138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:18]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka nefndinni sérstaklega fyrir starf hennar. Skýrslan er vönduð og nefndarmönnum til mikils sóma. Ég þakka formanni nefndarinnar, Atla Gíslasyni, sérstaklega fyrir. Ég hlustaði vel á ræðu hans hér í upphafi þar sem hann fór málefnalega og á skýran hátt yfir störf nefndarinnar og beindi því til þingmanna að þeir mundu beina orðum sínum og ræðum að skýrslunni sjálfri, við mundum seinna taka á hugsanlegri ákæru á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum.

Það hefur margt gott verið sagt í þessari umræðu, mörg fögur orð verið notuð, orð eins og samvinna, heiðarleiki, gagnsæi, alls kyns rannsóknir og eftirlit. Það sem ég óttast því miður er að þetta séu einungis orðatiltæki sem þingmenn og aðrir nota á tyllidögum. Verkefnið er mun erfiðara en menn halda.

Nú tel ég að Alþingi verði að sýna styrk sinn, það er núna eða aldrei. Við skulum líka horfast í augu við það að allt það sem kemur fram í skýrslunni hefur verið margrætt á Alþingi og ég hef haldið ítrekað ræður úr þessum ræðustól þar sem ég beini því til núverandi ríkisstjórnar að breyta um verklag en því miður hefur mér þótt lítið ganga.

Þær grundvallarspurningar sem við fjöllum um snúa að því hvernig við ætlum að fara í gegnum þessa erfiðleika sem þjóð og hvernig við ætlum að byggja upp samfélagið til langs tíma litið. Þær snúast um grundvallaratriði eins og þrígreiningu ríkisvaldsins. Af hverju fóru menn út í þær reglur á sínum tíma, fyrir þrem öldum? Jú, vegna þess að menn fundu að vald verður ekki temprað nema með valdi. Það er lykilatriði í þeirri umræðu sem við erum að fást við hér.

Við þurfum líka að spyrja okkur spurninga. Hvað þýðir þessi svokallaða þingræðisregla? Hún á að snúast um það að þingið ráði, að hér sé uppspretta lagasetningar á Íslandi, en svo er í rauninni ekki. Við getum tekið eitt dæmi úr íslensku samfélagi sem þurfti hvorki meira né minna en Mannréttindadómstól Evrópu til að breyta. Það var þannig að sýslumenn höfðu heimild til að rannsaka og dæma í málum. Þeir voru sem sagt hluti af bæði framkvæmdarvaldinu og dómsvaldinu. Þarna átti sér stað algjör samþætting valds. Íslendingum þótti þetta flestum allt í góðu lagi vegna þess að þetta var ódýrt, við treystum þeim mönnum sem gegndu þessum embættum og við töldum að ekki væri gengið á rétt sakborninga.

Það þurfti mann frá Akureyri sem var tekinn fyrir umferðarlagabrot á hjóli til að breyta þessu. Mannréttindadómstóllinn sagði: Það gengur einfaldlega ekki að sami maður rannsaki og dæmi í máli. Þegar sú niðurstaða lá fyrir, hvað gerðist? Jú, ég held að allir séu meira og minna sammála um það að þetta gekk ekki. Við getum ekki leyft okkur í þessu litla samfélagi að blanda saman valdi, í þessu tilviki dómsvaldinu og framkvæmdarvaldinu, og í því tilviki sem ég ætla að nefna nú sem dæmi, löggjafarvaldinu og framkvæmdarvaldinu.

Ég á sæti í fjárlaganefnd. Í eðlilegum heimi mundi framkvæmdarvaldið, eins og reglurnar eru í dag, semja lagafrumvarp og það kæmi til efnislegrar meðferðar á Alþingi. Það mundi koma fyrir fjárlaganefnd þar sem við mundum taka algjörlega óháða afstöðu til frumvarpsins, og allir þeir þingmenn sem þar sætu.

Núverandi ríkisstjórn hefur búið til hinn svokallaða ríkisfjármálahóp. Í honum eiga sæti formaður og varaformaður fjárlaganefndar sem og ráðuneytismenn úr fjármálaráðuneytinu. Hlutverk þeirra er að undirbúa fjárlagafrumvarpið. Með öðrum orðum, þegar þessir aðilar eru búnir að semja og leggja línurnar fyrir fjárlagagerð næsta árs munu sömu aðilar fá málið til umfjöllunar á Alþingi, sömu aðilar, formaður og varaformaður fjárlaganefndar, eiga að fjalla um eigið verk. Ég hef margítrekað bent á þetta í fjárlaganefnd og þar hefur það verið rökstutt að menn þurfi á öllu sínu að halda við að undirbúa fjárlögin. Gott og vel, það eru ágæt rök út af fyrir sig. Ég finn heldur ekkert sérstakan vilja hjá sjálfstæðismönnum satt best að segja til að breyta þessu vegna þess að menn telja að þetta sé venjan. Þetta hefur viðgengist árum saman og menn sjá einfaldlega ekki hætturnar sem í þessu leynast.

