Íslandsstofa

Þriðjudaginn 10. nóvember 2009, kl. 16:19:32 (0)


138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þegar við erum að tala um að styrkja og efla ímynd Íslands þá gerum við það ekki síst í krafti þess að Ísland hefur ósnortna náttúru, einstaka náttúru en það hefur líka einstakar auðlindir, t.d. hinar endurnýjanlegu auðlindir sjávar. Ég hugsa að ef maður horfir aftur í tímann megi halda því fram með giska sterkum rökum að það sé einmitt hinn íslenski fiskur sem hafi kannski fyrst komið Íslandi á kortið. Auðvitað skiptir það miklu máli að hafa hann með og að hafa landbúnaðinn með. Við eigum okkur framtíð sem framleiðsluland á sviði matvæla, það er alveg á tæru. En þessu hefur Útflutningsráð sinnt mjög vel. Þetta er eitt af því sem kemur inn í dæmið í þeim pakka. Eins og ég sagði áðan, Útflutningsráð verður lagt niður en Íslandsstofa tekur yfir allt það starf sem það ráð hefur sinnt svo vel.

Til að svara spurningu hv. þingmanns þá er mér ekki kunnugt um að sjávarútvegur eða landbúnaður hafi ekki viljað vera með, mér er ekki kunnugt um það.