Vátryggingastarfsemi

Þriðjudaginn 01. júní 2010, kl. 16:01:15 (0)


138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

vátryggingastarfsemi.

229. mál
[16:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég er á framhaldsnefndarálitinu frá meiri hluta viðskiptanefndar um vátryggingastarfsemi. Vegna þeirra breytingartillagna sem lagðar eru hér fram, hyggst ég draga til baka þær breytingartillögur sem ég kallaði til 3. umr. við atkvæðagreiðsluna eftir 2. umr. Ástæðan er sú að ég tel að í þeim sé að miklu leyti komið til móts við þær athugasemdir sem ég hafði við frumvarpið. Hér koma fram breytingartillögur frá meiri hlutanum um endurskoðendur. Þar er skerpt á skyldum endurskoðenda, svo sem að þeir þurfi að mæta á aðalfundi. Það sem mér finnst vera mikilvægast, er að þeir þurfa að láta FME vita ef þeir uppgötva alvarlega vankanta við endurskoðun, sérstaklega vankanta á innri eftirlitsferlum félagsins. Skyldur endurskoðenda eru því skýrðar betur.

Í 2. umr. var töluvert talað um gagnkvæm vátryggingafélög. Ég var mjög ósátt við þá breytingu sem meiri hlutinn lagði til, að banna hreinlega að reka hér gagnkvæm vátryggingafélög. Það komu mjög góðar ábendingar frá hv. þm. Pétri Blöndal um áhrif þess. Hann lýsti áhyggjum sínum af því að breytingin mundi gera það að verkum að gagnkvæm vátryggingafélög sem hafa starfsleyfi hér en eru með höfuðstöðvar sínar erlendis og skráð erlendis, mundu ekki geta starfað á Íslandi. Sérstaklega var farið í gegnum þetta í nefndinni á milli 2. og 3. umr. Þegar við skoðuðum skráninguna hjá Fjármálaeftirlitinu kom í ljós að mikill fjöldi vátryggingafélaga sem hafa leyfi til þess að selja tryggingar hér eru gagnkvæm vátryggingafélög. Í ljósi þessa liggur náttúrlega fyrir að ef einhver hefur áhuga á því að starfrækja gagnkvæm vátryggingafélög hér á Íslandi, þarf hann eins og er að fara utan og selja tryggingar sínar í gegnum netið eða opna útibú hér.

Ástæðan fyrir því að ég er á meirihlutaálitinu, þrátt fyrir fyrirvara mína, er sú að ég tel að viðskiptanefnd hafi hreinlega ekki verið tilbúin, og ég sjálf ekki heldur, til að leggja fram þær breytingartillögur sem nauðsynlegar eru til þess að tryggja að starfsumhverfi gagnkvæmra vátryggingafélaga verði sem best. Þetta er mjög mikil vinna. Eins og kemur fram í álitinu, skiptir mjög miklu máli að skoða t.d. gjaldþol, einkarétt og útgreiðslu arðs og slitameðferð. Á fund nefndarinnar komu — að vísu ekki á milli 2. og 3. umr. heldur áður — starfsmenn sem höfðu starfað hjá gagnkvæmu vátryggingafélagi. Þeir nefndu sérstaklega að ástæðan fyrir því að þeir þurftu að hætta rekstri, hefði annars vegar verið að verið var að afnema einkarétt og hins vegar að reglur varðandi gjaldþol voru hertar mjög. Við þurfum raunar að skoða hvort einhver möguleiki sé á því, eins og við erum að gera með sparisjóðina, að takmarka starfssvæði gagnkvæmra vátryggingafélaga, en lækka gjaldþolskröfuna á þau á móti.

Þetta er eitthvað sem þarf að skoða betur. Hér fjöllum við um heildarlöggjöf fyrir vátryggingastarfsemi sem ég tel að mörgu leyti vera mjög til bóta. Ég tel að við eigum að samþykkja þetta og klára málið nú á þessu þingi.

Ég fagna því mjög að meiri hlutinn á Alþingi skuli hafa tekið undir nauðsyn þess að efnahags- og viðskiptaráðherra skipi nefnd sem móti stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins. Ég vil einmitt hvetja til þess núna, þegar við fjöllum aftur um lög um fjármálafyrirtæki í viðskiptanefnd milli 2. og 3. umr., að við setjum fram sams konar ábendingar í nefndaráliti til efnahags- og viðskiptaráðherra, vegna þess að helstu athugasemdirnar sem komu fram hér í umræðunni voru að það kæmi ekki fram nógu skýr sýn hjá meiri hlutanum — og að mínu mati ekki heldur hjá stjórnarandstöðunni, ég skal viðurkenna það — á það hvers konar fjármálamarkað við viljum hafa. Og ekki bara hvers konar fjármálamarkað við viljum hafa, heldur hvers konar fjármálamarkað við ráðum við að hafa á Íslandi. Hvers konar fjármálamarkað getur 320.000 manna þjóð leyft sér að hafa?

Þannig að ég tel að þetta sé skynsamleg niðurstaða. Í ljósi þess að þetta lagafrumvarp hefur margítrekað verið lagt fram á Alþingi, hefði ég að sjálfsögðu mjög gjarnan viljað að efnahags- og viðskiptaráðuneytið væri búið að vinna þessa vinnu. En það var ekki búið að því. Miðað við hvernig aðstaðan er á þinginu — þó að við séum með gott fólk okkur til aðstoðar, þá krefst þetta ákveðinnar sérfræðiþekkingar, sem við þurfum að leita eftir. Við þurfum að velta fyrir okkur hvers konar fjármálakerfi við viljum hafa. Við þurfum einnig að skoða löggjöf annarra landa þar sem gagnkvæm vátryggingafélög starfa og hafa dafnað alveg ágætlega og hvernig við getum tryggt að svo verði líka á Íslandi.

Ég vil taka sérstaklega undir lokasetninguna, að það sé mjög mikilvægt að skoða ábyrgð skuggastjórnenda. Einnig hvað varðar eignarhald fjármálafyrirtækja á vátryggingafélögum og öfugt. Þetta fellur undir eignarhald á fjármálafyrirtækjum almennt, sem við höfum verið að velta fyrir okkur. Þetta er mikil vinna, en mjög nauðsynlegt að farið verði í hana.

Að lokum vil ég þakka kærlega fyrir gott samstarf í viðskiptanefnd og sérstaklega gott samstarf við formann nefndarinnar, hv. þm. Lilju Mósesdóttur, sem og aðra þingmenn. Ég vona að svo verði áfram.