með gjaldi á ýmsar lánastofnanir. Sambærilegt gjald er lagt á þessar fjármálastofnanir til að fjármagna Fjármálaeftirlitið. Þar af leiðandi fannst mér svolítið skrýtið að setja þetta embætti undir félags- og tryggingamálaráðherra. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér hvort eitthvert annað embætti eða stofnun sé fjármögnuð með slíkum hætti sem tilheyrir félags- og tryggingamálaráðuneytinu.