Embætti sérstaks saksóknara og meðferð sakamála

Mánudaginn 31. maí 2010, kl. 16:28:02 (0)


138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

embætti sérstaks saksóknara og meðferð sakamála.

511. mál
[16:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hér erum við í 3. umr. um frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um embætti sérstaks saksóknara og lögum um meðferð sakamála. Frumvarpið er tvíþætt, í I. kafla er um að ræða breytingar á lögum sem varða sérstakan saksóknara og síðari hluti frumvarpsins snýst svo um ákveðnar tæknilegar breytingar á lögum um meðferð sakamála sem má segja að séu ákveðin leiðrétting í kjölfar setningar nýrra laga á því sviði 2008.

Það sem efnislega skiptir mestu máli í þessu frumvarpi, sem hefur kannski fengið minni umræðu í þinginu en efni hafa staðið til, eru breytingar sem lúta að ákveðinni útvíkkun á hlutverki embættis sérstaks saksóknara sem stofnað var til haustið 2008 í kjölfar bankahrunsins. Breytingin er fyrst og fremst fólgin í því að um er að ræða útvíkkun eða alla vega skýrari útfærslu á verksviði hans með það að markmiði að mál sem koma til rannsóknar hjá embættinu séu með skýrum hætti felld undir verksvið þess.

Þegar stofnað var til þessa embættis í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 gat enginn áttað sig á því hversu viðamiklar rannsóknir mundu verða á því sem þá hafði gerst. Flestir gerðu sér í hugarlund að um væri að ræða ýmis mál sem mundu krefjast rannsóknar á grundvelli sakamálaréttarfars og til þess var embættið stofnað. Jafnframt gerðu menn sér grein fyrir því að þörf var á nýjum ráðstöfunum til að unnt yrði að rannsaka öll þessi atvik og þess vegna var stofnað til embættis sérstaks saksóknara í þessum málum í stað þess að láta þær stofnanir sem þegar voru fyrir hendi hafa það verkefni með höndum. Sú reynsla sem komin er af því starfi er sú að málin eru fleiri og stærri en við sem stóðum að setningu laganna haustið 2008 sáum fyrir þó að við hefðum auðvitað í umræðum alla fyrirvara á því að þetta gæti orðið býsna viðamikið. Reynslan hefur verið sú að þessi mál eru bæði fleiri og stærri en við gátum ímyndað okkur og það hefur kallað á sérstakar ráðstafanir til viðbótar þeim sem þegar var gripið til. Um þær ráðstafanir hefur verið góð sátt á vettvangi þingsins, bæði um hugmyndir um auknar fjárveitingar til embættisins, sem hafa verið samþykktar og komið til í nokkrum áföngum eftir að til embættisins var stofnað, og í sambandi við breytingar á lagaumgjörð embættisins sem við erum m.a. að fjalla um í dag.

Ég held að sú breyting sem hér er verið að boða sé tvímælalaust til bóta og vildi bara vekja athygli á þessu á þessum stað í umræðunni til að undirstrika að þarna er verið að tryggja að ekki falli utan verksviðs sérstaks saksóknara einhver mál eða hlutar af málum sem hann rannsakar. Um leið er í 2. gr verið að auka svigrúm til að skipa málum, færa mál milli embætta eftir því sem hentugast þykir og það verkefni falið ríkissaksóknara að úrskurða um það hvaða ákærandi eigi að fara með mál sem heyra undir þessa löggjöf ef vafi rís um það.

Hér er alla vega verið að tryggja betur lagaumgjörð um starfsemi sérstaks saksóknara með það að markmiði að greiða fyrir og auðvelda hinum sérstaka saksóknara störf sín sem enginn dregur í efa að eru mikilvæg. Lagagrunnurinn á að verða traustari eftir samþykkt þessa frumvarps og ánægjulegt að geta greint frá því að í allsherjarnefnd hefur verið fullkomin samstaða um afgreiðslu þessa máls og ekki hafa komið fram sérstakar athugasemdir við þessa breytingu annars staðar frá.