Greiðsluaðlögun einstaklinga

Fimmtudaginn 24. júní 2010, kl. 10:41:39 (0)


138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

greiðsluaðlögun einstaklinga.

670. mál
[10:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég ætla að freista þess í þágu hagræðingar og tímasparnaðar að tala um öll fjögur frumvörpin í einum pakka, í einum rykk, enda er þetta allt samhangandi og hefur hlotið heitið „heimilispakki“ eftir því sem liðið hefur á vinnuna.

Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir samstarfið í nefndinni. Það hefur verið gott og við höfum farið í þetta af mikilli eindrægni. Mér finnst nefndarmenn allir hafa unnið af miklum heilindum að því að reyna að finna bestu lausnirnar á mjög viðamiklum og oft erfiðum álitamálum í þessu öllu saman, enda er lánamarkaðurinn ekki auðvelt svið að fara inn á og ekki auðvelt að setja lög sem oft eru á mörkum þess að taka eignarrétt frá fólki, en kröfuhafar hafa náttúrlega eignarrétt á kröfum sínum, og oft erum við að tipla á línunni. Ég held og vona, sérstaklega eftir að formaður réttarfarsnefndar hefur lesið þessi lagafrumvörp yfir einu sinni enn, að við séum réttu megin við línuna og þetta standi allt saman.

Um hvað er að ræða? Hér er um að ræða fjögur frumvörp, um greiðsluaðlögun einstaklinga, breytingar á lögum um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, umboðsmann skuldara og tvær eignir.

Fyrst um greiðsluaðlögun einstaklinga, en það er lagarammi utan um frjálsa samninga. Þetta er nýbreytni á Íslandi. Ég held að þetta sé stórt skref burt séð frá hruninu, þetta er líka réttarbót fyrir skuldara almennt og, eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir rakti, hafa einstaklingar hér á þingi og annars staðar barist fyrir því að fá svona löggjöf á Íslandi. Nú er hún um það bil komin og á náttúrlega að standa um ókomna framtíð. Þetta er ekki bara úrræði vegna þess að hér hrundi allt, þótt kveikjan að því að farið er í þetta verkefni núna sé líklega fjármálahrunið, þá er þetta auðvitað lagabálkur sem á að standa um alla framtíð og getur síðan mögulega og mjög líklega haft jákvæð áhrif á lánamarkaðinn, vegna þess að þetta hefur vantað. Það hefur vantað einhverja réttarstöðu fyrir skuldara. Það mun vonandi leiða til þess að lánveitendur hagi sér betur í framtíðinni.

Í þessari greiðsluaðlögun einstaklinga felst auðvitað bæði skjól fyrir skuldara og uppgjör fyrir þá skuldara sem eru í verulegum vanda. Skjólið felst í því að skuldari greiðir af fasteignaveðkröfum tilskilda upphæð sem miðast við sanngjarna húsaleigu á tímabili greiðsluaðlögunarinnar og síðan er skoðað í lokin hvort ekki sé rétt að afskrifa fasteignaveðkröfur niður að 100% af markaðsvirði. Uppgjörið felst í því að á greiðsluaðlögunartímabilinu borgar skuldarinn bara tiltekið hlutfall af samningskröfum og þær falla síðan niður í lokin. Eftir greiðsluaðlögunartímabil eiga því einstaklingar í verulegum vanda að standa eftir með miklu betri fjárhag og forsendur til þess að hefja nýtt líf í fjárhagslegu tilliti og þá er markmiðinu auðvitað náð.

Ég vil segja fleira um greiðsluaðlögun einstaklinga. Mér finnst afskaplega mikilvægt að nefndin hafi tekið þá afstöðu að hafa einyrkja þar inni, en í upphaflegum drögum var gert ráð fyrir takmörkunum að því leyti, þannig að einungis lítill hluti skulda mátti stafa af atvinnurekstri þótt skuldirnar væru á kennitölu viðkomandi. Mér finnst afskaplega mikilvægt að nefndin ákvað að taka burt þessa takmörkun. Nú er bara um að ræða skuldir á kennitölu einstaklinga, þótt uppruni þeirra sé jafnvel í atvinnurekstri. Einyrkjar komast nú þarna inn og það er t.d. gríðarlega mikilvægt fyrir bændur sem margir hafa rekstur og heimilisrekstur undir sinni eigin kennitölu. Þeir geta þá farið í þessa greiðsluaðlögun.

