Stjórnlagaþing

Föstudaginn 11. júní 2010, kl. 17:50:34 (0)


138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[17:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Ólöf Nordal) (S):

Frú forseti. Það hefur verið grundvallarskoðun Sjálfstæðisflokksins þegar litið er til málefna stjórnarskrár að eins mikil samstaða náist um breytingar á henni og unnt sé. Við höfum talað fyrir því, sjálfstæðismenn, allt frá síðasta vetri þegar breytingar voru ráðgerðar á stjórnarskrá að það væri ekki skynsamlegt fyrir Alþingi að fara fram með slíkar breytingar í ágreiningi. Það frumvarp sem hér hefur verið til umræðu og var til umræðu fyrir nokkrum dögum síðan, um stjórnlagaþing, er frumvarp ríkisstjórnarinnar og var hvorki lagt fram með stuðningi Sjálfstæðisflokksins né hafði sá flokkur sérstaka aðkomu að samningu þess frumvarps. Við höfum haldið þeim málflutningi alveg frá upphafi, frá því að það frumvarp var lagt fram, að það væri ekki skynsamlegt að setja á fót sérstakt stjórnlagaþing og það væri ekki skynsamlegt að setja á fót apparat hliðstætt Alþingi til að taka við grundvallarhlutverki Alþingis, þ.e. að setja stjórnlög.

Umræðan undanfarna daga hefur síðan þróast með þeim hætti að það var vilji af hálfu fulltrúa í allsherjarnefnd að gera breytingar á þessu frumvarpi um stjórnlagaþing til að mæta þeim sjónarmiðum sem hafa birst í nefndinni, bæði af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og fulltrúa annarra flokka, til að freista þess að ná betri samstöðu um þetta mikilvæga mál. Mér finnst það skipta verulegu máli og á þeim grundvelli höfum við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd lagt okkar af mörkum af fullum heilindum til að bæta þetta mál svo þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á stjórnarskránni verði eins vandaðar og hugsast getur.

Nú hafa verið lagðar fram breytingartillögur, sem settar eru fram af allsherjarnefnd annars vegar og meiri hluta allsherjarnefndar hins vegar með aðkomu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem eru til þess fallnar að gera fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni vandaðri og allan undirbúning málsins betri en að okkar mati var með fyrri tillögum. Við sjálfstæðismenn erum áfram andsnúin skipun stjórnlagaþings og munum ekki styðja að slíkt þing verði sett á, enda er það grundvallarskoðun okkar að slíkt sé óþarfi þar sem við sitjum nú þegar hér á stjórnlagaþingi og því hlutverki megi Alþingi alls ekki vísa frá sér.

Í minnihlutaáliti allsherjarnefndar af hálfu okkar sjálfstæðismanna var gerð sú tillaga að skipuð yrði sérstök nefnd til að endurskoða stjórnarskrána. Lagt var til að hún yrði skipuð fulltrúum utan þings til að mæta þeim sjónarmiðum að það hafi gengið hægt af hálfu Alþingis að koma breytingum á stjórnarskrá í gegn. Þessum sjónarmiðum hefur nú verið mætt af hálfu meiri hluta allsherjarnefndar í þeim breytingartillögum sem nú liggja fyrir. Eins og hv. þm. Róbert Marshall nefndi áðan erum við í raun og veru í miðri umræðu um þetta mál, málið er að taka breytingum undir 2. umr. Við eigum eftir að fjalla um málið aftur í allsherjarnefnd milli umræðna og nefndarálit munu þar af leiðandi ekki koma fram fyrr en eftir þá fundi.

Ég tel afar mikilvægt að samstaða hafi náðst um að skipa nefnd til að undirbúa breytingar á stjórnarskránni. Ég tel mjög mikilvægt að hægt hafi verið að ná samstöðu um að setja þann búning í fastari farveg. Það tryggir auðvitað að menn hafi betri yfirsýn yfir þær hugmyndir og þá vinnu sem þegar hefur farið fram af hálfu fyrri stjórnarskrárnefnda um það hvernig breyta skuli stjórnarskránni. Jafnframt gerir það alla vinnu í framhaldinu mun vandaðri en ella hefði orðið.