Við verðum að skera á milli, búa til algjöra þrígreiningu valds á Íslandi. Alveg eins og gerðist með dóminn þegar menn töldu að það væri í lagi að sýslumenn rannsökuðu og dæmdu í málum, megum við ekki láta það vera þannig að alþingismenn sitji hér beggja megin borðs. Ég treysti þessum mönnum að sjálfsögðu til þess að gera þetta eins faglega og þeim er unnt, en þetta er bara lítið dæmi sem við verðum að horfast í augu við að gengur ekki lengur.

Hvað þarf að gera til að það verði raunveruleg breyting á Alþingi? Jú, þeir sem ráða, þeir sem eru í ríkisstjórn, þeir sem eru ráðherrar, formenn flokka, þeir verða að gefa eftir vald. Engar lýðræðisumbætur hafa átt sér stað, hvergi í heiminum nema einhver hafi gefið eftir vald. Hvaða vald erum við að tala um? Hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra eru formenn flokka sinna og þeir leggja mikið upp úr því, við höfum séð það, að það ríki hinn svokallaði flokksagi. Mjög hefur verið talað um það í mörg ár að við þurfum að koma í veg fyrir hið svokallaða flokksræði. Þá spyr ég enn: Hvort vilja menn að hér sé áfram flokksræði eða að hver og einn þingmaður kjósi eftir sannfæringu sinni? Ég er nefnilega ekki viss um hvað almenningur og sér í lagi fjölmiðlar vilja.

Ég man eftir því í Icesave-umræðunni að ritstjórar stærstu dagblaðanna skömmuðust út í þá þingmenn sem vildu kjósa eftir sannfæringu sinni. Ég held að við munum líka eftir því í ESB-málinu þar sem menn áttu að fylgja flokkslínum. Þetta eru einfaldlega hlutir sem við verðum að gera upp við okkur, hvort viljum við? Þetta er ekki sjálfsagt mál, þetta er mun, mun erfiðara en menn ætla. Við skulum minnast orða hæstv. forsætisráðherra þegar hún talaði um að nú væri kominn tími til að formaður Vinstri grænna skyldi smala liði sínu eða smala köttunum eins og það var orðað.

Ég held að við þurfum að ráðast í það að hér verði persónukjör. Ég held að það sé eitt mikilvægasta málið á Alþingi að það náist í gegn að hér verði persónukjör eins og víðast hvar í vestrænum ríkjum. Ég held að sú leið sé fyrst og fremst til þess fallin að við losnum undan þessu svokallaða flokksræði, hinum svokallaða flokksaga. Þingmenn verða fyrst og fremst að geta einbeitt sér að því að tala út á við til almennings í staðinn fyrir að gæta að einhverjum duldum flokkshagsmunum. Ég skora á alla þá þingmenn sem sitja hér inni og eru að hlusta á þessar umræður að við berjumst fyrir því að þetta verði að veruleika. Ég skal samt viðurkenna að ég hef fundið fyrir því að það eru ekki allir á þessu, það eru ekki allir á því að koma á fót persónukjöri.

Virðing Alþingis er minni en áður, um það er ekki deilt. Mér þykir það miður vegna þess að ég er afar stoltur af því að hafa verið kjörinn til þess að gegna því embætti sem ég gegni sem alþingismaður. En hvað er til ráða? Hér hafa menn komið í ræðustól og sagt að menn þurfi að gæta að orðum sínum úr ræðustól. Ég tek heils hugar undir það. Umræðan verður að vera málefnalegri og ef hún verður málefnalegri verður hún sanngjarnari og um leið mun virðing almennings fyrir Alþingi aukast.

Þetta er ekki bara bundið við persónur manna. Ég hef hlustað á þingmenn koma hér upp í ræðustól og tala um hversu mikilvægt það sé að málefnaleg umræða fari fram en koma svo daginn eftir og viðhafa stór orð út í andstæðinga sína á Alþingi. Ég held að við verðum að horfast í augu við að það form sem okkur er búið er einfaldlega ekki að ganga upp.

Ég nefndi í andsvari við hæstv. forseta breytingar sem voru gerðar hér fyrir rúmum tveim árum, í lok árs 2007, ef ég man rétt, þegar ég var nýsestur á Alþingi, þ.e. breytingar á þingskapalögum í þá veru að stytta ræðutíma alþingismanna, gera ræðuformið knappara. Þetta var rökstutt með því að umræður á Alþingi ættu að vera líflegri og þær ættu að vera skemmtilegri. Ég held að þar hafi Alþingi gert mikil mistök. Ég held einmitt að áður en þær breytingar áttu sér stað hafi Alþingi og alþingismenn notið mun meiri virðingar. Þar fengu menn einfaldlega að tala út.

Hv. þm. Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, nefndi ítrekað í ræðu sinni að hann hefði ekki tíma, hvort sem væri í andsvörum eða ræðu, til að fjalla á sem ítarlegastan máta um þau umfjöllunarefni sem þingmannanefndin tók fyrir. Mér þótti það miður. Ég hefði viljað hlusta betur og heyra dýpri skýringar á því sem fór fram innan þingmannanefndarinnar. Samt fékk hann rýmri tíma til að tjá sig um efnið en hann hefur samkvæmt þingskapalögum.

