138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:46]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur að um ráðherraábyrgð ber að tala af mikilli varfærni. Þetta er alvarlegt mál og það er þyngra en tárum taki verkefnið sem okkar bíður, að greiða atkvæði um fyrrverandi ráðherra okkar. Ég vil ekki líkja þessu saman, að sjálfsögðu ekki.

Ég tek undir með hv. þingmanni um að hæstv. ráðherra þarf ekki og á ekki að fylgja stefnu Samfylkingarinnar. Til þess mun ekki koma að hann geri það og ég virði það. Það breytir ekki því að ráðherra ber að fara að lögum og vilja Alþingis. Honum ber að fylgja eftir samþykkt Alþingis og honum ber að sinna því verkefni sem honum er falið í framhaldi af því.

Burt séð frá því hvort ráðherra er fylgjandi aðild að Evrópusambandinu eða ekki ber honum að undirbúa stjórnsýslu sína, þá stjórnsýslu sem hann ber ábyrgð á — á meðan við höfum ekki fjölskipað stjórnvald ber hann ábyrgð á þessum málaflokki — að fylgja samþykkt Alþingis. Hann má ekki brjóta gegn lögum frekar en aðrir þegnar og hann má ekki fara gegn samþykkt Alþingis frekar en aðrir þingmenn. Það er það sem ég vil vekja athygli á enn og aftur.

Það kann að vera að það hafi verið fullbratt hjá mér að vísa til ráðherraábyrgðar en ég ítreka að það er í ljósi aukinnar vitundar sem leiðir hugann að því að ráðherrar þessa lands, framkvæmdarvaldið, geta ekki hagað sér eftir eigin geðþótta ef þingið tekur ákvörðun, þó að hún sé á skjön (Forseti hringir.) við hans eigin sannfæringu.