138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að lýsa þessu eins og það blasir við mér. Ég held að það sé tvíþætt. Það er umræðan um Þjóðhagsstofnun annars vegar og ákvörðunina um að leggja hana niður á sínum tíma sem ég tel að hafi verið geðþóttaákvörðun tekin í hálfgerðri geðvonsku. Þingmaðurinn hristir hausinn og er bersýnilega ósammála mér. Gott og vel, við getum verið ósammála um það. Þetta held ég að liti dálítið þá umræðu sem fer fram um málið.

Hins vegar er eftirspurn eftir því hjá mörgum þingmönnum, sem maður hefur orðið var við, að á vettvangi á þingsins eða af hálfu Alþingis sé hugsanlega til staðar stofnun með þá fagþekkingu sem er nauðsynleg til að auðvelda alþingismönnum eða a.m.k. veita þeim nægjanlegar, góðar, hlutlausar upplýsingar til að taka afstöðu og byggja málflutning og málatilbúnað sinn á. Ég held að það sé eftirspurn eftir því. Reyndar hefur verið flutt tillaga af einum þingmanni Framsóknarflokksins um lagastofnun Alþingis. Það er líka álitamál hvort við þurfum á því að halda að hafa aðgang að sérfræðingum á lagasviði í meiri mæli en við höfum nú. Að vísu eru allmargir lögfræðingar starfandi á vegum Alþingis og eru okkur til ráðgjafar. Það er álitamál en við höfum ekki með sama hætti aðgang að sérfræðingum á sviði efnahagsmála, ríkisfjármála, peningamála o.s.frv. og kannski þurfum við að styrkja það. Það er hinn þáttur málsins.

Fyrri þátturinn varðandi aðferðina og ákvörðunina um niðurlagninguna er saga sem er búin. Við getum deilt um hvernig það bar að en við megum ekki einblína á það, hvorki við sem vorum gagnrýnin á þá ákvörðun né þeir sem studdu hana á sínum tíma. Nú erum við hér og talið er af hálfu þingmannanefndarinnar að þennan þátt í starfsemi Alþingis þurfi að styrkja og efla. Ég fagna því.