138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:03]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið og verð að viðurkenna að ég er aðallega kominn í pontu til að gefa honum tækifæri á að svara fyrri spurningunni líka og koma með hugleiðingar sínar um hana. Ég vil taka undir með þingmanninum að meiri formfesta þarf að vera í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og að boðleiðir séu skýrar, menn viti nákvæmlega hverju þeir geti átt von á. Það er algjört grundvallaratriði fyrir sveitarfélögin að slíkir hlutir séu á hreinu svo þau geti rækt skyldur sínar gagnvart íbúunum. Það er til að mynda mjög erfitt fyrir sveitarfélögin eins og staðan er í dag að gera fjárhagsáætlanir þegar fasteignamat liggur t.d. ekki fyrir fyrr en í byrjun desember og stundum ekki fyrr en seinni partinn í desember og sveitarfélögum ber skylda til að skila fjárhagsáætlunum sínum fyrir áramót. Það eru mörg svona atriði sem eru ekki í nógu góðu lagi. Við þurfum í sameiningu að vinda okkur í að leysa þessi mál.