Stjórnlagaþing

Föstudaginn 11. júní 2010, kl. 17:46:53 (0)


138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[17:46]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það mál sem nú er á dagskránni. Ég vil taka undir með hv. þm. Róberti Marshall, formanni allsherjarnefndar, hvað varðar lýsingu hans á þeirri vinnu sem fram hefur farið í allsherjarnefnd að undanförnu við að leita þverpólitískra lausna á þeim álitamálum sem stóðu út af og sannarlega voru skiptar skoðanir um og eru kannski enn þann dag í dag skiptar skoðanir um. En ég segi einfaldlega: Með viljann að vopni er allt hægt.

Þó að hér hafi verið tekist á um grundvallaratriði í þessu máli og deilt hart um suma þætti lögðust menn á eitt í allsherjarnefnd við að finna eða koma til móts við þau sjónarmið sem uppi voru. Stóru álitamálin voru, eins og hv. þm. Róbert Marshall gat um, m.a. um beina aðkomu þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu að þeim tillögum sem kæmu fram um nýja stjórnarskrá eða breytingar á gildandi stjórnarskrá. Eins og hann gat um eru sannarlega nokkrar leiðir færar í því en með því að fela stjórnlagaþinginu sjálfu að koma með tillögur um það með hvaða hætti fyrirkomulagi þjóðaratkvæðagreiðslu yrði háttað og tímasetningu hennar er stjórnlagaþinginu í sjálfu sér falið meira umboð hvað þetta snertir og sú tillaga yrði þá sett í samhengi við vinnu stjórnlagaþingsins að öðru leyti.

Sömuleiðis held ég að það sé góð breyting og viðbót sem hér er lögð til að efna til þjóðfundar til að gefa þeim sem ekki eru valdir eða kjörnir til setu á stjórnlagaþingi, eða a.m.k. úrtaki úr þjóðskránni, kost á að koma að vinnu við að móta hugmyndir og tillögur um breytingar á stjórnarskrá og enn fremur að kjósa hér á Alþingi sérstaka nefnd til að undirbúa þjóðfund og taka saman allt það viðamikla efni sem er til um breytingar á stjórnarskránni eða hugmyndir og tillögur sem komið hafa fram þar að lútandi á undanförnum árum og vinna úr niðurstöðum þjóðfundar. Þar með held ég að þessi vinna verði markvissari og straumlínulagaðri, hnitmiðaðri að öllu leyti, og það séu líkur á því að það sem út úr henni kemur með þátttöku svona margra, eins og núna er í raun og veru verið að leggja til, hljóti að vera góð afurð fyrir þjóðina.

Ég vil ítreka fyrir mitt leyti þakklæti til samnefndarmanna í allsherjarnefnd fyrir mjög gott samstarf og ég vil segja góðan vilja til að ná saman um þetta mikla mál. Ég þakka formanninum fyrir stjórn hans á störfum nefndarinnar og framlag hans til þess sérstaklega að leiða saman ólík sjónarmið og viðhorf í því efni til að úr þeim mætti verða til ein og góð tillaga sem nefndin stendur að. Að mestu leyti er nefndin einhuga um breytingartillögur og að einum þætti breytingartillagnanna stendur mikill meiri hluti nefndarinnar. Ég vil ítreka þakkir fyrir þetta og vonast til að Alþingi beri gæfu til að ljúka afgreiðslu þessa máls á grundvelli þeirra tillagna sem nú liggja fyrir.