Framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Mánudaginn 31. maí 2010, kl. 16:34:00 (0)


138. löggjafarþing — 128. fundur,  31. maí 2010.

framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

513. mál
[16:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það má segja um þetta frumvarp, eins og fjallað var um hér áðan, að það hefur fengið litla athygli hér í þinginu. Um það hefur reyndar verið samstaða í allsherjarnefnd og enginn sérstakur ágreiningur. Efni frumvarpsins kveður á um það að sé sýslumanni veitt lausn frá embætti, leyfi frá störfum eða að hann forfallast af öðrum ástæðum geti ráðherra falið öðrum sýslumanni að gegna embættinu til allt að eins árs í senn. Síðan er gert ráð fyrir að ákvæði þetta falli úr gildi árið 2015.

Það kemur fram í skýringum með frumvarpinu að það sé tilkomið til þess að búa jarðveginn undir breytingar á framtíðarskipulagi sýslumannsembætta sem unnið er að á vegum dómsmálaráðuneytisins. Ég segi fyrir mitt leyti að ég tel ekki ástæðu til ágreinings um þessa breytingu. Breytingin sem slík felur í sér að með tiltölulega einföldum hætti er hægt að útvíkka starfsemi eins sýslumanns þannig að hann taki tímabundið við öðru sýslumannsumdæmi eða sýslumannsembætti og gegni þá fleira en einu sýslumannsstarfi á sama tíma. Auðvitað tímabundið og ekkert við það að athuga. Sýslumenn í landinu eru 24, embættin eru 24, og það hefur talsvert verið rætt að ástæða væri til að fækka embættunum samhliða því að breyta með einhverjum hætti verksviði þeirra. Ég tel ekki ástæðu til þess að hafna slíkum vangaveltum en hins vegar þurfa hugmyndirnar að vera skýrar áður en maður tekur afstöðu til þeirra. Þess vegna vil ég taka fram að þrátt fyrir að ég hafi stutt meðferð málsins í allsherjarnefnd og samþykkt, þá vil ég bíða þangað til ég sé útfærslu hæstv. dómsmálaráðherra á hugmyndum um framtíðarskipulag sýslumannsembætta áður en ég lýsi stuðningi við þær útfærslur.

Við stöndum frammi fyrir ákveðnum vanda hér í þinginu varðandi skipulag á þessu sviði, bæði varðandi sýslumannsembættin og skipan lögreglumála. Formlega hefur verið greint á milli lögreglustjóraembætta og sýslumannsembætta en þó þarf að hugsa þessi mál og skipan þeirra í samhengi. Hér í þinginu hafa frumvörp og hugmyndir sem snúa að þessu verið kynntar. Markmiðið er að fækka embættum en það hefur fengið mismunandi undirtektir. Ráðuneytið er nú að skoða mál sýslumannsembættanna betur og sjálfsagt að gefa ráðuneytinu eðlilegan tíma til þess að fara yfir þau mál. Gefa þeim sem málið varða tíma til að bera saman bækur sínar, hvort sem um er að ræða embættin sjálf, starfsmenn, sveitarstjórnir eða aðra sem hafa hagsmuna að gæta.

Það á að vera unnt að fækka þessum embættum. Hins vegar þarf, að mínu mati, að gera heildstæðari skoðun á því hvaða hlutverki þessi embætti eiga að gegna í framtíðinni. Það er auðvitað ljóst að breytingar sem orðið hafa á löggjöf síðustu 20 árin hafa breytt embættunum mikið. Það þarf að hugsa um framtíðarhlutverk þeirra. Móta þau í minni verksvið áður en teknar eru ákvarðanir um fjölda embætta. Að mínu mati þarf að byrja á réttum enda. Þó að kreppi í ríkisfjármálum um þessar mundir þá tel ég að það sé ekki rétt að taka ákvarðanir t.d. um fækkun embætta á þessu sviði í einhverju fljótræði bara til þess að ná fram einhverjum tilteknum sparnaði í málaflokknum, sem reyndar þarf ekkert endilega að vera svo mikill og kemur ekki strax fram. Ef haga á málum skynsamlega til framtíðar þarf að fara yfir verksviðin. Það þarf að fara yfir hlutverk embættanna, skoða það, og í kjölfarið geta menn síðan tekið ákvarðanir um fjölda embætta, umdæmaskiptingu og annað þess háttar.

Þetta vildi ég undirstrika, hæstv. forseti, við þessa umræðu. Ég geri ekki athugasemdir við frumvarpið sem slíkt svo langt sem það nær. Ég vil bíða með að lýsa stuðningi við væntanlegar tillögur dómsmálaráðherra þangað til þær hafa verið lagðar fram. Ég legg áherslu á að í því sambandi verði unnið samkvæmt þessu sjónarmiði, þ.e. að huga að verksviði og hlutverki þessara embætta í stjórnsýslunni og í samfélaginu áður en teknar verða ákvarðanir um það hversu mörg embættin eiga að vera eða hvar umdæmamörk eiga nákvæmlega að liggja.