Einnig kom fram sú tillaga í fyrri hluta 2. umr., ef svo má segja, að til þess að mæta þeim vilja sem birst hafði um að leita betra samráðs við almenning um breytingar á stjórnarskrá, yrði settur á fót sérstakur þjóðfundur til að fjalla um tillögur stjórnarskrárnefndar eða þeirrar nefndar sem fengi það verkefni að endurskoða stjórnarskrána. Þeirri hugmynd var að vissu leyti teflt fram á móti hugmynd um stjórnlagaþing, þ.e. að í stað þess að kjósa heilt stjórnlagaþing yrði settur á sérstakur fundur þar sem Íslendingar gætu komið og lýst sjónarmiðum sínum til þeirra hugmynda sem fram væru þá komnar um breytingar á stjórnarskránni.

Þær tvær breytingartillögur sem hér liggja fyrir fela það í sér í fyrsta lagi að þegar kemur að því að hefja breytingaferli á stjórnarskránni verði skipuð nefnd til að undirbúa þær breytingar, afla þeirra gagna sem nauðsynleg eru og færa það mál í skýran farveg og svo í kjölfarið að halda þjóðfund til að fjalla um efni stjórnarskrárinnar. Í framhaldi af því verði síðan haldið stjórnlagaþing, ef tillögur meiri hlutans ná fram að ganga. Reyndar hefur starfstími þess stjórnlagaþings verið styttur en engu að síður er gert ráð fyrir að stjórnlagaþing skuli haldið.

Eins og ég sagði strax í upphafi munum við sjálfstæðismenn áfram halda uppi stífri gagnrýni á það fyrirkomulag. Mín skoðun er sú að með þjóðfundum sem mönnum þótti takast nokkuð vel síðasta sumar þegar slíkir fundir voru haldnir víða um land, sé verið að mæta þeim sjónarmiðum að aðkoma almennings eða skoðanir fólks komi með skýrum hætti fram. Hins vegar er það skýr vilji af hálfu meiri hluta allsherjarnefndar að nauðsynlegt sé að halda sig við sérstakt stjórnlagaþing. Þegar stjórnlagaþingið hefur lokið störfum er augljóst að Alþingi mun taka málið á dagskrá og þær tillögur sem þar liggja fyrir og það verður Alþingis að fjalla um tillögur um breytingar á stjórnarskránni. Það er kannski það grundvallaratriði sem hefur verið meginstefið í málflutningi okkar sjálfstæðismanna þegar litið er til þessa máls.

Í nefndinni undanfarna daga var töluvert rætt um það hvernig tryggja ætti síðan að Íslendingar gætu greitt atkvæði um þær breytingar á stjórnarskránni sem þá lægju fyrir. En það er nú bara svo að 79. gr. stjórnarskrár okkar gerir ráð fyrir því að stjórnarskránni sé breytt með þeim hætti að kosið sé á milli. Hún gerir jafnframt ráð fyrir því að stjórnarskráin sé raunverulega borin upp í heilu lagi og á síðara þingi hafi Alþingi einungis tvo kosti, að samþykkja stjórnarskipunarlögin eða hafna þeim. Hins vegar þegar kemur að því að takast á við þær breytingar og Alþingi fær málið í seinna sinn og mikill ágreiningur hefur orðið í þjóðfélaginu í kosningabaráttu um einstaka þætti í þeirri stjórnarskrá, er hugsanlegt, og það var nokkuð rætt í allsherjarnefnd, að stjórnarskráin yrði samþykkt eins og hún lægi fyrir og nýtt ferli notað til þess að breyta stjórnarskránni í kjölfarið.

Allir þessir þættir krefjast töluverðrar íhugunar. Við höfum, sjálfstæðismenn í allsherjarnefnd, lagt áherslu á það allan tímann, allt frá því að þetta mál kom fyrst á dagskrá í vetur, að það tæki töluverðan tíma, og ætti að taka tíma, að komast að niðurstöðu um hvernig fara eigi í málið þegar við erum að boða breytingar á því hvernig breyta skuli stjórnarskránni.

Ég verð að segja fyrir mig að málið hefur þróast mjög mikið og breyst á afar stuttum tíma. Í allan vetur meira og minna fjölluðum við um stjórnlagaþingið eins og það mál var þá lagt fram af hálfu ríkisstjórnarflokkanna. Það voru einhverjar þreifingar um ákveðnar breytingar sem hugsanlega gætu orðið, en raunverulegar breytingar á málinu hafa orðið á síðustu tveimur, þremur dögum og auðvitað á grundvelli umræðunnar sem hafði farið fram í nefndinni. En engu að síður höfum við verið að breyta málinu umtalsvert núna á undanförnum dögum.

