138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:13]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar að tala svolítið á huglægum nótum. Ég vil byrja á því að vitna í þjóðskáldið góða, Einar Benediktsson, sem orti um samfélagsuppbyggingu á sinni tíð, að vísu við aðrar aðstæður en nú ríkja en þó með hugarfari sem við skiljum í þeim aðstæðum sem við erum í í dag. Hann orti, með leyfi forseta:

Þú fólk með eymd í arf!

Snautt og þyrst við gnóttir lífsins linda,

litla þjóð, sem geldur stórra synda,

reistu í verki

viljans merki, –

vilji er allt sem þarf.

Þegar við nú ræðum hér í þinginu skýrslu þingmannanefndarinnar stöndum við frammi fyrir grundvallarspurningum um löggjafarhlutverk þingsins, fjárveitingavald þess og eftirlitshlutverk. Við stöndum frammi fyrir spurningum um valdmörk og verkaskiptingu og við komumst ekki hjá því sem stjórnmálamenn að horfa fast inn á við og spyrja: Hvert er erindi mitt? Ég fullyrði að hver sá sem gefur kost á sér til þingstarfa gerir það af góðum vilja til að vinna og gera þjóð sinni gagn. En þótt áformin séu fróm í upphafi getur margt farið úrskeiðis þegar út í alvöruna er komið. Veruleikinn er annar en draumurinn og amstur hins daglega lífs í argaþrasi stundarumræðunnar tekur of mikinn tíma og orku frá persónum og leikendum á þessu leiksviði lífsins. Fyrr en varir upplifir hinn nýi þingmaður þeytivindu agalausrar stjórnmálaumræðu þar sem umbúðir og yfirlýsingar leysa yfirvegun og meginmarkmið af hólmi. Hann skynjar þungan þrýsting úr öllum áttum, frá félagasamtökum, hagsmunaaðilum og ýmsum þjóðfélagshópum sem allir gera tilkall til að vera „fólkið í landinu“ og „þverskurður þjóðarinnar“ eða a.m.k. sá þjóðfélagshópur sem skiptir máli eins og þingmenn þekkja. Í þeim aðstæðum þyrlast upp margvísleg stundarfyrirbrigði sem þeyta umræðunni um holt og móa og jafnvel langt af leið. Hvað er þá til ráða?

Heimspekingurinn og guðfræðingurinn Søren Kierkegaard skrifaði eitt sinn bréf til vinar sem kenndi til í stormum sinnar tíðar. Hann ráðlagði honum að þeytast ekki með þyrilvindum stundarinnar. Fylgstu með því, vinur, sagði hann, hvað mávurinn gerir þegar stormurinn nálgast. Þá hækkar hann flugið og hefur sig yfir ókyrrðina sem annars yrði honum að fjörtjóni. Hvað gerir þorskurinn þegar óveðrið þyrlar upp ölduróti og bylgjur hafsins rífa með sér allt lauslegt? Hann kafar dýpra og dvelur í kyrrð hafdjúpanna uns óveðrið er gengið yfir. Dveldu ekki í storminum, kæri vinur, sagði Kierkegaard, lyftu þér yfir ókyrrð og ásýnd stundarinnar og kafaðu undir ólguna, niður í kyrrðardjúp hugans.

Segja má að orðatiltækið „að vera hvorki fugl né fiskur“ fái svolítið nýja merkingu í ljósi þessarar sögu því að galdurinn er að vera hvort tveggja, bæði fugl og fiskur.

Við sem sinnum stjórnmálum á þeim tímum sem nú fara í hönd erum fólk sem kennir til í stormum sinnar tíðar, svo sannarlega. En við megum gæta okkar á því að láta ekki eingöngu fyrirberast í ókyrrðinni og tvístra þar með kröftum okkar og yfirsýn. Nú er sú stund runnin upp sem krefst bæði yfirsýnar og djúphygli. Skýrslur rannsóknarnefndar Alþingis og nú þingmannanefndarinnar er ekki hægt að nálgast með neinu öðru hugarfari. Sú skýrsla sem nú liggur fyrir er mikilvægur og þakkarverður þáttur í pólitísku uppgjöri við hrunið. Fulltrúar allra flokka á Alþingi hafa lagt þar hönd að verki og tekið undir meginniðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis. Það er ánægjuefni fyrir mig sem þingmann Samfylkingar að sjá hversu margt í þessum niðurstöðum endurómar þá stefnu og málflutning sem Samfylkingin hefur beitt sér fyrir undanfarin ár. Ég nefni áhersluna á sjálfstæði þingsins, eftirlitshlutverk þess, aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og gæti sjálfsagt talið upp fleira. Skýrslan tekur á fleiru sem flestir þingmenn hljóta að vera samþykkir. Til dæmis er lögð áhersla á aukna fagmennsku við undirbúning löggjafar og bætta rökræðusiði á Alþingi, nokkuð sem við vitum öll að má ekki dragast öllu lengur.

