Málshöfðun gegn ráðherrum

Föstudaginn 17. september 2010, kl. 10:38:57 (0)


138. löggjafarþing — 162. fundur,  17. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:38]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil að það komi fram við þessa umræðu að strax á laugardag kom fram skýr krafa um það í þingflokki Samfylkingarinnar að þingmenn fengju aðgang að öllum gögnum sem unnið hefði verið með og lögð hefðu verið til grundvallar niðurstöðu þingmannanefndarinnar. Það staðfestist hér með að það var gert og farið var í það af varaformanni stjórnar þingflokksins að ná þeim gögnum til þingflokksins.

Ég verð að segja, eins og aðrir sem hér hafa tekið til máls, að mér finnst fullkomlega eðlilegt, skynsamlegt og ábyrgt að hver og einn einasti þingmaður sem greiða þarf atkvæði um tillögurnar sem hér liggja fyrir hafi aðgang að öllum gögnum, minnispunktum og hverju öðru sem þingmannanefndin hefur haft með höndum í vinnu sinni.