Ég vil leggja áherslu á að með því að kynna til sögunnar sérstaka nefnd til að undirbúa málið er verið að breyta því umtalsvert, og það er til mikilla bóta að okkar mati. Hins vegar er það umhugsunarefni þegar svo miklar breytingar verða á svo skömmum tíma, hvort ekki sé ástæða fyrir nefndina nú þegar málið gengur aftur til hennar að gefa sér tíma til að íhuga málið nánar. Ég skynja ríkan vilja af hálfu ríkisstjórnarflokkanna til að afgreiða þetta mál fyrir sumarleyfi þingmanna, en ég vil samt sem áður halda þeim sjónarmiðum á lofti að það sé skynsamlegt fyrir fulltrúa í allsherjarnefnd og fyrir þingið allt að átta sig á þeim breytingum sem hér er verið að leggja til og íhuga hvort menn eigi að ganga skrefinu lengra og hætta hreinlega við að halda stjórnlagaþing og láta frekar þær tillögur sem eru sprottnar núna úr allsherjarnefnd ganga fram eins og þær birtast hér í breytingartillögum.

Nú eru einungis þrír dagar eftir af þinginu en við höfum septemberþingið upp á að hlaupa til að klára mál. Það er engin brýn ástæða fyrir því að fara í stjórnarskrárbreytingar þegar svo skammt er liðið af kjörtímabilinu, það er ekkert sem hastar því að við þurfum akkúrat núna að fara að samþykkja þetta mál. Þetta finnst mér mikilvægt að komi fram og mér finnst líka mikilvægt að það komi fram að umræður um stjórnarskrármál eru þess eðlis að það er ekkert óeðlilegt að menn þurfi í fyrsta lagi töluverðan tíma til að íhuga þær, menn þurfi að kynna sér málið mjög vel og vanda rækilega til verka. Ég á ekki von á að við förum fram á slíkar breytingar á stjórnarskránni eins og hér eru boðaðar um langan tíma. Við höfum verið að breyta einstökum þáttum í stjórnarskrá, afmörkuðum þáttum, en hér erum við að tala um grundvallarbreytingar á stjórnarskránni, endurskoðun hennar, og það er ekkert óeðlilegt að menn ætli sér töluverðan tíma til að meta það hvernig fara skuli í þær.

Við höfum ekki verið að takast á um það í allsherjarnefnd að breyta þurfi stjórnarskránni, við höfum ekki verið að ræða það. Við höfum fyrst og fremst verið að ræða um það hvernig eigi að gera það og við höfum reynt, fulltrúar allra flokka í nefndinni, að ná saman um skynsamlegar leiðir til að breyta. En vegna þess að við erum komin á þetta stig núna, komin svona nálægt lokum málsins, verð ég aftur að leggja áherslu á það að af hálfu meiri hluta allsherjarnefndar væri skynsamlegt að gefa okkur öllum færi á að fjalla um þetta.

Þær breytingar sem hér eru kynntar hafa t.d. ekki verið ræddar mikið á vettvangi þingsins því að það er svo skammt síðan þær urðu til. Ég vil því enn og aftur hvetja til þess að þegar málið fer aftur inn í allsherjarnefnd, sem ég á von á að verði á næstunni, gefi menn sér tíma til íhugunar og velti fyrir sér hvort við getum létt eitthvað á þessu ferli og lagt ríka áherslu á þá nefnd og það samráð sem hér er kynnt við almenning um breytingu á stjórnarskránni. Fyrir utan það sem við höfum ekki rætt sérstaklega um fram til þessa, þann kostnað eða fjármuni sem spöruðust við það. Ég er á þeirri skoðun þegar stjórnarskráin er annars vegar að við eigum auðvitað að kosta ýmsu til til að vandað sé til verka en við þurfum kannski ekki að fara út í óþarfakostnað við breytingar á henni ef hægt er að finna leiðir sem eru skilvirkari og heppilegri til að gera það.

Ég á von á því, eins og ég sagði strax í upphafi, að við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd stöndum að þessum breytingartillögum ásamt fulltrúum hinna flokkanna í allsherjarnefnd. Sú breyting sem snýr að nefndinni sjálfri er studd af öllum fulltrúum fyrir utan fulltrúa Framsóknarflokksins og við munum auðvitað fylgja þessum tillögum eftir en við höldum til streitu okkar fyrirvara og skoðanamun og ágreiningi þegar kemur að stjórnlagaþinginu sjálfu.