138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:11]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að mikilvægt sé að skilin á milli framkvæmdarvaldsins og Alþingis séu alveg skýr. En eigi að síður er það þannig í dag að þingið hefur það vald sem það vill taka sér. Ef þinginu líkar ekki það sem framkvæmdarvaldið gerir og hefur einhverjar athugasemdir við það, ég nefndi sérstaklega í ræðu minni áðan villikettina, þá getum við gert það og eigum að gera það. Auðvitað bind ég miklar vonir við að núna snúum við á þá braut að vinna meira saman eins og lagt er til hér. Hver eru þolmörk þjóðarinnar fyrir pólitísku argaþrasi við þessar aðstæður? Það getur vel verið að þjóðinni fyndist Alþingi vera mjög fínt og það hefði mikið traust ef allt væri í lagi í samfélaginu en það er bara ekki þannig. Nú þurfum við nefnilega að snúa bökum saman og vinna að því að reisa landið við aftur. Hverja getum við tekið okkur til fyrirmyndar? Við getum tekið okkur til fyrirmyndar sveitarstjórnarfólk í landinu. Í mörgum sveitarstjórnum um allt land er alveg sama hverjir stýra, hvort hægri menn eða vinstri menn eru í forsvari, þeir taka minni hlutann með sér og vinna sameiginlega að verkefnum sem snúa að innviðum sveitarfélagsins til að tryggja þann frið sem þarf að vera til að komast í gegnum erfiðleika, þvert á flokka og þvert á pólitík. Þannig að við ættum kannski að taka sveitarstjórnarfólkið okkur til fyrirmyndar.

Ég vil að lokum nefna eitt sem ég tel þó til mikilla bóta og var kynnt á þingflokksfundi fyrir nokkrum dögum. Það var frumvarp hæstv. forseta, hv. þingmanns Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur um breytingar á þingsköpum. Hæstv. forseti sýndi mikið frumkvæði með því að leggja fram þetta frumvarp og óska eftir því að það fengi efnislega umræðu í þingflokkunum til að reyna að mynda sem breiðasta samstöðu um það. Það veit kannski á betri tíma.