138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:51]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir þær þakkir sem menn hafa flutt þingmannanefndinni. Þar er á ferðinni alveg gríðarlega mikil vinna og mikið og fórnfúst starf sem menn hafa lagt á sig í þágu okkar allra og í raun ekki hægt að ofþakka það.

Mér þykir líka merkilegt og jafnframt gleðilegt að nefndin skyldi þrátt fyrir allt ná samstöðu í öllum meginmálum sem hún fjallaði um. Vissulega standa kannski erfiðustu persónulegu málin út af sem snúa að því hvort, hvernig og hvort ekki eigi að ákæra ráðherra sem voru í öðru ráðuneyti Geirs Haardes en ég mun ekki koma frekar inn á það mál hér. Ég skil mjög vel að menn eigi í meiri erfiðleikum með það og kannski er það ekki einu sinni á færi þingmannanefndar eins og þessarar að ná heildarsamstöðu í slíku máli.

Ég vil meina að sú samstaða sem náðist í nefndinni sé í rauninni vitnisburður um að þrátt fyrir allt sem við höfum sagt hér og menn hafa talað um í ræðustól fram undir þetta sé styrkur þingsins gríðarlega mikill. Þingið getur í afar erfiðu máli eins og þessu náð heildarsamstöðu sem gengur þvert á allar flokkslínur. Það skiptir gríðarlega miklu.

Ég mun reyna seinna í ræðunni að koma inn á þingsályktunartillögu nefndarinnar sérstaklega en vinnist ekki tími til þess vil ég lýsa því yfir í upphafi að ég styð þessa stóru, sameiginlegu þingsályktunartillögu nefndarinnar heils hugar. Ég tel að þar séu mörg mjög brýn úrlausnarefni á ferðinni og kem inn á það eftir því sem líður á ræðu mína.

Ég ætla að reyna að fara nokkuð skipulega í gegnum skýrslu þingmannanefndarinnar í ræðu minni og byrja þá á Alþingi. Nefndin ræðir um mikilvægi þess að setja siðareglur fyrir Alþingi og ég er algjörlega sammála því. Í þeirri vinnu þarf líka að setja einhvers konar viðurlög eða skilmerki sem geta í rauninni gert siðareglurnar að því tæki sem þær geta verið. Ef þær eru ekki til annars en að slá á putta eða sussa á eins og óþekka krakka þá munu þær ekki hafa þann slagkraft eða það bit sem þarf.

Ég held að umræða nefndarinnar um að við þurfum að taka á þingsköpum og breyta þeim sé líka mjög mikilvæg. Sem þingmenn eigum við ekki að þurfa að hlusta á uppistand hér tvisvar, þrisvar í viku, það er algjör óþarfi. Það á heima á skemmtistöðum úti í bæ. Það er óþarfi að þingið setji sig í rauninni að mörgu leyti niður við það. Þar undanskil ég engan, hvorki ráðherra í núverandi ríkisstjórn, fyrrverandi ríkisstjórn, þingmenn sem nú sitja né aðra. Við eigum ekki að standa í því. Þar með er ég ekki að segja að ræður eða fundarhöld á Alþingi þurfi að vera leiðinleg, langt í frá. Menn geta hæglega komist hnyttilega að orði og talað fallegt mál án þess að vera í stöðugri brandara- og vinsældakeppni í ræðustól Alþingis.

Eins og nefndin segir þarf að skýra rétt þingmanna til upplýsinga. En það þarf líka að skýra rétt þingmanna til að fá mál sín afgreidd á þingi. Það þarf að semja um það skýrar reglur, þ.e. að þingmenn geti ekki nánast treyst því, eins og nú er, að leggi óbreyttir þingmenn fram þingsályktunartillögur verði þeim ýtt til hliðar. Það þarf að vera ferli í gangi sem tryggir að leggi þingmaður fram þingsályktunartillögu eða lagabreytingafrumvarp á Alþingi fái það formlega afgreiðslu, aðra en þá að það sé bara lagt fram. Þetta er afar mikilvægt vegna þess að við getum ekki gefið okkur það, ef við ætlum að að styrkja þingið, að bestu hugmyndirnar komi alltaf frá framkvæmdarvaldinu eða ríkisstjórnarflokkunum. Það er ekki þannig. Við verðum að vera nægilega opin í hugsun til að sjá að þær geti komi víða annars staðar frá.

