Íslandsstofa

Þriðjudaginn 10. nóvember 2009, kl. 16:13:16 (0)


138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hæstv. utanríkisráðherra að greinin hefur sannarlega notið sín og notið þróttar síns og möguleika m.a. vegna gengis íslensku krónunnar og þeirra aðstæðna sem greinin hefur haft upp á að bjóða í sumar. En það er einmitt það sem menn óttast því að ferðaþjónustan, eins og hæstv. utanríkisráðherra þekkir mjög vel, byggir markaðsstarf sitt, sem Íslandsstofa á að vinna að, eitt eða tvö ár fram í tímann. Hún gefur upp verð fyrir næsta ár ef ekki þarnæsta ár og ef allar þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin tekur hugsanlega eða ræðir alla vega um, til að mynda hækkun á tryggingagjaldi, um hækkun á vitagjaldi en ekki síst um tvöföldun á virðisauka á gistingu þá er það gjald sem verður tekið úr vasa þeirra þróttmiklu einstaklinga sem reka ferðaþjónustuna beint. Það verður tekið beint úr vasa þeirra. Þá horfum við ekki á jafnglæsilega niðurstöðu næsta haust og við sjáum núna vegna árangurs ferðaþjónustunnar á sl. sumri. (Forseti hringir.)