Ég tek heils hugar undir þá ályktun nefndarinnar að Alþingi beri að rækja umræðuhlutverk sitt og vera vettvangur lýðræðislegra og málefnalegra skoðanaskipta, að alþingismönnum beri að sýna hugrekki og festu í störfum sínum og afla sér þar með trausts þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum. Þá er ekki annað hægt en að taka undir þær ávítur sem koma fram í skýrslunni á stjórnsýsluna, verklag hennar og skort á formfestu jafnt í ráðuneytum sem sjálfstæðum stofnunum, skort á frumkvæði, gagnsæi og rekjanleika, sem og þá gagnrýni sem þar kemur fram á hið svonefnda oddvitaræði.

Sú endurskoðun sem nefndin leggur til á löggjöfinni til að ráða bót á ýmsu því sem aflaga hefur farið er að mínu mati löngu tímabær og ekki síður þær rannsóknir og úttektir sem þar eru lagðar til.

Frú forseti. Þeir þingmenn sem talað hafa í þessari umræðu hafa margir haft á orði að nú þurfi þingheimur og samfélagið allt að horfa fram á veginn og hætta að engjast í fortíðinni. Satt er það. Vissulega verðum við að horfa fram á veg. En til þess að takast á við framtíðina verðum við að horfast í augu við fortíðina. Við verðum að sjá mistök okkar og misgjörðir af þeirri einurð og hugrekki sem kallað er eftir í skýrslunni. Við verðum með öðrum orðum að lyfta okkur yfir dægurþrasið eins og fuglinn yfir óveður og kafa síðan undir ólguna eins og fiskurinn til að draga ályktanir og íhuga rökin.

Þegar við nú lítum yfir farinn veg og skoðun atburðarásina í ljósi þeirrar skýrslu sem liggur fyrir blasa nokkrir meginþættir við.

Í fyrsta lagi. Einkavæðing bankanna og fúskið þegar þessi mikilvægu fyrirtæki í almenningseign voru færð fáum útvöldum í hendur, seld fyrir slikk í hendur manna sem ekkert kunnu með að fara.

Í öðru lagi. Hin þunga ábyrgð Seðlabankans sem með aðgerðaleysi brást bæði sem eftirlitsstofnun og viðbragðsaðili. Bankinn tók fálmkenndar ákvarðanir án þess að hafa til þess fullnægjandi forsendur, áhyggjum sínum af stöðu bankanna kom hann ekki formlega á framfæri og viðbrögð hans við hinni alvarlegu stöðu í bankakerfinu voru órökrétt. Þá skorti mikið á að samskipti á milli bankastjórnar Seðlabanka og stjórnvalda hefðu verið í eðlilegu samræmi við góða stjórnsýslu, eins og fram kemur í skýrslunni.

Í þriðja lagi vil ég nefna þau skelfilegu hagstjórnarmistök ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á árabilinu 2003–2007 sem áttu sinn þátt í því að auka efnahagslegt ójafnvægi sem um síðir leiddi til hrunsins. Í skýrslunni kemur fram að grípa hefði þurft til aðgerða í síðasta lagi árið 2006 til að einhver möguleiki væri á að koma í veg fyrir fall bankanna. Á þessum mesta góðæristíma sögunnar jókst misskiptingin í samfélaginu svo mjög að þess eru engin sambærileg dæmi á lýðveldistímanum og stjórnviskan brást. Sú alþekkta hagstjórn að ríkið haldi að sér höndum þegar vel árar en auki svo umsvif sín og næri þannig atvinnulíf og hagkerfi þegar illa árar var að engu höfð.

Það var margt sem brást í aðdraganda hrunsins og sá aðdragandi nær langt aftur fyrir þann tíma sem rannsóknarnefnd Alþingis hafði innan seilingar í vinnu sinni. Eitt af því sem brást og við höfum veigrað okkur við að ræða úr þessum ræðustóli fyrr en núna síðustu tvo daga er Alþingi sjálft. Með veikri löggjöf, hnignandi sjálfstæði, óljósum valdmörkum gagnvart framkvæmdarvaldinu og síðast en ekki síst með yfirborðslegri og afar óyfirvegaðri umræðuhefð hefur Alþingi ekki verið þjóðinni það haldreipi sem ætlast mætti til, hvorki fyrir né eftir hrun.

