Fjármálafyrirtæki

Þriðjudaginn 18. maí 2010, kl. 20:34:05 (0)


138. löggjafarþing — 126. fundur,  18. maí 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[20:34]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins um fjármálamarkaði er óhætt að segja að við Íslendingar höfum gert nokkur mistök og sérstaklega er hægt að segja það svona eftir á að hyggja, eins og er mjög í tísku núna. Það voru engin takmörk sett á eignarhald á bönkunum að því leyti að ekki var kveðið á neinn hátt á um hámarkseign einstaks aðila líkt og t.d. Norðmenn gerðu, en þeir báru gæfu til þess að setja 10% hámark þannig að tengdir aðilar máttu ekki eiga meira en 10% í fjármálafyrirtæki. Þetta leiddi til þess að við einkavæðinguna á Íslandi fóru Landsbankinn og Búnaðarbankinn, sem seinna varð Kaupþing, í eigu tveggja blokka. Við þekkjum að í Landsbankanum voru það fyrirtæki tengd Björgólfsfeðgum, í Búnaðarbankanum, síðar Kaupþingi, var það fyrirtækjahópur sem oft hefur verið kenndur við Exista og Kjalar, getum við sagt.

Í eina stóra viðskiptabankanum sem hérna var, Íslandsbanka, varð þróunin þannig að það voru stórar grúppur sem áttu bankann sem lentu að lokum árið 2006 undir þeirri grúppu sem kennd hefur verið við Baug FL. Þá var staðan orðin þannig um mitt ár 2006 að viðskiptabankarnir þrír voru í eigu þriggja viðskiptablokka. Þessar viðskiptablokkir gátu notað bankana til að fjármagna viðskiptaveldi sín og þessar viðskiptablokkir höfðu viðskipti innbyrðis þannig að kerfisáhættan í íslenska bankakerfinu var orðin gríðarleg undir lokin. Það fer ekki vel á því að hringur sem er í eigu fárra aðila eða undir stjórn einhverra fárra hafi yfir viðskiptabanka að ráða vegna þess að við þær aðstæður getur þessi viðskiptablokk notað efnahagsreikning viðskiptabankans og eins og við vitum öll geta efnahagsreikningar viðskiptabanka verið úr öllu samræmi við eigið fé í bankanum. Við höfum heyrt tölur eins og t.d. þær að efnahagsreikningur ákveðinna banka hafi verið fjörutíufalt eigið fé. Oft og tíðum, eins og hér á Íslandi, varð það til þess að þetta var notað til að stækka veldið enn meira.

Af hverju segi ég þetta í sambandi við þetta frumvarp? Vegna þess að þetta frumvarp, sem ég sé ekki annað en skapi falska öryggiskennd, tekur jú vissulega á vandamálum en það tekur ekki á því sem er frumskylda okkar þingmanna, að koma í veg fyrir að atburðirnir sem áttu sér stað 2008 geti gerst aftur. Þess vegna er afskaplega furðulegt að í þessu frumvarpi sé á engan hátt reynt að takmarka eignarhald á bönkunum.