eftirlit með þjónustu og hlutum sem hafa hernaðarlega þýðingu.
Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um eftirlit með hlutum og þjónustu sem hafa hernaðarlega þýðingu. Eins og segir í 1. gr. frumvarpsins er lagt til með þessum lögum að settar séu reglur um eftirlit með hlutum, þjónustu og fjárfestingum sem hafa hernaðarlega þýðingu og sömuleiðis um örugga vörslu og geymslu gagna og slíkt hið sama. Í lögunum er jafnframt kveðið á um viðurlög og stjórnsýsluleg úrræði gegn brotum á þessum lögum. Þessi lög taka til íslenskra ríkisborgara og útlendinga samkvæmt þeim ákvæðum sem almenn hegningarlög hafa að geyma um refsilögsögu en þau baka þar að auki íslenskum ríkisborgurum refsiábyrgð fyrir verknað sem þeir kunna að fremja erlendis jafnvel þótt ekki séu lög í gildi í því landi sem mæla gegn slíkum verknaði. Samkvæmt þessu frumvarpi og þeim lögum sem kunna að verða samþykkt á grundvelli þess má enginn sem lögin ná yfir flytja út hergögn eða hluti sem hafa svokallað tvíþætt notagildi nema með leyfi ráðherra. Hlutur með tvíþætt notagildi er skýrður ítarlega í hugtakakafla frumvarpsins. Þar er um að ræða hluti sem má nota bæði í borgaralegum og hernaðarlegum tilgangi. Það er hins vegar kveðið á um það líka í sérstakri grein að ráðherra getur veitt undanþágur frá þessu banni þegar eru gildar ástæður fyrir hendi. Þá er jafnframt heimilt að setja skilyrði fyrir undanþágunni til að tryggja að með henni sé ekki grafið undan eða komist fram hjá markmiði bannsins sem er að viðhalda friði og öryggi í heiminum og treysta varnir gegn þeim sem kynnu að hafa í huga að fremja hryðjuverk.
Þetta frumvarp er núna lagt fram í þriðja sinn en lítið breytt. Það má segja að nú þegar séu fyrir hendi ákveðnar heimildir til ráðherra til að takmarka útflutning og meðhöndlun hluta sem hafa hernaðarlega þýðingu en það frumvarp hefur hins vegar ekki náð þeim tilgangi að gera okkur Íslendingum kleift að uppfylla skilyrði ýmissa alþjóðlegra samninga sem við höfum á seinni árum gengist undir eins og t.d. fyrirmæla sem komið hafa frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Eins og þetta þing veit eru þau fyrirmæli bindandi fyrir aðildarþjóðirnar. Þetta frumvarp víkkar út þær heimildir sem ráðherra hafði samkvæmt lögunum um útflutningsleyfi frá 1988 og sömuleiðis vek ég athygli hv. þingmanna á því að frumvarpið gerir það líka að verkum að heimildir ráðherra ná núna til fjárfestinga og ýmiss konar þjónustu.
Markmiðið með frumvarpinu er í reynd tvíþætt: Annars vegar, eins og ég gat um áðan, að gera Íslendingum mögulegt að uppfylla skilyrði alþjóðlegra sáttmála sem þeir hafa gengist undir en einnig til að auðvelda fjárfestingar innan lands og sömuleiðis útflutning. Ástæðan er sú að það eru ákveðin ríki eins og t.d. Japan og reyndar fleiri stór iðnríki sem ekki heimila fjárfestingar nema frá löndum eða gagnvart löndum sem hafa undirgengist að setja slíkar takmarkanir sem hér eru lagðar til út frá alþjóðlegum sáttmálum. Ég leyfi mér sérstaklega að vekja athygli á því að Japanar hafa til að mynda sýnt áhuga á því að taka þátt í nýiðnaði hér á landi sem fellur undir það sem við höfum stundum kallað græna stóriðju, koltrefjaiðnað, og hafa m.a. skoðað möguleika á því í Norðvesturkjördæmi, kjördæmi hv. þingmanns sem hér veifar hendi, formanns þingflokks Framsóknarflokksins. Þetta frumvarp er m.a. sett fram til að greiða fyrir því. Í tengslum við umræður um þessa möguleika hafa komið fram fyrirspurnir frá erlendum ríkjum um hvort Ísland hafi sett með þessum hætti slík lög.
Við vitum að alþjóðleg samvinna um útflutningseftirlit hefur aukist verulega á síðustu árum og eins og ég gat um áðan er með þessu frumvarpi verið að víkka út og herða þær reglur sem gilda um eftirlit með hlutum, þjónustu og fjárfestingum sem kunna að hafa hernaðarlega þýðingu. Í frumvarpinu er líka það nýmæli að þar eru sett inn heimildarákvæði um að ráðherra gefist færi á því að setja reglur um örugga vörslu og meðhöndlun gagna sem varða þetta líka.
Í greinargerð með frumvarpinu er farið skýrt yfir þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur varðandi útflutningseftirlit af þessu tagi. Við undirbúning á þessu frumvarpi hefur utanríkisráðuneytið leitað fanga í reglum í nágrannalöndunum, þar á meðal á Norðurlöndunum og í Evrópusambandinu. Innan EES-svæðisins gildir vitaskuld reglan um frjálst flæði vöru og þjónustu. Samræmdar reglur af þessu tagi milli þjóða minnka hættuna á því að ólögleg vara frá EES-ríkjunum sé flutt um íslenskt yfirráðasvæði. Það má segja að frumvarpið miði að því að ná þannig fyrirkomulagi og eftirliti að það sé eins hagkvæmt og kostur er og að þekking samstarfsríkjanna á þessum þáttum verði nýtt eftir atvikum. Ég tel því að virkt útflutningseftirlit af þessu tagi, með þeim dæmum sem ég hef nefnt, sé til þess fallið að styrkja stöðu íslenskra útflutningsfyrirtækja, þ.e. þeirra sem stunda útflutning á því sem kalla má hluti með tvíþætt notagildi. Þar er t.d., eins og kemur fram í þeim þremur fylgiskjölum sem þessu fylgja, ýmiss konar hugbúnaður sem við höfum þróað, til að nýta í borgaralegum tilgangi sem er líka hægt að nýta í hernaðarlegum tilgangi. Í sumum tilvikum er hann það sérhæfður að hann kann að vera eftirsóttur af þeim sökum. Þetta frumvarp tryggir líka að sérhæfð hátæknivara sem við flytjum inn sem íhlut í okkar framleiðslu eða framleiðum hér á landi og flytjum út, verði ekki flutt út til landa sem eru á bannlista þeirra ríkja sem við störfum með. Það er mikilvægt að fyrirtækin geti treyst því að útflutningur brjóti ekki í bága við alþjóðlegar skuldbindingar vegna þess að það getur haft í för með sér neikvæðar afleiðingar fyrir fyrirtækin sjálf en líka ríkin sem fyrirtækin eru staðsett.
Í stuttu máli, frú forseti, eru þetta meginatriði þessa frumvarps sem er tiltölulega einfalt og hefur tveimur sinnum áður komið umræðu. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. utanríkismálanefndar.