Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 01. júní 2010, kl. 16:18:17 (0)


138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

framhaldsskólar.

578. mál
[16:18]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, formanni menntamálanefndar, fyrir að fara í gegnum þetta nefndarálit. Eins og fram kom snýst þetta fyrst og fremst um að veita ríkisvaldinu svigrúm, sem það þarf vegna fjárskorts, til að efna ekki ný lög um framhaldsskóla og bregðast við ýmsum þeim öðrum þáttum sem menn hafa fundið að nýju lögunum.

Á sama tíma voru sett lög um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Því langar mig að nefna það, ég hef nefnt það áður í umræðum hérna í þinginu við hæstv. menntamálaráðherra þegar verið var að festa í sessi möguleika ríkisins á að innheimta áframhaldandi gjald af framhaldsskólanemum vegna efniskaupa, ef ég man rétt, og slíkra hluta. Það var vegna hrunsins líka. Þá spurði ég hvort fyrir lægju í ráðuneytinu einhver áform um að fresta gildistöku allra þessara laga eða veita sveitarfélögunum, sem mörg hver eiga við talsverða efnahagserfiðleika að stríða eftir kreppu og bankahrun ekki síður en ríkissjóður, með einhverjum hætti sambærilegt svigrúm, auk þess sem nokkuð af því sem átti að koma fram í lögum um bæði leikskóla og grunnskóla og síðan grunnskóla og framhaldsskóla átti að gera nemendum kleift að renna auðveldar á milli þessara skólastiga en áður.

Þar sem ég á ekki sæti í menntamálanefnd langar mig að spyrja hreinlega hv. formann menntamálanefndar, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, hvort slíkt mál sé á leiðinni í gegnum menntamálanefnd, hvort það hafi verið rætt í hv. nefnd að nauðsynlegt sé að taka þessi ákvæði upp er varða grunnskólana ekki síst og jafnvel leikskólana. Í því sambandi langar mig, með leyfi forseta, að lesa aðeins upp úr hluta af umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fékk þetta reyndar ekki sent til umsagnar en sá engu að síður ástæðu til að gera ákveðna athugasemd þó að það væri ekki efnisleg athugasemd við frumvarpið. Ef ég má, með leyfi forseta:

„Sambandið gerir hins vegar mjög alvarlega athugasemd við að ekki skuli samhliða hafa verið lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um grunnskóla en fulltrúar sambandsins hafa ítrekað óskað eftir því við mennta- og menningarmálaráðherra að slíkt frumvarp verði lagt fram og m.a. unnið að útfærslu þess með sérfræðingum ráðuneytisins. Á fundum með ráðherra hefur komið fram sú afstaða að ráðuneytið muni ekki beita sér fyrir breytingum á grunnskólalögunum nema fyrir liggi sátt um málið milli sambandsins og Kennarasambands Íslands. Viðræður milli þessara aðila þar sem rætt hefur verið um mögulegar breytingar á lengd skólaársins og tímabundna styttingu vikulegs kennslutíma hafa ekki leitt til annarrar niðurstöðu en þeirrar að KÍ er ekki tilbúið til neinna breytinga. Þar sem viðræður við KÍ hafa ekki borið árangur og ráðherra hefur ekki reynst tilbúinn til að leggja fram frumvarp til að skapa sveitarfélögunum svigrúm til hagræðingar í grunnskólastarfi telur sambandið óhjákvæmilegt að óska eftir því að menntamálanefnd leggi fram sérstakt frumvarp um breytingar á lögum um grunnskóla.“

Mig langar að spyrja hv. formann menntamálanefndar hvort slík vinna sé í gangi í nefndinni eða standi til. Einnig er áhugavert að hæstv. ráðherra tengir beint við hagsmuni Kennarasambandsins að Félag íslenskra framhaldsskólakennara hafi samþykkt þessar breytingar og þess vegna komi þær hérna fram en menn treysta sér ekki til þess að fara í breytingar á grunnskólalögunum nema fyrir liggi fyrir fram samþykki Kennarasambands Íslands.