Ég held að við eigum að horfast í augu við það að Alþingi hafi stigið röng skref þegar við á sínum tíma styttum ræðutímann. Ef við náum á ný að hafa hér málefnalegri umræðu, dýpri og skilmerkilegri skoðanaskipti mun virðing Alþingis aukast. Ég held að þeir þingmenn sem hafa lent í því að spyrja ráðherra í fyrirspurnatíma hefðu margir hverjir óskað eftir því að þær umræður hefðu fengið meiri tíma. Ég vil samt taka það fram, vegna þess að forseti Alþingis sagði í svari sínu að það hefði verið breið og mikil samstaða um að breyta þingskapalögum á sínum tíma, að svo var ekki. Vinstri grænir, ég og fleiri lögðumst eindregið gegn því að þær breytingar yrðu að veruleika.

Síðan er annað. Hér hafa margir varpað fram og lagt fram tillögur þess efnis að frumvörp þurfi að fá vandaðri umræðu. Sú umræða er af sama meiði. Á móti kemur að margir hafa lýst því yfir að Alþingi þurfi að vera sveigjanlegt, ríkisstjórnin, framkvæmdarvaldið þurfi stundum að geta keyrt mál í gegn án lítils fyrirvara. Ég segi: Ef menn vilja það á það að vera í algjörum undantekningartilvikum. Það á að vera erfitt að koma lagafrumvörpum í gegn. Alþingi á ekki að vera útungunarstöð nýrra og nýrra lagafrumvarpa. Við eigum að vanda lagasetningu, það á að vera erfitt og taka langan tíma að breyta lögum nema í algjörum undantekningartilvikum og ef nauðsyn ber til.

Það er einnig lagt til og margir hafa rætt það héðan úr ræðustól að réttur til upplýsinga þurfi að vera meiri og betri, réttur alþingismanna til upplýsinga. Ég sit í fjárlaganefnd og þar hefur það gerst að við erum að fá meiri upplýsingar en fjárlaganefndarmenn hafa fengið áður og það er vel. Ég fagna því. Skýrsla frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var lögð fram um daginn þar sem fjallað er um breytingar á fjárlagagerðinni. Þar er tiltekið að ekki er nægilegt að dæla upplýsingum stöðugt í alþingismenn. Það verður að vinna úr þeim upplýsingum og þær upplýsingar sem alþingismenn fá verða að skipta máli. Ég held að alþingismenn hafi hér ekkert ráðrúm til þess að lesa langar skýrslur.

Þá komum við líka að öðrum þætti sem menn hafa verið að ræða og það er að efla Alþingi faglega. Það er ekki eins einfalt mál og menn vilja vera láta, síður en svo, vegna þess að það kostar það að auka þarf fjármagn til Alþingis. Ef menn vilja styrkja Alþingi faglegar kostar það peninga. Hér hefur mönnum verið gjarnt að skera niður fjármuni til Alþingis á meðan framkvæmdarvaldið hefur bólgnað út.

Okkur landsbyggðarþingmönnum var skipaður aðstoðarmaður árið 2007, þ.e. ég fékk einn þriðja af aðstoðarmanni. Ég get sagt að það skipti mig gríðarlega miklu máli. Það er eitt að þurfa að sinna öllum þeim störfum sem alþingismenn þurfa að takast á hendur á Alþingi og annað að þurfa líka að vera vel inni í því sem gerist í kjördæmi þingmanns, sérstaklega þegar það er hinum megin á landinu. Einn þriðji aðstoðarmaður var sko alls ekki of mikið til að létta þá vinnu og gera okkur alþingismenn betur í stakk búna til að fjalla um þau málefni sem gerast í kjördæmum okkar.

Þarna liggur hundurinn grafinn. Menn geta ekki endalaust mætt þeim fullyrðingum í samfélaginu að það þurfi að skera niður í launum og starfsaðstöðu þingmanna en svo er sagt um leið að gera verði meiri og ríkari kröfur til þeirra. Þetta fer einfaldlega ekki saman og við þingmenn verðum að þora að segja það. Við verðum að þora að segja það þrátt fyrir að fjölmiðlar og bloggarar landsins muni veitast að okkur. Ég held að aðeins þannig muni Alþingi njóta virðingar ef menn þora að standa í lappirnar að þessu leyti.

Launakjör eru eitthvað sem þingmenn þora ekki að ræða almennt úr þessum ræðustól en ég get sagt það að ég hef heyrt þingmenn úr hverjum einasta flokki segja að þetta gangi ekki lengur, það sé mun erfiðara að gegna þessu starfi en áður. Við verðum líka að horfast í augu við það, alveg eins og hv. formaður Sjálfstæðisflokksins sagði áðan, að það fólk sem hér ræður ríkjum ber líka mikla ábyrgð á því hvernig Alþingi birtist almenningi. Hann sagði með öðrum orðum: Þingið verður aldrei sterkara en fólkið sem þar situr og við verðum að skapa þær aðstæður að okkar færasta fólk sem landið á vilji starfa á Alþingi og sækist eftir því.