Þingmannanefndin kemur inn á það hvernig þingið hefur samþykkt EES-tilskipanir meira og minna athugasemdalaust og án nokkurra breytinga. Ég er algjörlega sammála því að það þarf að skoða og fara mjög ítarlega ofan í og hreinlega meta það hvaða hagsmunir felast í því fyrir Íslendinga að nýta undanþágur og frávik sem eru þó heimil þegar tilskipanir annars staðar úr Evrópu eru innleiddar. Það er mjög mikilvægt að við tökum ekki bara allt upp hrátt sem þaðan kemur og við eigum svo sannarlega að þýða það sem kemur frá þeim aðilum.

Ég er sammála ályktun þingmannanefndarinnar um að það þurfi að koma upp einhvers konar greiningarstofnun eins og Þjóðhagsstofnun var. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Það getur verið þinginu mikill styrkur að hafa beinan aðgang að slíkri stofnun og hún á að vera sjálfstæð. Skýrsla þingmannanefndarinnar á í rauninni að vera þinginu leiðarljós til næstu missira og ára í því hvernig við getum gert starf Alþingis og löggjafarvaldsins skilvirkara og betra.

Í skýrslu rannsóknarnefndar og skýrslu þingmannanefndar er mikið rætt um fjármálafyrirtæki og er heill kafli, ansi langur, lagður undir það í skýrslu þingmannanefndarinnar. Í stuttu máli sagt tek ég undir megnið af heildarniðurstöðunum sem þingmannanefndin kemst að, sérstaklega hvað varðar að endurskoða löggjöf í kringum fyrirtækin og að í þeirri löggjöf og í því sem frá þinginu kemur um þau efni, þurfi að vera einhver framtíðarsýn. Við þurfum að leyfa okkur að hafa sýn á það hvar við viljum sjá íslenskt fjármálakerfi, íslenskt fjármálaumhverfi, að við hugsum ekki bara eins og var því miður gert í aðdraganda hrunsins, „meira er betra“. Það virkaði klárlega ekki. Við eigum að vara okkur á slíkum hugsunarhætti.

Í því sambandi þarf þingið að setja mjög skýr skilmerki í löggjöfina um með hvaða hætti starfsmenn fjármálafyrirtækja, stjórnendur og eigendur geta til að mynda gengið þar í sjóði eða skammtað sér lán. Slíkt á náttúrlega ekki að líðast. Við eigum að hugsa það alvarlega hvort yfirleitt sé eðlilegt í fjármálafyrirtæki að árangurstengja laun starfsmanna sem þar vinna, því að hvað er árangur í fjármálafyrirtæki? Er það að hluthafarnir fái sem mestan arð? Er það að samfélagið fái sem mesta hagsæld út úr starfsemi fjármálafyrirtækisins eða er það kannski eitthvað allt annað? Eru það eignirnar sem fjármálafyrirtækið kemst yfir í krafti skuldsettra yfirtaka, eru það eignirnar sem fyrirtækið kemst yfir í krafti þess að það hefur gert góð skúbb á markaði? Hvað er árangur í fjármálafyrirtæki? Við þurfum í alvöru, eins og margt annað í sambandi við hrunið, að hugsa þau mál öll upp á nýtt. Fyrir hverja eru þessi fyrirtæki? Eru þau fyrir eigendurna, eru þau fyrir þjóðfélagið, eru þau fyrir þá sem leggja þar inn peninga? Eða hafa þau ríkara samfélagslegt hlutverk en fyrirtækin töldu greinilega sjálf í aðdraganda hrunsins?