Síðan finnst mér hvatinn fyrir kröfuhafa afskaplega mikilvægur og hann er gerður skýrari í síðari yfirferð á milli 2. og 3. umr. nefndarinnar. Ég hef þá trú að hvatinn fyrir kröfuhafa verði til þess að þeir fara í frjálsa samninga frekar en dómstólaleiðina. Það var náttúrlega eitt stærsta viðfangsefni nefndarinnar að hafa hvatann þannig.

Ýmsar breytingar sem við gerðum á löggjöfinni um greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna lúta að því sama, að hafa hvatann þannig að kröfuhafar séu reiðubúnir að semja frekar í frjálsum samningum en að fara dómstólaleiðina.

Þar er líka mikilvæg breyting sem er greiðsluaðlögun einstaklinga, við opnum fyrir að fólk sem er tímabundið í námi eða starfi erlendis geti nýtt sér þessi úrræði. Það er mjög mikilvægt til að reyna að fá þá Íslendinga sem fluttu af landi brott í kjölfar hrunsins aftur heim. Að þetta úrræði bjóðist þeim er mjög mikilvægt skref í þá átt.

Síðan er lagafrumvarpið um umboðsmann skuldara. Ég held að við setjum mikið tímamótaembætti þar á stofn. Það yrði í fyrsta skipti á Íslandi sem skuldarar, lántakendur, munu eiga sér einhvern málsvara, þangað geta lántakendur farið og leitað sér réttarbótar. Það er beinlínis kveðið á um það í þeim lögum og mjög mikilvægt að umboðsmaður skuldara skuli sinna hagsmunum lántakenda.

Það lagafrumvarp sem vonandi mun leysa vanda afmarkaðs hóps hvað skilvirkast af þessum öllum er frumvarpið um tvær eignir. Nefndin metur það svo að kannski 1.100–1.500 manns á Íslandi séu í vandræðum með tvær eignir, hafi keypt eign í aðdraganda hrunsins og ekki getað selt þá gömlu og sitji uppi með afborganir af tveimur eignum. Frumvarpið um tvær eignir var ansi flókið vegna þess að þar tipluðum við á mörkum þess að hlunnfara eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, en ég held að við gerum það ekki með þeim breytingum sem m.a. formaður réttarfarsnefndar lagði til í meðförum nefndarinnar milli 2. og 3. umr. Ég held að þessi lög muni nú virka þannig að spursmál varðandi eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar muni ekki koma til álita. Þetta snýst sem sagt um það að auðvitað er ekkert hlaupið að því að færa veð á milli eigna en frumvarpið gerir ráð fyrir að skuldari geti losað sig við aðra eignina með 100% veðsetningu og haldið eftir hinni.

Við gerðum líka þær mikilvægu breytingar á því frumvarpi að við ákváðum að hafa rýmri tímamörk. Við gerðum ráð fyrir að frumvarpið eða lögin ættu bara við þá sem keyptu íbúð eftir 1. janúar 2007 en ákváðum að hafa það 1. janúar 2006. Það var gert vegna ábendinga sem okkur bárust frá aðilum utan höfuðborgarsvæðisins, en á það var bent og við sannfærðumst um það með rannsóknum, að fasteignamarkaðurinn fraus töluvert fyrr á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og fólk lenti þar af leiðandi töluvert fyrr í þessum vandræðum úti á landi. Þetta er því gert rýmra til að mæta þeim sjónarmiðum.

Svo er líka mikilvægt að við gerum ráð fyrir því í lögunum að fólk þurfi að leita fasteignamats hjá tveimur löggiltum fasteignasölum. Það getur líka verið vandamál úti á landi þar sem fólk þarf jafnvel að kalla til fasteignasala um langan veg til þess að gera þetta mat. Við leggjum til þá breytingu að eftir að þetta úrræði eða eignaráðstöfun er farin í gegn, muni umboðsmaður skuldara greiða kostnaðinn af matinu. Það getur verið umtalsverð upphæð.

Ég held að eftir alla þessa yfirferð höfum við býsna góð lagafrumvörp sem virka vonandi. Það er mjög mikilvægt að þau virki. Það er mjög mikilvægt fyrir þau heimili sem eru í verulegum vanda að þessi úrræði virki öll og að við sem stöndum að þeim tölum þau upp, eins og við höfum verið að gera, en séum líka meðvituð um það að reynslan muni örugglega leiða ýmislegt í ljós. Það liggur einfaldlega í eðli þessara mála. Reynsla annarra landa segir okkur líka að nú þegar þessi framkvæmd hefst muni hefjast samræða við reynsluna, ef svo má að orði komast, og reynslan mun örugglega færa okkur ýmis úrlausnarefni sem við þurfum að taka á. En ég vona að þau verði ekki allt of mörg.