Í umsögn sambandsins, sem er dagsett 18. maí sl., er jafnframt minnt á minnisblað dagsett 6. nóvember 2009 til mennta- og menningarmálaráðherra þar sem farið var fram á ákveðnar breytingar á grunnskólalögum, tónlistarfræðslu og íþrótta- og æskulýðsmálum í einum 6–8 liðum, eins og til að mynda tímabundnum heimildum til frávika frá ákvæðum grunnskólalaga um vikulegan kennslutíma eftir bekkjardeildum og eins að meðaltali. Þetta getur skipt máli, ekki síst í minni skólum út af skólaakstri en líka í stærri skólum. Eins um fjölda skóladaga nemenda, kæmi til greina að fækka þeim úr 180 niður í 170? Allt eru þetta tímabundnar breytingar til að fresta því að taka inn allar breytingar á grunnskólalögunum sem áttu að koma í nýju lögunum. Eins um fjölda valgreina á unglingastigi og hlutfallslega skiptingu á milli námssviða og námsgreina og að lokum nám grunnskólanemenda á framhaldsskólastigi.

Ég sendi fyrirspurn til ráðherra sl. áramót þar sem í einhliða ákvörðun ráðuneytisins við fjárheimildir fyrir árið 2010 var ekki gert ráð fyrir því að nemendur grunnskóla gætu stundað nám í einstökum framhaldsskólaáföngum samhliða grunnskólanámi. Bæði bendir sambandið á það og ég spurði einmitt í áðurnefndri fyrirspurn hvort þetta væri hreinlega heimilt án þess að breyta 26. gr. grunnskólalaganna þar sem kveðið er skýrt á um að grunnskólanemendur eigi rétt á að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi. Þetta er eitt af því sem er ósvarað þrátt fyrir að allt sem kom fram hjá hv. þingmanni hafi verið eðlilegt og við séum öll tilbúin — eða ég býst við að við séum tilbúin — að samþykkja eðlilegt svigrúm til þess að geta uppfyllt ný og breytt lög miðað við talsvert breytt umhverfi í efnahagsmálum.

Einn þátt enn langar mig að nefna úr því að ég er að ræða grunnskólalögin, þó að hann sé kannski ekki alveg beintengdur þessum framhaldsskólalögum snýr hann þó að kostnaði ríkisins og sveitarfélaganna. Það er innra og ytra eftirlit í grunnskólum og eftirlit ríkisvaldsins eða ráðuneytisins. Mig minnir að fjallað sé um það í 38. og 39. gr. grunnskólalaga þar sem sveitarfélög skulu til að mynda taka upp svokallað ytra eftirlit. Ég hef velt því fyrir mér hvort ekki mætti samræma það eftirliti ríkisvaldsins eða ráðuneytisins og menn sinntu því eftir landshlutum, jafnvel yfir landið í heild, og gætu þar með sparað fjármuni þar sem ríkisvaldið kæmi þá að þessu ytra eftirliti sem sveitarfélögin þurfa að standa fyrir en væri ekki með séreftirlit. Síðan yrði gerð krafa um að sveitarfélögin gerðu þetta eftirlit að sínu eða ákvæðinu frestað um nokkur ár þangað til menn næðu betri stöðu.

Síðan má auðvitað benda á að eðlilegt er að breyta grunnskólalögunum í sömu veru og framhaldsskólalögunum, að æskilegt sé að hafa sambærilega heimild þess efnis að hægt sé að fela skólastjóra að veita forstöðu fleiri en einum grunnskóla.

Allt sem ég tala um núna hef ég talað um margsinnis áður. Það er oft þannig að ríkisvaldið gleymir því að til er annað jafnrétthátt stjórnsýslustig í landinu, þ.e. sveitarfélögin. Ríkisvaldið gleymir oft og við á löggjafarþinginu líka að taka tillit til aðstæðna og þeirra krafna sem sveitarfélögin gera. Ég fer fram á að þetta verði rætt í menntamálanefnd ef hv. formaður getur ekki upplýst þingheim um þetta hér.