Nú eigum við þess kost að bæta um betur, enda komið að skuldaskilum. Það er komið að því að Alþingi skilgreini loks hlutverk sitt, skapi sér verkrými og reisi viðeigandi skorður við ágengni framkvæmdarvaldsins og ýmiss konar sérhagsmunaþrýstingi utan úr samfélaginu í ókyrrð hinnar daglegu stjórnmálaumræðu sem oftar en ekki snýst um aukaatriði og umbúðir en ekki grundvöll og meginatriði.

Þetta er nú lýðum ljóst og það staðfestir sú skýrsla sem þingmannanefndin hefur tekið saman. Það er fagnaðarefni að allir nefndarmenn hvar í flokki sem þeir standa skuli hafa sameinast um niðurstöðurnar sem lúta að þessu og þær tillögur sem gerðar eru til umbóta því að þær eru allar af hinu góða. Ég trega að ekki skyldi hafa náðst eining um það í nefndinni að efna til rannsóknar á einkavæðingu bankanna eins og rannsóknarnefnd Alþingis lagði til í frumskýrslu sinni. En ef marka má yfirlýsingar formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í umræðunum í þingsalnum í gær gæti engu að síður náðst um það samstaða hér á þessum vettvangi og væri ánægjulegt ef svo færi, enda fullt tilefni til.

Frú forseti. Það mætti hafa langt mál um þá skýrslu sem hér liggur fyrir. Enn er óræddur sá þáttur sem ekki náðist eining um og mun trúlega skipta þingheimi í fylkingar ef ekki öreindir, en það er ákæruþátturinn varðandi ráðherraábyrgð. Ég mun ekki ræða þann hluta skýrslunnar fyrr en kemur að því að taka afstöðu til þingsályktunartillagnanna um ákærurnar sjálfar. Ég vil þó segja að orsakir bankahrunsins og efnahagsáflallsins eru ekki einhlítar. Undanfari þeirra atburða teygir sig mun lengra aftur en til þess tíma sem rannsóknarnefndin hafði til skoðunar.

Ég velti fyrir mér samviskuspurningum varðandi það að taka einungis á vanrækslu og vanhæfni þeirra sem stóðu á sviðinu síðustu mánuðina fyrir hrun. Þegar ljóst er að sambærileg vanræksla og vanhæfni réð gerðum manna á fyrri stigum máls og að hin fyrri stig málsins, t.d. í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2003–2007, eru í augljósu orsakasamhengi við það sem síðar gerðist.

Nú liggur fyrir að hruninu hefði að öllum líkindum ekki verið forðað með inngripum eftir árið 2006 eins og ég hef þegar sagt og það er jafnljóst að landsdómur nær ekki til þess tíma sem orsaka hrunsins er að leita.

Ég hlýt líka að velta fyrir mér þeim athugasemdum sem komið hafa fram í fjölmiðlum að undanförnu um mannréttindaþáttinn varðandi málsmeðferðina fyrir landsdómi í framhaldi af vinnu þingmannanefndarinnar. Þetta eru vissulega rök sem ástæða er til að íhuga vel og velta fyrir sér áður en endanleg ákvörðun er tekin með greiddu atkvæði í þinginu.

Svo mikið er víst að kaleikurinn sem okkur þingmönnum er færður í þessu máli er beiskur því að aldrei fyrr hefur Alþingi Íslendinga staðið í viðlíka sporum og þeim sem við nú stöndum í; að þurfa hugsanlega að beita ákæruvaldi, ekki sem ein heild, ekki sem þingheimur, heldur hvert og eitt okkar með því atkvæði sem við greiðum þegar þar að kemur. Sú umræða bíður þó enn um sinn og ekki mun okkur veita af að fá svolítið svigrúm til að íhuga ráð okkar uns þar að kemur.

Sá hluti skýrslunnar sem hér er til umræðu felur í sér samhljóm sem ástæða er til að fagna og taka fullt mark á, annað hvort væri nú. Skýrslan sýnir að Alþingi er ekki alls varnað. Hún sýnir líka að ríkisstjórnin sem nú situr hefur ekki setið auðum höndum í umbótastarfi sínu því að ýmis þeirra verkefna sem nefnd eru í skýrslunni eru þegar hafin eða í undirbúningi, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur þegar rakið.

Mig langar, frú forseti, áður en ég lýk máli mínu að fá að brýna þingheim til dáða í því endurreisnarstarfi sem framundan er með því að vitna aftur í sama ljóð og ég fór með hér í upphafi eftir þjóðskáldið góða Einar Benediktsson er hann orti og ávarpaði að sjálfsögðu syni landsins. Í ljósi jafnréttisbaráttu undanfarinna áratuga ætlast ég til að dætur Íslands taki þetta nú til sín líka, með leyfi forseta:

Þú sonur kappakyns!

Lít ei svo með löngun yfir sæinn,

lút ei svo við gamla, fallna bæinn,

byggðu nýjan,

bjartan hlýjan,

brjóttu tóftir hins.