Síðari hluta ræðunnar vil ég nota til að tala um það sem vantar á lánamarkaðinn, það sem þarf líka að gera. Það sem við erum að gera hér í félags- og tryggingamálanefnd er að hanna spítala. Við erum vonandi að búa til góðan spítala sem mun gagnast þeim sem eru sjúkir í fjárhagslegu tilliti. Þarna munu fara fram uppskurðir og lyfjameðferðir og hitt og þetta og vonandi kemur fólk út úr þessari stofnun heilt heilsu og getur byrjað nýtt líf. En eins og í tilviki heilbrigðismála nægir ekki að byggja spítalann, það þarf líka að huga að samfélaginu öllu. Samfélagið þarf að vera þannig að sem fæstir lendi á spítala. Það verður að huga að forvörnum. Það þarf að predika um hollt mataræði og hreyfingu. Það þarf að stuðla að því að fólk taki vítamín. Það þarf að bólusetja. Samfélagið þarf sem sagt að vera heilbrigt. Það er auðvitað næsta viðfangsefni og við ættum að vera komin miklu lengra á leið með það að huga að heildarsamfélaginu í fjárhagslegu tilliti og þá erum við að tala um þær almennu aðgerðir sem þarf að fara í.

Það er merkilega furðulegt hvað það gengur illa að fá umræðuna um almennar aðgerðir á það stig í þessum sal að hún skili einhverju. Allt of oft lenda umræður um almennar aðgerðir í einhvers konar skeytastíl þar sem rökum um nauðsyn almennra aðgerða, eins og skuldaleiðréttinga og þess háttar, er mætt með einhvers konar akademískum rökum um að ekkert slíkt sé hægt. Á meðan hitt væri miklu betra að löngu fyrr hefðu menn einfaldlega sagt: Já, það þarf að fara í almennar aðgerðir. Já, við þurfum að skoða þær. Og að þetta ferli hefði hafist fyrir tveimur árum, einu ári, eða einu og hálfu ári síðan og menn hefðu síðan komist að einhverri niðurstöðu. En enn erum við föst í þessum skotgröfum þar sem góðum og gildum röksemdum, sem alltaf eru að verða betri og betri, um nauðsyn almennra aðgerða, eins og t.d. skuldaleiðréttinga á almennum lánamarkaði, er mætt með sífellt langsóttari rökum um að ekkert slíkt sé hægt. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að alltaf sé hægt að rökstyðja að ekkert sé hægt, að hægt sé að fara í gegnum lífið með þeim rökum og gera ekki neitt. Það heyrðist t.d. ágætt sjónarmið frá kvikmyndaframleiðanda um daginn sem sagði að ef hann hefði alltaf hlustað á þau rök sem voru býsna sannfærandi við upphaf gerðar hverrar kvikmyndar hefði hann aldrei gert neina kvikmynd. Við þurfum að koma okkur upp úr þessu. Við þurfum að byrja að skoða kerfisbundið hvað þarf að gera. Við þurfum að ná niður vaxtastigi. Við þurfum að fara í leiðréttingar. Hæstaréttardómurinn um gengistryggð lán felur í sér leiðréttingar á lánamarkaði og við verðum að leyfa því að gerast.

Við megum ekki alltaf vera í því að sporna við þessu með langsóttum rökum um að eitthvað sé ekki hægt. Það þarf að ná niður verðlagi. Það þarf að ná upp atvinnustigi. Það þarf að koma neyslunni af stað. Hæstaréttardómurinn getur mögulega gert það ef við leyfum því að gerast og hugsum í lausnum. Það er mjög mikilvægt sé að við komum okkur upp úr þessu. Ég held að næsta skref sé að reyna að byrja að hugsa þannig að víst sé hægt að létta byrðum af almenningi á Íslandi með almennum aðgerðum. Menn þurfa ekki alltaf að stilla sér upp, eins og margir háttsettir ráðherrar í ríkisstjórninni gera, sem einhvers konar talsmenn raunsæis í þeim efnum, einhvers konar bremsur á að allt slíkt verði skoðað. Upp úr þeim hjólförum verðum við að ná okkur. Vegna þess að enginn vill setja einhverjar gríðarlegar byrðar á ríkissjóð í þessum efnum, en menn hafa verið mjög iðnir við að benda á lausnir sem fela ekki í sér slíkar byrðar.

Það er bráðnauðsynlegt að vinda sér næst í þetta. Það þýðir ekki að hanna bara spítalann, en það held ég að við séum að gera hér. Þetta er hátæknisjúkrahús. (Forseti hringir.) Ég fagna því og vona að þetta virki vel.