Það kemur skýrt fram bæði í skýrslu rannsóknarnefndar og skýrslu þingmannanefndarinnar að fjármálafyrirtækin kolféllu á öllum þeim prófum sem mögulega var hægt að taka, a.m.k. hvað varðar trúverðugleika, siðferði og rekstur þeirra. Við þurfum að tryggja að löggjöfin sem utan um þau verður sett í kjölfarið haldi það vel og sé það vatnsheld að við eigum ekki von á að lenda aftur í slíkum hremmingum.

Í skýrslu þingmannanefndarinnar kemur fram, herra forseti, að eftirlitsaðilarnir brugðust einnig hrapallega. Ég er algjörlega sammála því sem kemur fram í meginniðurstöðum nefndarinnar að gera þarf stjórnsýsluúttekt á Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Þar þarf greinilega að skýra alla verkferla. Það er raunar gegnumgangandi, eins og hv. þingmenn hafa séð bæði í skýrslu rannsóknarnefndar og skýrslu þingmannanefndarinnar, að formfestuna hefur algjörlega vantað. Það þarf að fara mjög gaumgæfilega yfir það. Við þurfum að komast út úr „redda þessu fyrir helgi“ hugsunarhættinum, það er mjög mikilvægt. Hann er bara ekki boðlegur hugsunarháttur í stjórnsýslu og við þurfum að komast út úr honum.

Ég sakna þess kannski svolítið, að vísu tekur þingmannanefndin ágætlega á því, að ekki skuli vera talað meira um endurskoðendur og hlutverk þeirra í þessu öllu saman. Þar þarf að fara fram ítarleg úttekt og skýra miklu betur þá ábyrgð sem raunverulega hvílir á endurskoðendum. Ég held að ákaflega mikilvægt sé að skoða hugmyndirnar sem hafa komið fram, m.a. um að skilgreina hversu lengi endurskoðendur eða endurskoðendafyrirtæki megi þjónusta tiltekna aðila, til að mynda fjármálastofnanir, og skilgreina tímaramma áður en skipta þarf um endurskoðendur. Slíkt getur rofið þau sterku hagsmunatengsl sem smátt og smátt verða á milli fjársterkra aðila og endurskoðunarfyrirtækjanna. Það þarf að horfa mjög til þessa.

Í sambandi við Fjármálaeftirlitið finnst mér að skoða þurfi hvort stærð þess og umfang þurfi ekki að vera fljótandi að einhverju leyti og í meiri tengslum við stærð og umfang verkefnanna sem það sinnir á hverjum tíma því að þau kunna að breytast. Eftirlitið sé þannig ekki algjörlega bundið af tilteknum strúktúr frá degi til dags ef strúktúr fjármálakerfisins tekur breytingum. Það þarf að vera miklu meiri sveigjanleiki, þ.e. fjármögnun eftirlitsins þarf að vera það teygjanleg, skulum við segja, að það geti bætt í þegar og ef erfiðleikar eða stór verkefni koma upp.

Nefndin talar um að endurskoða þurfi lög um stjórnsýslu og Stjórnarráðið. Þar er ég algjörlega sammála. Ég held að það gæti hjálpað verulega að skilja að með einhverjum hætti löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið, hvort sem það yrði gert beinlínis með því að ráðherrar væru ekki þingmenn eða væru ekki þingmenn þann tíma sem þeir sitja sem ráðherrar. Það mundi líka fá fleiri vinnufúsar hendur inn í þingið sem við tölum öll um að veiti ekki af.

Í ljósi aðgerðaleysisins sem er svo augljóst að ríkti í aðdraganda þess að bankarnir hrundu, þarf að skýra betur í stjórnsýslunni hverjir það eru sem eiga að sjá „rauðu ljósin“ og hverjir eiga að bregðast við þeim. Mönnum virðist hreinlega ekki hafa verið það ljóst og það er a.m.k. þannig að ef menn sáu rauðu ljósin þá brugðust þeir ekki nægilega vel við þeim. Það þarf með einhverju móti að taka á þessu. Smæð samfélags okkar krefst þess að formfestan sé miklu, miklu meiri en hún er núna, það er algjört grundvallaratriði. Við þurfum að taka á því.

