138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hæstv. ráðherra hafi aldrei verið almennur þingmaður en mig langar til að spyrja hana þessa atriðis engu að síður: Finnst henni eðlilegt að öll meginfrumvörp sem samþykkt eru sem lög frá Alþingi séu samin í ráðuneytum og jafnvel í þeim stofnunum sem framfylgja lögunum, þar sem alltaf er smáhætta á því að sá sem semur frumvarpið sé í raun að smíða vopn í hendur framkvæmdarvaldsins til þess að ráða við borgarana?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra að því sem nefnt er í skýrslunni „oddvitaræði“. Nú er það þannig að sótt var um aðild að Evrópusambandinu og hæstv. ráðherra flutti þá alveg makalausa ræðu sem ég ráðlegg öllum landslýð að lesa reglulega, af því að hún vill ekki ganga í Evrópusambandið en sagði samt já. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stóð á þessu? Var þetta oddvitaræði? Er hæstv. ráðherra sammála því sem gerðist í kjölfarið? Sama dag lagði hæstv. utanríkisráðherra, sem er með hæstv. umhverfisráðherra í ríkisstjórn, fram umsókn þar sem ekki var beðið um viðræður, þar sem hvorki var minnst á þingsályktun Alþingis né fyrirvari settur um hana, þar sem hvorki var minnst á þjóðaratkvæðagreiðslu né fyrirvari settur um hana, þar sem ekki var minnst á það að sú stjórnarskrá sem við höfum svarið eið að bannar slíka umsókn. Að mati flestra bannar stjórnarskráin það að við sækjum um aðild að ríkjabandalagi sem stefnir á það að verða ríki. (Gripið fram í: Bannar ekki að sækja um.) Bannar ekki að sækja um, segir háttvirtur, það er nú góður útúrsnúningur. (Forseti hringir.)