Við þurfum að átta okkur á því að það að skrifa hlutina niður og halda fundargerðir er ekki bara eitthvert leiðinlegt skrifræðisverk. Eins og ég sagði í andsvari fyrr í vikunni er það svo að það sem ekki hefur verið skrifað hefur ekki verið gert. Það er rauði þráðurinn í gegnum alla vinnu rannsóknarnefndar Alþingis og menn hafa koksað algjörlega á því prófi. Í nútímasamfélagi er mjög auðvelt að halda utan um þessa hluti og skrifa niður og halda fundargerðir. Það má gera það þess vegna í gegnum síma og hægt er að fá tæki sem skrifa fundi niður jafnóðum o.s.frv. Það á því ekki að vera neitt stórmál. Hafi menn áhyggjur af trúnaði eða þess háttar er hægt að merkja það. Gögn verða hins vegar að vera aðgengileg og menn verða að vita í hvaða ferlum mál voru.

Í kaflanum um siðferði og samfélag er komið inn á marga mjög mikilsverða þætti svo sem að þingið þurfi að endurheimta trúnað og traust þjóðarinnar. Ég vil í því sambandi minna á að trúnaður og traust er ekki eitthvað sem maður fær, maður ávinnur sér það og það tekur tíma. Ég vona að sá bragur sem hefur verið á umræðunni í þinginu fram að þessu sé upptaktur að því að þingið ætli að ávinna sér aftur traust þjóðarinnar. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli.

Komið er inn á þætti eins og styrki til stjórnmálaflokka. Þar er töluvert verk óunnið. Við samþykktum nýlega breytingar á lögum um fjármál stjórnmálaflokka. Við þurfum að ganga lengra í þeim efnum og margir þingmenn hafa lýst því yfir í umræðunni að þeir hafi áhuga á því og ég tel að það sé afar mikilvægt. Það þarf að vera eins mikið gagnsæi á fjármögnun og fjármálum stjórnmálaflokka og nokkurs er kostur. Það er þáttur í því að endurheimta traustið sem stjórnmálamenn og stjórnmálasamtök þurfa að hafa.

Nokkuð hefur verið komið inn á þátt fjölmiðla í aðdraganda hrunsins, hvernig þeir stóðu sig. Ég held að sú niðurstaða þingmannanefndarinnar að þeir hafi ekki staðið sig nógu vel og ekki verið nægilega gagnrýnir, sé réttmæt. Við sem löggjafarvald þurfum þá líka að vera tilbúin til að finna leiðir til að koma þeim í þann farveg að þeir geti verið gagnrýnir. Það getur þýtt fjárútlát og aukin framlög til stofnana eins og til að mynda Ríkisútvarpsins. Ég fyrir mitt leyti væri tilbúinn til að horfa til þess.

Að lokum vil ég segja, eins og ég kom að í upphafi, að í öllum meginatriðum er ég sammála þingsályktunartillögunni sem nefndin leggur fram í sameiningu. Ég tek undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, sem kom áðan inn á mikilvægi III. kafla þingsályktunartillögunnar, um að sérstakt eftirlit verði með því að þetta verði raunverulega gert, þ.e. raunveruleg eftirfylgd verði með þeim úrbótum sem kallað er eftir. Það er mjög mikilvægt atriði.

Ég held að óhætt sé að óska þinginu til hamingju með skýrsluna. Þar með er í rauninni hægt að óska þjóðinni allri til hamingju með að þingið gat tekið á þessu máli, á meginþáttunum, þeim þáttum sem skipta mestu máli fyrir áframhaldandi starfsemi löggjafar- og framkvæmdarvalds í landinu, á sameinaðan hátt, þverpólitískt, með niðurstöðum sem mér heyrist að lang-, langflestir sem hér taka til máls séu algjörlega sammála. Það er afar mikilsvert.